23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6074 í B-deild Alþingistíðinda. (4129)

Frumvarp til áfengislaga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér sýnist að menn séu að stefna að ástæðulausu í styrjöld. Það hefur mjög oft gerst að það hefur náðst samkomulag hér í deildinni um að menn séu úti til skiptis og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það verði leitað eftir slíku samkomulagi. Ef þetta er spurningin um að einhverjir þingmenn greiði ekki atkvæði á móti þeim sem eru við jarðarför eða eitthvað slíkt skil ég ekki annað en að það sé hægt að ná slíku samkomulagi og sé hægt að hafa þessa atkvæðagreiðslu núna og þannig sé hægt að komast hjá frekari átökum um þetta.

Mér finnst að forseti hljóti að geta leyst þetta mál með því að gera örlítið hlé og ræða við þingflokksformenn. Og sé erfitt að fá menn til að sitja hjá við atkvæðagreiðslu er ég reiðubúinn að taka þátt í slíku persónulega til að leysa það að menn standi hér í miklum deilum út af hlutum sem þessum sem ég tel algerlega ástæðulaust og þinginu ekki til sæmdar.

En ég mælist eindregið til þess við forseta að hann virði jafnt fjarvistir manna hvort sem þeir af persónulegum ástæðum geta ekki mætt hér kl. 2 eða kl. 5. Mér sýnist að þeir sem hér hafa talað hafi haft ærnar ástæður og ég ætla að það sé auðvelt að leysa þetta mál í friði ef menn hafa áhuga á því.