23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6075 í B-deild Alþingistíðinda. (4131)

Frumvarp til áfengislaga

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég bið afsökunar á því að þurfa að kalla úr sæti mínu eftir svari þegar ég legg fyrir hæstv. forseta spurningu sem snertir það mál sem nú er komið upp hér. En ég vil gjarnan fá að vita: Hver er sá þingmaður sem fær frest á atkvæðagreiðslu án þess að hafa farið fram á fjarvistarleyfi þegar öðrum þingmönnum er neitað um frest? Hver er sá þingmaður? Mér er neitað um frest. Eru þingmenn ekki jafnréttháir? Hver er þá sá þingmaður sem er rétthærri en aðrir? Hvernig stendur á því að forseti leyfir sér að gera þingmönnum mishátt undir höfði? Þessu vil ég mótmæla. Þingmenn hafa allir sama rétt. Einhver þingmaður sem ekki hefur fengið fjarvist hefur fengið frestun á atkvæðagreiðslu í málum. Aðrir þingmenn sem ekki geta verið viðstaddir á þeim tíma sem forseti hefur ákveðið, líklega þá í samráði við þann þingmann sem er nú fjarverandi, verða þá að vera án þess að neyta réttar síns í atkvæðagreiðslu. Þetta er furðuleg afgreiðsla og ég mótmæli þessu sem rangri fundarstjórn.