23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6081 í B-deild Alþingistíðinda. (4140)

Frumvarp um breytingu á áfengislögum

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs einungis vegna þess hve tímasetning atkvæðagreiðslu í dag hefur verið á reiki. Fyrst komu hv. þm. á boðuðum þingfundartíma og hugðust taka þátt í atkvæðagreiðslu samkvæmt boðaðri dagskrá. Síðan voru haldnir þingflokksfundir og það boð látið út ganga að atkvæðagreiðsla yrði látin verða kl. 5 og síðar eftir þó nokkrar umræður í deildinni tilkynnti hæstv. forseti úr forsetastóli að atkvæðagreiðslan yrði nú samt kl. 3.30. Því er það að ég spyr hvort hæstv. forseti hafi gert ráðstafanir til að láta þá hv. þm. vita sem gengið kunna að hafa úr húsinu eftir að boðað var til atkvæðagreiðslu kl. 5 og þeir missi því af þessari umræddu og mjög mikilvægu atkvæðagreiðslu og komi hingað kl. 5 þegar allt kann að verða afstaðið eftir þessar vandlegu athuganir þingheims.