23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6084 í B-deild Alþingistíðinda. (4152)

293. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hefur heilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna skorað á allar aðildarþjóðir að gera ráðstafanir til að draga úr neyslu áfengra drykkja um 25% fyrir nk. aldamót. Fréttir hafa borist af jákvæðum viðbrögðum margra þjóða við þessari beiðni og þegar komið fram fréttir um margs konar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, sem vonir standa til að muni leiða til minnkandi eða minni neyslu áfengis. Ekki hefur heyrst af neinni þjóð, a.m.k. ekki enn sem komið er, sem hefur brugðist öndvert við þessum tilmælum heilbrigðismálastofnunarinnar nema þjóðþing Íslendinga virðist ætla nú að samþykkja lög um aukna áfengisneyslu og ég vil benda á að fyrri fim. frv. viðurkenndu í umræðum hér á Alþingi að það mundi leiða til aukinnar neyslu áfengis. Ég segi nei.