24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6096 í B-deild Alþingistíðinda. (4166)

330. mál, rannsóknarnefnd til að kanna hvort starfsmenn lögreglunnar virði friðhelgi einkalífsins

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um stuðning minn við þá þáltill. sem hér er til umræðu og skýra nokkuð mín sjónarmið þar. Það hafa að vísu þegar komið fram mikilsverðar upplýsingar frá lögreglustjóranum í Reykjavík sem innlegg inn í þessa umræðu, sem hv. 1. flm. Guðrún Helgadóttir las hér upp fyrir þingheim, og skýrir það þetta mál að verulegu leyti. Ég vil hins vegar segja að það er alvarlegt mál þegar það kemur fram í opinberum fjölmiðlum að einstaklingar ásaka lögreglu Íslands um að njósna um sig á hinn versta máta með grófum persónunjósnum, svo sem að póstur sé rannsakaður eða gengið er á annan hátt á rétt hans með símahlerunum og öðru slíku, og er náttúrlega ekki verjandi ef svo er gert nema í sérstökum tilvikum eins og komið hefur fram og að þá þarf að leita dómsúrskurðar. Ég verð þó að segja í þessu sérstaka máli að það er mjög einstakt má segja. Það hefur þegar komið fram að lögreglan hafnar því alfarið að póstur hafi verið rannsakaður eða sími hleraður eða á annan hátt hafi hún brotið lög. Hins vegar viðurkennir lögreglan að hún hafi fylgst með tilteknum manni ákveðinn tíma þegar hér stóð yfir athygli verður fundur á margan máta. Ég minni á í þessu sambandi að einum degi fyrr var einn, að margra mati, yfirlýstur hermdarverkamaður, Paul Watson, stöðvaður á Keflavíkurflugvelli og vísað úr landi vegna þessa fundar. Við erum ekki vanir hermdarverkum, Íslendingar, og við viljum þau ekki nærri okkur og það er vitað mál einnig að sá einstaklingur sem hér sakar lögregluna um grófar persónunjósnir er yfirlýstur aðili að þeim samtökum sem hér um ræðir þannig að það þarf í sjálfu sér ekki að undrast það þó að lögreglan hafi fylgst náið með þeim manni.

Hitt er aftur annað mál og ég vil leggja á það skýra áherslu að ég get engan veginn fallist á það að lögreglan sem og aðrir geti haft leyfi til þess að kanna með nánum hætti líf einstaklinga hér á landi og get ég því fallist á að þessi till. nái fram að ganga og skrifað upp á sem slíkur að ég vil fá það fram í eitt skipti fyrir öll hvort um sé að ræða að lögreglan geri slíkt. Það er ekki gott ef hver og einn fer að halda því fram í fjölmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi að lögreglan opni póst hans, pakka eða sími sé hleraður hjá honum og því taldi ég fulla ástæðu til þess að þáltill. væri flutt þannig að í ljós komi hvort þær ásakanir eigi við rök að styðjast, sem ég í sjálfu sér efa að eigi sér stað í þessu tilviki, sbr. bréf lögreglustjóra sem hér hefur verið lesið upp,, og kveða þá niður í eitt skipti fyrir öll slíkan áburð. Í því felst í raun og veru stuðningur minn við þessa þáltill.