24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6098 í B-deild Alþingistíðinda. (4168)

330. mál, rannsóknarnefnd til að kanna hvort starfsmenn lögreglunnar virði friðhelgi einkalífsins

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir undirtektir hans.

Hér er þetta einstaka mál ekki aðalatriðið og ég skal engan dóm á það leggja hvort þeim aðferðum hafi verið beitt sem umræddur maður í þessu ákveðna tilviki heldur fram. Það er heldur ekki aðalatriðið. Við höfum orðið óþyrmilega vör við það á undanförnum vikum að starfshættir lögreglunnar þarfnist aðhalds og nægir að minna á að menn hafa beðið tjón á heilsu sinni af viðskiptum við lögreglu, sem er auðvitað tilvik sem ekki má eiga sér stað, og við því hefur verið brugðist á réttan hátt að því að ég tel. Mönnum ber hins vegar engan veginn saman um að það sé alveg rétt að þeim aðferðum sé ekki beitt sem hér hefur verið minnst á án þess að dómsúrskurður lægi fyrir. Þetta þarf einfaldlega að rannsaka. Hvarvetna í samfélögum sem kenna sig við lýðræðislegt stjórnarfar er það ákvæði í stjórnarskránni sem tryggir friðhelgi einkalífsins eitt af grundvallaratriðum mannréttinda og frelsis einstaklingsins til að lifa lífi sínu án íhlutunar yfirvalda. Í lýðræðisríkjum eiga menn að hafa óskorað frelsi til orða og athafna svo fremi sem það brýtur ekki í bága við landslög. Andhverfa lýðræðisríkisins er lögregluríkið þar sem stjórnvöld og lögregla hirða hvergi um mannhelgi eða frelsi til orðs og æðis heldur beita valdi sínu í eigin þágu án minnsta tillits til mannréttinda. Enginn Íslendingur velkist í vafa um hvort stjórnarfarið hann kýs fremur og öll viljum við standa vörð um þá þjóðfélagsgerð, sem við höfum kosið okkur, sem við köllum þjóðfélag lýðræðis og þingræðis.

Það er grundvallaratriði í sérhverju lýðræðisríki að landsmenn eigi góð samskipti við lögreglu, virði störf hennar og líti á þau sem mikilvægan þátt í samstarfi beggja aðila við að halda uppi lögum og reglu í landinu. En því aðeins getur lögreglan búist við trausti manna að innan hennar starfi vel menntaður hópur manna sem ævinlega hefur það að leiðarljósi að allir menn eigi afdráttarlausan rétt til friðhelgi svo lengi sem þeir gerast ekki brotlegir við landslög. Það hlýtur að vera okkur öllum í hag, lögreglunni og landsmönnum öllum, að úr því sé skorið svo að ekki verði um villst að lögreglan virði stjórnarskrá landsins til hins ýtrasta og standi vörð um mannréttindi okkar og friðhelgi einkalífs. Því að verði brestur í trúnaði lögreglu og annarra landsmanna getur komið til örðugleika sem illt kann að reynast að lagfæra. Ekki síst kynni fólki að reynast erfitt að innræta börnum sínum þá virðingu fyrir lögreglunni sem eðlileg er og nauðsynleg í hverju siðmenntuðu samfélagi þar sem menn vilja lifa saman í sem bestri sátt og samlyndi.

Lögreglustjóra er ég þakklát fyrir að hafa skrifað mér það bréf og okkur flm. sem ég hef hér lesið og var sjálfsagt að gera það af því að ég er ekki með þessari till. að ráðast að honum sem slíkum eða embætti hans. Ég held hins vegar að það geti enginn annar en Alþingi verið aðhaldsaðili fyrir lögregluna í landinu og undirstöðuatriði að þar sé unnið með þeim hætti. Enn þá sýnist mér þó þrátt fyrir bréf lögreglustjóra og yfirlýsingu hans ýmislegt óljóst í þessu máli sem ég á illt með að sætta mig við. Ég skal ekki draga dul á að ég hef spurst fyrir um meinta póstskoðun og þar ber embættismönnum tveggja embætta ekki saman. Menn kannast við það á póststofu að póstur sé skoðaður. Ég veit ekkert um þetta og vil engan dóm á það leggja, en ég held að það hljóti að vera skylda okkar hér að sjá um að þeim grundvallarmannréttindum, sem allt samfélag okkar byggist á, sé veitt aðhald og þau tryggð. Ef við ekki gerum það veit ég ekki til hvers við erum hér.

Ég er því þakklát hæstv, dómsmrh. fyrir að taka undir það að eðlilegt sé að rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar. Til þess er óneitanlega nokkur ástæða, ekki bara þetta eina mál heldur hafa og verið umræður í dagblöðum undanfarið þar sem menn segja ófagrar sögur af viðskiptum sínum við lögreglu. Slíkt má auðvitað ekki eiga sér stað.

Ég hef margsinnis bent á að nokkuð kunni að skorta á um menntun þeirra sem til lögreglu ráðast. Ég held að allar þjóðir kannist við að það er tilhneiging til að í þau störf leiti e.t.v. menn sem hafa of gaman af valdi. Öll vitum við að til skamms tíma, sem betur fer hefur það breyst, voru menn næstum valdir til lögreglumannastarfa eftir líkamsstærð og burðum. Ég held að þar þyrfti allt annað að leggja til grundvallar. Þetta er mikilsverð stétt og ber að búa vel að henni í alla staði, velja til hennar hæfa menn sem hafa skilning á mannlegu samfélagi, er vel til samborgara sinna og líta fremur á sig sem aðstoðarmenn borgaranna en sem refsiaðila. Þetta er mjög mikilvægt. E.t.v. hefur Alþingi ekki skilgreint þessi störf nógu vel, en það er þá kominn tími til þess að það sé gert. Þess vegna taldi ég þegar ég las þessa tímaritsgrein, án þess að vita raunar nokkurn skapaðan hlut þá um þetta mál eða af hverju það var upp komið, að komið væri nægilegt tilefni til að farið verði ofan í það í fullri vinsemd og í fullu og góðu samstarfi við lögregluyfirvöld og dómsvaldið í landinu hvernig starfshættir séu hafðir í frammi innan lögreglu og hvort ekki sé fylgt ýtrustu kröfum um lýðræði og rétt borgaranna í þeim störfum. Ég held að það sé langt frá því óeðlilegt að slík nefnd setjist niður og skili Alþingi skýrslu um niðurstöður sínar fyrir þingbyrjun 1988. Ég held að það mundi eyða misskilningi, það mundi vera öllum í hag, landsmönnum, lögreglunni sjálfri, dómsvaldinu í landinu og hinu háa Alþingi að slík vinna yrði unnin nú á komandi sumri. Ég treysti því að hv. alþm. skilji að þessi till. er ekki fram komin vegna þess tilefnis sem olli því að þessi maður varð fyrir fylgd lögreglunnar. Það er þessu máli með öllu óviðkomandi. Ég hefði borið þessa till. fram af hvaða öðru tilefni sem er. Ég vil koma í veg fyrir það í eitt skipti fyrir öll að menn rugli því saman sem ég var satt best að segja hrædd um þegar mér varð ljóst að það var inni í dæminu. En hér er ekki verið að tala um það heldur miklu, miklu þýðingarmeiri atriði en svo. Það er nú einu sinni svo að hér er skoðanafrelsi í landinu og þó að menn séu ósammála um einhver málefni verður að tryggja að menn njóti fyllstu mannréttinda. Ég vil því fara fram á það við hv. allshn. að hún sinni þessu máli í fullri alvöru og sýni því skilning til hvers þessi till. var flutt.