24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6106 í B-deild Alþingistíðinda. (4177)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir til jöfnunar á orkuverði, 371. máli á þskj. 703, sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Kristjánssyni, Guðna Ágústssyni, Valgerði Sverrisdóttur, Ólafi Þ. Þórðarsyni, Stefáni Guðmundssyni, þ.e. þingmönnum úr sex kjördæmum landsins. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir næsta þing tillögur um aðgerðir til jöfnunar á orkuverði í landinu.

Sérstök áhersla verði lögð á jöfnun kostnaðar við upphitun húsa. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1989 verði gert ráð fyrir fjármagni til slíkra aðgerða.“

Ég vil, með leyfi forseta, einnig lesa úr grg. sem fylgir þessari þáltill., en þar segir:

„Þegar hin mikla hækkun varð á olíu á heimsmarkaði sem orsakaði alvarlega röskun á efnahagskerfi heimsins hafði hún þau áhrif hér að við blasti alvarleg efnahagskreppa þar sem innflutt olía var einn aðalorkugjafi hér á landi.

Við þessu var brugðist með því að ráðast í stórframkvæmdir í virkjun innlendra orkugjafa, reist raforkuver og hitaveitur og tekin til þess erlend lán í stórum stíl.

Jafnframt gerðu stjórnvöld ráðstafanir til að hvetja fólk til að leggja af olíuupphitun og þeir landsmenn, sem ekki voru svo lánsamir að fá hitaveitu. notuðu raforku í stað olíu.“ - Jafnhliða þessu var gert skipulagt átak til orkusparnaðaraðgerða í einangrun húsa t.d. með því að bæta hitanýtingu sem skilaði mjög góðum árangri.

„Þjóðin var samstiga í þessum aðgerðum og á örskömmum tíma má segja að öll híbýli manna á Íslandi væru annaðhvort tengd hitaveitu eða raforku. Niðurgreiðslum á olíu til upphitunar var hætt. Stjórnvöld lofuðu jöfnun á orkuverði, var miðað við að orkuverð yrði sambærilegt um land allt. Það var sjálfsögð skylda stjórnvalda þar sem þjóðin hafði sinnt kalli um að nýta innlenda orku í stað innfluttrar sem tók stærstan hluta af gjaldeyristekjum landsins. Ekki þarf að rekja þessa sögu frekar í þessari stuttu greinargerð.

Áform stjórnvalda um að jafna orkuverð í landinu hafa því miður ekki tekist. Mikilvægar hitaveitur hafa lent í miklum þrengingum vegna erfiðra erlendra lána, verðið því ekki lækkað eins og áætlað var. Miklu alvarlegra er þó að verð á raforku til upphitunar hækkar jafnt og þétt og jafnhliða er dregið úr niðurgreiðslum.

Landsvirkjun ræður heildsöluverði raforku og Rafmagnsveitur ríkisins eru reknar með auknum halla.

Verð á raforku til húshitunar hefur hækkað frá 1. janúar 1987 til loka febrúar 1988 um allt að 50%. Það sem er alvarlegast í þessum samanburði er að sé miðað við heimsmarkaðsverð á gasolíu í dag er 80% dýrara að hita upp atvinnuhúsnæði með rafmagni og 35% dýrara að hita upp íbúðarhúsnæði - þrátt fyrir niðurgreiðslu á rafhitun til íbúðarhúsa - heldur en með innfluttri gasolíu. Þetta háa orkuverð hjá rafveitum og sumum hitaveitum bitnar nær eingöngu á íbúum landsbyggðarinnar; eru þar mýmörg dæmi um upphitunarkostnað sem er tvöfalt til fjórfalt hærri en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Orkukostnaður í atvinnurekstri út um land er orðinn fyrirferðarmesti liðurinn í rekstri fyrirtækja, ekki síst í fiskvinnslu og orkufrekum iðnaði.

Ekki er hægt að ætlast til að fólk almennt taki á ný upp kyndingu með olíu þar sem öll slík kerfi hafa verið fjarlægð og eingöngu miðað við útbúnað fyrir raforku og/eða hitaveitu. Slíkar breytingar mundu kosta stórfé og hafa í för með sér ýmis vandamál.

Við þessum vanda verður að bregðast með áþreifanlegum aðgerðum. Það má ekki dragast, annars verða afleiðingar þessa alvarlegri en menn sjá nú fyrir. Hluti þjóðarinnar, sem er þolendur þessa háa orkuverðs, getur ekki lengur við þetta búið, afleiðingarnar verða stórfelldur tilflutningur fólks frá landsbyggðinni sem getur haft í för með sér stærri efnahagsvanda fyrir þjóðarbúið í heild en nú blasir við.

Þessi þáltill. er flutt sem tilraun til þess að fá Alþingi til að láta í ljósi ákveðna viljayfirlýsingu um að láta leysa þetta mál á þessu ári og yrði hún staðfest með afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.“

Þannig hljóðar grg. með þáltill.

En herra forseti. Hvers vegna erum við framsóknarmenn, þar með taldir þingmenn stjórnarliðsins á hv. Alþingi, að flytja slíka þáltill.? Er ekki greið leið að fá ríkisstjórnina til að gera ráðstafanir til jöfnunar orkuverðs? Svarið er ósköp einfalt: Við teljum að ástand þessara mála hafi breyst til hins verra síðustu mánuði umfram það sem menn almennt gera sér grein fyrir, t.d. við afgreiðslu fjárlaga þegar ríkisstjórnin lagði að okkur stuðningsmönnum sínum að fallast á tillögur ríkisstjórnarinnar um lægri niðurgreiðslur á raforku til húshitunar. Síðan kemur á daginn að staða RARIKs og Orkubús Vestfjarða er mjög alvarleg og síðasta hækkun á orðuverði eftir áramót breytti þessari stöðu algjörlega langt umfram það sem hægt var að reikna með.

Við landsbyggðarþingmenn stöndum ... (Iðnrh.: Hvað hækkun eftir áramót?) Það var hækkun um áramót, hæstv. ráðherra. (Iðnrh.: Hvenær eru áramót hjá hv. þm.?) Ég þarf ekki að svara þessu. Hæstv. ráðherra getur komið upp á eftir og gert grein fyrir sínu máli. Við landsbyggðarþingmenn stöndum þá frammi fyrir staðreyndum um vaxandi mismun á orkuverði sem okkar fólk verður að greiða. Samþykktir sveitarstjórna, samtaka og bréf frá einstaklingum sýna svo ekki verður hrakið að við þetta ástand er ekki hægt að búa. Jafnframt þessu hefur borið á því hér á hv. Alþingi og raunar í fjölmiðlum að stofnanir orkumála og hæstv. iðnrh. draga í efa að þessi mismunur sé svo mikill og til þessa hefur ekki orðið vart sýnilegra viðbragða stjórnvalda um skjótvirkar aðgerðir í þessu máli. Þess vegna teljum við flm. þessarar þáltill. ekki fært annað en að koma með þetta viðkvæma mál inn á Alþingi og reyna að fá fram viljayfirlýsingu til hæstv. ríkisstjórnar um aðgerðir sem síðan verði staðfestar í fjárlögum 1989.

Stutt er í þinglok. Þess vegna er mikilvægt fyrir framgang málsins í heild að flýta afgreiðslu þess og styrkur fyrir hæstv. ríkisstjórn og hæstv. iðnrh. ef Alþingi vill gera hér á breytingar, leiðrétta það augljósa misrétti sem fólk víðs vegar um landið verður að búa við.

Ég tel nauðsynlegt að taka nokkur dæmi um kvartanir landsbyggðarfólks um þetta stóra mál. Fyrir utan bréf frá einstaklingum vil ég nefna samþykktir fjölmargra sveitarstjórna, frá bæjarstjórn Ólafsvíkur, bæjarstjórn Stykkishólms. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna í t.d. bréf frá bæjarstjórn Stykkishólms, sem var gerð 3. mars sl., en þar stendur: „Bæjarstjórn Stykkishólms skorar á stjórnvöld að gera ráðstafanir til að lækka orkuverð. Orkukostnaður er mjög mikill hluti útgjalda hjá fyrirtækjum og heimilum. Raforka er nær eingöngu notuð til hitunar í Stykkishólmi. Hækkun raforkuverðs kemur því hart niður á notendum.“

Ég vitna einnig í greinar frá fjölmörgum aðilum í hverri viku sem birtast m.a. í Morgunblaðinu. Ég vitna til borgarafundar á Neskaupstað þar sem skorað er á stjórnvöld um að jafna orkuverð í landinu. Ég vitna til greinar í Morgunblaðinu 8. mars sl. eftir Jóhannes Benediktsson, framkvæmdastjóra í Búðardal, sem er einn af framámönnum í Sjálfstfl. á Vesturlandi, en þar segir, með leyfi forseta:

„Nú í janúar var gerð könnun á orkukostnaði nokkurra aðila hér í Dalasýslu. Könnunin gekk út á það að bera saman húshitunarkostnað þeirra sem farið hafa eftir hvatningu stjórnvalda um að nota innlenda orkugjafa, í þessu tilviki raforku í stað olíu.“

Síðan fylgir tafla um þessa úttekt sem er gerð á fjölmörgum atvinnufyrirtækjum í Dalasýslu og fjölmörgum húsum í Búðardal og í sýslunni. Þessi samanburður er gerður af rafveitustjóranum í Búðardal og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þessi könnun byggi á staðreyndum, enda eru forsendurnar gefnar í þessum töflum. En niðurstaða könnunarinnar er sú að rafmagn er 78,6% dýrara en gasolía til hitunar á atvinnuhúsnæði í Dalasýslu, en 34,3% dýrara til hitunar á íbúðarhúsnæði þrátt fyrir niðurgreiðslur úr ríkissjóði.

Ég vil bæta því við að sú alvarlega staðreynd birtist nú þessa dagana að það er tilkynnt opinberlega að verð á raforku frá Landsvirkjun eigi að hækka núna 1. maí nk. og Reykjavíkurborg hefur þegar ákveðið að hækka verð á raforku í Reykjavík.

Herra forseti. Það mætti margt fleira taka til sem sýnir hversu alvarlegt mál er hér á ferð og eitt af stærri málum er varðar alvarlega byggðaröskun í landinu. Og hvað er þá til ráða? Nefndar hafa verið ýmsar hugmyndir svo sem orkuskattur á öll orkufyrirtæki í landinu, jafnvel tekjuskattur. Ég tel slíkar aðgerðir vafasamar og sé ekki hvernig þær gætu skilað lægra orkuverði.

En til að mæta þeim vanda sem blasir við í dag og verður að leiðrétta fljótt tel ég auknar niðurgreiðslur eina leiðina sem hægt er að grípa til til að jafna neikvæðan mismun á verði olíu og raforku. Ég tel að taka verði til endurskoðunar stöðu Landsvirkjunar og RARIKs. Væri t.d. ekki eðlilegt að heildsöluverð á raforku til upphitunar væri miðað við svokallað jaðarverð sem væri miðað við langan tíma og ætti að geta stórlækkað verðið til upphitunar strax, þ.e. ákvörðunarverð Landsvirkjunar? Kemur ekki til greina að Landsvirkjun verði látin endurskoða öll sín lánamál með það markmið að leitað verði eftir langtímalánum sem minnkar þörf á háu orkuverði? Afskriftartími virkjana hlýtur að vera langur. Í umræðum um nýtt álver eða stóriðju býður Landsvirkjun orkuverð sem miðast við allt að 40 ára greiðslutímabil, en almenna orkuverðið er miðað við svo til daglega kassastöðu fyrirtækisins þar sem greiðslubyrði lána virðist miðuð við tíu ár. Kemur ekki til greina að tímabært sé að setja ný lög um Landsvirkjun þar sem staða RARlKs sé tekin með í þá mynd?

En aðalatriðið er að tekið sé á þessum málum. Landsvirkjun á ekki að vera ríki í ríkinu. Landsvirkjun er stórkostlegt tæki allra landsmanna til að hafa yfirumsjón og framkvæmd uppbyggingar orkuvera landsins og um leið að sjá um orkuþörf allra landsmanna á sambærilegu verði hvar sem þeir búa í landinu.

Hæstv. iðnrh. ritar grein í Morgunblaðið 19. þ.m. þar sem hann m.a. sendir okkur flm. þessarar þáltill. kveðjur, ber okkur á brýn furðulega sýndarmennsku. Jafnframt telur hann rangar tölur og rangan samanburð áberandi í allri umræðu um orkuverð. Ég tel mig hafa komið inn á röksemdir sem afsanna þessar fullyrðingar hæstv. ráðherra. Ég vil hins vegar lýsa ánægju minni og okkar flm. yfir þeirri yfirlýsingu hæstv. iðnrh. í sömu grein að von sé á tillögum um jöfnun orkuverðs. Það eru meiri tíðindi en við gátum vænst. Jafnframt segir hæstv. iðnrh. að skipuð hafi verið til að gera slíkar tillögur þriggja manna nefnd skipuð fulltrúum frá fjmrn., iðnrn. og Framsfl. og eru fulltrúar tilgreindir í nefndina.

Það hlýtur að vera ánægjuefni fyrir okkur baráttufólk í þingflokki Framsfl. í þessu máli að sérstaklega skuli tilnefndur fulltrúi okkar flokks í þriggja manna embættismannanefnd ráðuneytis til að finna lausnir á þessu vandamáli. Hins vegar hlýt ég að upplýsa að umrædd nefndarskipun hefur ekki komið á borð okkar þingflokks á þeim tíma sem þetta var til umræðu og engin vitneskja var þar um, enda þótt þær staðreyndir rýri ekki ánægju okkar með þessa málaskipan hæstv. ríkisstjórnar og iðnrh. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér kom umrædd embættismannanefnd til fyrsta fundar 17. mars sl. Ég ber fyllsta traust til þess fólks sem skipar umrædda nefnd og raunar einnig til hæstv. iðnrh. og vona heils hugar að frá henni komi árangursríkar tillögur, en það rýrir ekki gildi þess að Alþingi fjalli um þáltill. á þskj. 703.

Hæstv. forseti. Ég skal ekki hafa lengra mál um þetta að sinni, en ég vil mælast til þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og hv. allshn.