24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6110 í B-deild Alþingistíðinda. (4178)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Hæstv. forseti. Í tilefni af tillöguflutningi nokkurra hv. þm. Framsfl. tel ég ástæðu til að segja nokkur orð við fyrri umr. þessa máls. Það er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem þessi mál hafa verið til umræðu á hv. Alþingi, bæði vegna fsp. sem fram hafa komið og eins vegna tillöguflutnings sem er af sama toga og var frá nokkrum hv. þm. Alþb. Þar var hv. þm. Þórður Skúlason fremstur í flokki.

Mig langar fyrst til að geta þess að í núverandi raforkukerfi er veruleg jöfnun á raforkuverði sem gerist fyrst og fremst vegna þess að Landsvirkjun, sem selur raforkudreifingarfyrirtækjunum orku, hefur ákveðna sölupunkta og sama verð er frá öllum sölupunktum Landsvirkjunar og er ekkert tekið tillit til mismunandi flutningskostnaðar þegar það verð er ákveðið. Þetta þýðir að rafmagn sem selt er við Mjólká kostar það sama og rafmagn sem selt er á sölupunktum á Suðurlandi jafnvel þótt að ljóst sé að langmestur hluti rafmagnsins eigi rætur að rekja til virkjana á Suðurlandi. Í þessu felst auðvitað veruleg jöfnun á raforkuverði.

Í öðru lagi vil ég nefna að það er ekki söluskattur af rafmagni sem er til upphitunar né heldur á hitaveitukostnaði né heldur á olíu og ég vík síðar að því. Hins vegar er söluskattur á allri almennri notkun rafmagnsins og ég geri ráð fyrir að ríkissjóður hafi fengið á sl. ári hvorki meira né minna en yfir 700 millj. kr. eingöngu vegna söluskatts á almenna notkun rafmagns. Það sem kannski er alvarlegt við þetta er að það er ekki fólkið sem kyndir upp íbúðarhúsnæðið sem er að fara yfir í olíunotkunina.

Það eru fyrst og fremst fyrirtækin sem geta framleitt rafmagn með dísilvélum til að hita upp verulega stórt húsnæði sem hafa verið að hverfa yfir til notkunar olíu. Og þá er munurinn sá að íslenska ríkið - og ég bið hv. alþm. að taka vel eftir - tekur söluskatt af rafmagninu en ekki af gasolíunni. Hér er um mikilvæga mismunun að ræða á innfluttri og innlendri orku.

Í þriðja lagi vil ég nefna í þessari umræðu, þegar því er nánast haldið fram að ekkert hafi verið gert í þessum málum og það hafi ekki verið jafnað verð, að þegar verðjöfnunargjaldið var tekið úr sambandi á sínum tíma tók ríkið yfir verulegar skuldir af raforkugeiranum, svo miklar að hæstv. fjmrh. kom í ræðustól á Alþingi og sagði: Ef neytendur orkunnar í landinu ættu að borga allan kostnaðinn mætti lækka alla tekjuskatta einstaklinga um 20%, um fimmtung. Og hann nefndi tölur í þessu sambandi, sem voru hátt í 9 milljarða, sem skattgreiðendur, hvar sem þeir búa, hvort sem þeir búa á hitaveitusvæðum eða annars staðar, hafa tekið að sér að greiða fyrir orkuneytendur. Það er stórkostleg jöfnun á orkuverði sem fer fram með þessum hætti. Við skulum hins vegar viðurkenna að mikill hluti þessa kostnaðar var tilkominn vegna ýmissa mistaka og óheppni sem við urðum fyrir í okkar orkubúskap á sínum tíma.

Alþýðublaðið gekk svo langt að segja að orkuverðið í landinu væri falsað. Það væri allt of lágt. Þannig eru tvær hliðar á þessu máli þegar menn ræða það.

Það sem þó skiptir öllu máli er að menn viðurkenni ákveðnar staðreyndir og mér þykir leitt til þess að vita þegar menn koma hér í ræðustól, jafnvel í hverri umræðunni á fætur annarri um þessi mál, og halda fram tómri vitleysu. Ef við lítum á húshitunarkostnaðinn með raforku og berum saman þann kostnað við árin á undan og setjum þetta á fast verðlag — mér er alveg sama hvort miðað er við lánskjaravísitölu, byggingarvísitölu, launavísitölu eða framfærsluvísitölu — kemur í ljós að í ár verður húshitunarkostnaður með raforku hærri en í fyrra, hærri en í hittiðfyrra, svipaður og árið þar áður, kannski aðeins hærri, en mun lægri en flest árin þar á undan. Þetta kemur rækilega fram og er undirstrikað í fskj. með till. hv. þm. Alþb. sem þeir fluttu fyrr á þessu þingi og mæltu fyrir og talsverðar umræður urðu um. Þetta eru staðreyndir málsins.

Það sem hins vegar hefur gerst og menn virðast ekki einu sinni vilja tala um, ekki einu sinni hv. síðasti ræðumaður, er að olía, innflutti orkugjafinn hefur lækkað um 65% frá árinu 1983. Á þeim árum sem við vorum að segja við fólk: Nú skulum við hverfa yfir til innlendu orkugjafanna, nú skulum við nota það sem er íslenskt í þessum efnum, þá hefur olían lækkað niður í það sem hún var þegar hún var lægst á 7. og 6. áratugnum. Það eru engar líkur til þess að hún hækki fyrr en eftir miðjan næsta áratug að því er spámenn segja í þessum efnum. Þetta er sú samkeppnisstaða sem við erum í í dag. Þar að auki, eins og ég hef sagt áður, gerist það að íslenska ríkið skattleggur ekki þessa orku. Það gera nágrannar okkar, Danir, til að jafna út sveiflurnar og til að gera ekki mun á orkugjöfunum. En almennir notendur íslenskrar orku verða að sætta sig við að borga söluskatt.

Tökum dæmi af því að ég veit að hv. síðasti ræðumaður er úr sjávarplássi: Skip sem leggst að í Ólafsvík og fær rafmagn af hafnarbakkanum þarf að borga það háu verði. Það borgar sig fyrir skipsmenn að keyra ljósavélar á togurunum og bátunum og framleiða þannig rafmagn með gasolíu vegna þess að verðið er lágt, en líka vegna þess að rafmagnið sem kemur úr landi er skattlagt, en gasolían sem útgerðin notar og sem hefur lækkað stórkostlega er skattlaus. Ég bendi mönnum á slíkar staðreyndir nú þegar samanburðurinn fer af stað í þessum efnum.

Frá 1983 hefur það gerst að gasolíulítrinn hefur lækkað um 65%. Frá 1983 hefur orkukostnaðurinn fenginn frá rafmagni til upphitunar á húsum lækkað um 13%. En Hitaveita Reykjavíkur, hvað skyldi hún hafa breytt sínum töxtum? Hún hefur hækkað á sama tíma um 50% eða um það bil. Mest vegna þess að á árunum þar á undan hafði verið haldið niðri gjaldskrám í Reykjavík þar sem vísitölufjölskyldan bjó með þeim hætti að fyrirtækið, sem átti að geta verið mesta gróðafyrirtæki í landinu, Hitaveita Reykjavíkur, var rekin með dynjandi halla og safnaði skuldum. Sem betur fer hefur verið horfið frá slíkri flónsku í verðlagningu á gæðunum í Reykjavík.

Það sem er kannski stærsta vandamálið í þessum efnum eru þær skuldir sem hafa safnast upp hjá annars vegar Rafmagnsveitum ríkisins og hins vegar hjá Orkubúi Vestfjarða. Það er gert ráð fyrir að í lok þessa árs verði þessar skuldir 1600 millj. kr. og ég hef fengið ágætan verkfræðing, hv. alþm. Kjartan Jóhannsson, sem var í verðjöfnunargjaldsnefndinni á sínum tíma, til að meta hvort staðið hafi verið við það fyrirheit þegar verðjöfnunargjaldið var lagt af að fyrirtækin, sem dreifa orkunni, Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins, stæðu jafnsett eftir þá breytingu og áður. Niðurstaða hv. þm. Kjartans Jóhannssonar er að svo sé ekki og ríkið þurfi að taka á sig meiri byrðar.

Það sem hins vegar skiptir máli er að átta sig á að þessi skuldahali er ekki kominn út í verðlagið og mér ber skylda til þess ef ekki fæst lausn á þessum málum á næstunni að hækka verð á raforku frá Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins um ca. 12%. Þess vegna er brýnt að farið sé í þetta mál og það sé tekið á því eins og hjá mönnum. (KP: Á hverju strandar?) Það skal hv. þm. spyrjast fyrir um í sínum eigin þingflokki. (KP: Ég er að spyrja hæstv. ráðherra.) Það er ekki allt sem strandar á Arafat, en Arafat er í sumum þingflokkum öðrum fremur en í mínum. (KP: Ha?) Ja, flokkar sem kenna sig við A ættu að geta áttað sig á því.

Það sem ég hins vegar ætti að segja strax er þetta: Það er 30. des. sl. sem ég skrifa fjmrh. og bið hann um að við gætum átt viðræður um þessi mál og reynt að leysa. Það gekk heldur hægt framan af, en viðræður hófust og ég fagnaði því að sjálfsögðu 1. mars sl. að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í ræðu í hv. Ed. vegna efnahagsráðstafana að ekki mætti bíða með að leysa þessi mál. Síðan var ákveðið að fulltrúi Framsfl. kæmi inn í þetta starf og áður en ég sá þá till. sem hér er til umræðu var mér tilkynnt að Hermann Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður sjútvrh., mundi taka þátt í þessum nefndarstörfum. Það var áður en þessi tillaga kom fram. Þessi tillaga, sem hér er verið að ræða, kom fram án þess að ég hefði hugmynd um að það ætti að ræðast hér. Ég vil einungis segja að það hefði verið kurteisi af hv. 1. flm. a.m.k. að segja viðkomandi ráðherra frá því að von væri á slíkri tillögu. Ég vil taka sem dæmi að einn af flm., hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, ræddi við mig um hvernig ætti að standa að öðru máli, viðkvæmu máli á norðausturhorni landsins. Það eru sumir sem kunna mannasiði og aðrir ekki.

Hæstv. forseti. Ég er rétt að byrja mína ræðu. Ég var bara búinn að gleyma því að það var ekki ótakmarkaður ræðutími í þessu máli. Ég kemst líklega ekki miklu lengra, en verð þá að óska eftir því að fá að tala síðar og klára mína ræðu því að það er langt frá því að ég hafi komið þeim atriðum að sem ég tel nauðsynlegt að þurfi að komast að í þessari umræðu. Ég vil þó, ef ég reyni ekki of mikið á þolinmæði forseta, fá að segja örfá orð í lokin.

Það er í fyrsta lagi að hv. síðasti ræðumaður sagði að raforka hefði hækkað eitthvað frá áramótum. Síðasta hækkun hjá Rafmagnsveitum ríkisins var 1. des. áður en fjárlög voru afgreidd. Ég veit ekki betur en hv. síðasti ræðumaður sé í fjvn. og hafi haft fulla vitneskju um á hvaða forsendum sú hækkun var byggð. Hún byggðist á grundvelli fjárlaganna og átti að duga út þetta ár ef ekki kæmu til hækkanir frá Landsvirkjun eða þá að úrskeiðis færi sú verðbólga sem spáð var í fjárlagafrv. sem þm. þekkir betur en flestir aðrir.

Auðvitað er það styrkur fyrir hæstv. iðnrh., eins og hann sagði, ef menn stæðu við bakið á honum í ýmsum málum, eins og hann þykist vera að gera í þessu máli, og mætti hann gjarnan skila því til framsóknarmanna sem voru að greiða atkvæði gegn stjfrv. ráðherrans í gær.

Vegna tilvitnunar frá Búðardal skal það aðeins sagt að ég hef þegar svarað viðkomandi aðila því sem kom fram í hans bréfi og leiðrétt missagnirnar. Þetta er rangur útreikningur. Það er vegna þess að það er ekki tekið tillit til allra kostnaðarliða sem varða gasolíuna og hvernig á að hita upp hús með gasolíu. Þetta liggur fyrir og Orkustofnun hefur þegar farið í þá reikninga. Því hefur verið svarað á viðkomandi stað. Það er ljóst að munurinn er ekki 80% heldur, þegar búið er að taka tillit til niðurgreiðslnanna, er hann innan við 20%.

Hæstv. forseti. Ég mun taka þátt í þessum umræðum síðar, geri hlé í þessari ræðu minni, en óska eftir því að fá að taka til máls síðar í umræðunni.