24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6126 í B-deild Alþingistíðinda. (4190)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja hve orkuverð er mismunandi hér á landi. Einnig er öllum að verða það ljóst hvernig mismunurinn kemur fram, nú þegar neyðaróp berast frá landsbyggðinni vegna þessa og margir taka svo djúpt í árinni að telja að kostnaður vegna húshitunar sé veigamikill þáttur í fólksflóttanum til suðvesturhornsins og þeirri búseturöskun sem af honum hlýst.

Ég vil lýsa stuðningi Kvennalistans við efni þessarar tillögu og stuðningi okkar við hvert það mál sem hér kemur fram sem kann að verða til úrbóta á því misrétti sem fólk býr við í þessum efnum. Jafnframt vil ég lýsa þeirri skoðun að hér sé þó ekki nóg að gert. Það þarf að endurskoða skipulag raforkumála í landinu frá grunni og það er sannarlega athugunarvert hvort ekki mætti breyta verkaskiptingu á milli Rafmagnsveitnanna og Landsvirkjunar, t.d. að Landsvirkjun tæki að sér lagningu og viðhald háspennulína eða þá að lögum verði breytt og í hlut stjórnvalda komi að ákvarða gjaldskrá Landsvirkjunar.

Ýmsir menn sem kunnugir eru raforkumálum og raforkusölu fullyrða að heildsöluverð raforku frá Landsvirkjun sé allt að 50% hærra en það sem kalla mætti eðlilegt verð. Skýring á þessu er trúlega sú yfirlýsta stefna forráðamanna Landsvirkjunar að fyrirtækið verði skuldlaust um aldamót auk þess sem eigendum eru ætlaðar arðgreiðslur. Og ég spyr: Er nokkurt réttlæti í því að Landsvirkjun miði gjaldskrá sína alfarið við afkomu fyrirtækisins án þess að taka nokkurt tillit til hagsmuna almennings, hvað þá framleiðslufyrirtækja?

Landsbyggðin til sjávar og sveita stendur nú höllum fæti, fremur nú en oft áður, og lækkun orkuverðs er eitt brýnasta hagsmunamál landsbyggðarinnar nú um stundir svo sem hv. flm. rakti í framsögu og fram hefur komið í máli fleiri manna. Því vil ég lýsa stuðningi við þessa tillögu en ég lýsi jafnframt eftir afdráttarlausari framtíðaraðgerðum um lausn á þeim hnút sem raforkumál okkar eru komin í.