24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6147 í B-deild Alþingistíðinda. (4203)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil benda hv. síðasta ræðumanni á þær ræður sem hafa verið fluttar og verða prentaðar því að þar koma fram svör við ýmsum þeim spurningum sem hann hefur komið fram með í dag.

Í öðru lagi vil ég segja frá því að ríkisstjórnin ætlar sér að taka á þessu máli sem allra fyrst. Það er nefnd að störfum, það er fulltrúi iðnrn., fjmrn. og fulltrúi Framsfl. sérstaklega tilnefndur áður en þessi till. kom fram hér á hv. Alþingi. Mín skoðun er sú að ríkinu beri að aflétta skuldum af Orkubúi Vestfjarða og RARIK og skattgreiðendur þannig að taka þær yfir og efna þannig loforð sem gefið var þegar verðjöfnunargjaldið var niður lagt og koma þannig í veg fyrir að hækka þurfi orkuna nú um 12%. Þá þarf að auka niðurgreiðslur að mínu viti nú í ár. Og ég minni á að það er ekki nóg eingöngu að hugsa um rafhitun í þessu sambandi því að sumar hitaveitur selja sína orku á sama verði og Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða.

Í þriðja lagi þegar um virðisaukaskattinn verður að ræða á næsta ári sem væntanlega verður þá tekinn upp, þá gefst tækifæri til þess að líta frekar á þetta mál, enda mun virðisaukaskattur verða lagður á alla orkugjafa, bæði innflutta og innlenda.

Endurskipulagning fer nú fram. Það hafa verið gerðar athuganir á endurskipulagningu á orkukerfinu. Það starf tekur sjálfsagt einhvern tíma. Ég er hræddur um að ekki eigi að stækka Landsvirkjun meira og færa henni fleiri verkefni en hún hefur í dag, hún er þegar orðin það stór í kerfinu, frekar eigi að færa valdið heim.

Þá vil ég aðeins, herra forseti, segja frá því að það er minni munur nú á orkuverði á suðvesturhorninu og á RARIK-svæðunum en hefur verið oftast áður. Munurinn sem kemur fram á einstökum mánuðum er vegna þess að það er meðalverð í Reykjavík en það er sumarverð og vetrarverð úti á landi.

Loks vil ég, herra forseti, þakka hv. 1. flm. þessarar till. og jafnframt Karvel Pálmasyni og fleiri þingmönnum sem hér hafa talað fyrir að lýsa yfir stuðningi við það sem ég hef beitt mér fyrir að gert verði í þessu máli.