24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6148 í B-deild Alþingistíðinda. (4205)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í restina. Það er ólíkt hv. 2. þm. Vestf. að vera með slíkt yfirklór eins og hann var með áðan í sinni lokaræðu. Hún segir auðvitað ekkert um það, þessi till., hversu lengi menn hafa notið trausts til að vera á Alþingi. (Gripið fram í: Jú, jú.) Það segir ekkert um það. Ég gæti alveg sagt á móti, en ætla ekki að gera það neitt að sérstöku máli: Hvor okkar ætli hafi haft meiri áhrif að því er varðar ríkisstjórnir undangengin ár til þess að lagfæra málið, ég eða hv. þm. Ólafur Þórðarson? Það er ekkert nýtt mál. Þetta hefur verið viðloðandi æðilengi þó að ég viðurkenni að það hafi versnað, það er rétt.

En hinu vek ég athygli á að þeir eru ósammála um túlkun tillgr. sjálfrar, fim., hv. þm. Alexander Stefánsson og hv. þm. Ólafur Þórðarson. Annar segir: Við viljum aðgerðir strax sem till. segir að sé ekki. Hinn segir: Við viljum geyma það til næsta árs, fjárlögin þá, af því að við viljum vera ábyrgir gagnvart fjárlögunum í ár. Þetta er meginefni þessa máls. Menn eru ósammála. Sýndarmennskan hefur gengið svo langt að þeir ganga hver í sína áttina til að yfirstíga hver annan.