03.11.1987
Sameinað þing: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

52. mál, mótmæli gegn stækkun kjarnorkuendurvinnslustöðvar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um mótmæli gegn kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Dounreay. Með mér eru flm. að þessari till. hv. þm. Kristín Einarsdóttir, Árni Gunnarsson, Júlíus Sólnes, Páll Pétursson og Guðrún Helgadóttir. Texti tillögunnar er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að bera fram formleg mótmæli vegna stækkunar endurvinnslustöðvar fyrir kjarnorkuúrgang í Dounreay í Skotlandi.“ Eins og menn heyra er þessi tillögutexti ekki langur, en hann er ákveðinn þar sem ríkisstjórninni er ætlað að bera fram formleg mótmæli vegna þeirra áforma sem uppi eru í nágrannalandi. Fyrir því eru sannarlega gild rök að till. þessi er hér fram borin af þm. úr fimm þingflokkum.

Það er mat okkar og þeirra sem fjallað hafa um þetta mál faglega að geislamengun norðlægra hafsvæða frá þessari endurvinnslustöð, ef reist yrði og stækkuð eins og áætlanir eru um gæti ógnað lífríki sjávar, þar á meðal íslenskum fiskimiðum. Jafnframt er augljós hætta á því að umtal um mengun af völdum geislavirkra efna geti haft afar slæm áhrif á sölu sjávarafurða sem aflað er á þessum hafsvæðum.

Það er ástæða til að vekja á því sérstaka athygli að þau fimm ríki Efnahagsbandalags Evrópu sem áforma þátttöku í stækkun þessarar endurvinnslustöðvar í Dounreay eiga sjálf lítið sem ekkert á hættu í sambandi við þá mengun sem frá henni mun stafa og þeirri stórfelldu mengunarhættu sem henni tengist.

Þetta mál hefur áður komið hér inn á vettvang Alþingis. Það gerðist fyrir um það bil ári að hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir spurði hæstv. þáv. utanrrh. um þetta mál og við fengum síðan inn í þingið grg. um það, ítarlega grg. sem tekin var saman af Geislavörnum ríkisins, Hafrannsóknastofnun og Siglingamálastofnun ríkisins ásamt Magnúsi Magnússyni, prófessor við Háskóla Íslands. Þessi grg. er birt í heild sem eitt af fskj. með þessari till. og þar hafa menn svart á hvítu það mat sem ég túlkaði hér í orðum mínum áðan um hættuna frá þessari fyrirhuguðu stöð.

Vissulega er orkuframleiðsla á grundvelli kjarnorku til staðar í Dounreay og þar er einnig unnið úr brennsluefnum frá kjarnaofnum nú þegar, en það er í allt öðrum og minni mæli en fyrirhugað er. Frá 1980 munu hafa verið unnin 5–7 tonn af úrgangi frá kjarnaofnum í stöðinni, en stækkunin gerir ráð fyrir afköstum sem nema úrvinnslu úr 100 tonnum á ári af slíkum brennsluefnum kjarnaofna og segir það sitt um þá gífurlegu aukningu sem þarna er fyrirhuguð.

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri hættu sem þegar stafar frá Dounreay. En það er alveg ljóst að sú gífurlega aukning sem þarna er ráðgerð og tilhögunin á þeim rekstri sem þarna er fyrirhugaður eykur stórfelldlega á þá hættu sem stafað getur frá þessum rekstri. Hugmyndin með endurvinnslunni þarna er að um geti orðið að ræða hagkvæman rekstur, en ekki tilraunastarfsemi eins og sumpart hefur verið í gangi á þessum stað í sambandi við endurvinnslu og framleiðslu á kjarnorku. Og það þekkjum við að þegar hagnaðarsjónarmið kemur inn í dæmið, þá er hættan á því að teflt sé á tvær hættur vissulega meiri og vaxandi.

Fram hefur komið og liggur fyrir í þeirri greinargerð sem ég nefndi áðan að menn meta að vísu að hættan frá daglegum rekstri þessarar endurvinnslustöðvar þurfi ekki að stofna íslenskum hafsvæðum í mikla hættu. Það taki geislavirk úrgangsefni 4–6 ár að berast inn á íslensk hafsvæði og þau komi þá til okkar úr norðri. Þau geri fyrr vart við sig við Grænlandsstrendur en við Ísland, en það fari eftir styrk norðlægra hafstrauma hversu mikið og hversu ört slík efni berast inn á Íslandsmið. Það er hins vegar hættan á slysum sem er hið stóra í þessu máli og það ætti ekki að þurfa að hafa um það mörg orð nú, svo skömmu eftir kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl í Sovétríkjunum, hvaða vá þar getur verið á ferðinni. Þar er um að ræða bæði hættuna af loftborinni mengun og einnig mengun sjávar.

Slík slys, eins og segir í greinargerð Geislavarna ríkisins og fleiri, gera ekki boð á undan sér og þar segir síðan orðrétt: „Vissulega er reynt með fræðslu, þjálfun og hönnun mannvirkja og tækjabúnaðar að draga úr líkum þess að slík slys geti átt sér stað og draga úr áhrifum þeirra, en eins og slysið í Tsjernóbíl í apríl sl. undirstrikar, þá er ekki hægt að útiloka að slys eigi sér stað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Áhrif slíks slyss í Dounreay gætu orðið tvíþætt hér á landi. Annars vegar vegna geislavirkra efna er kæmust út í andrúmsloftið og bærust hingað með vindum, og hins vegar vegna geislavirkra efna er rynnu í hafið og bærust hingað með hafstraumum.

Geislavirk efni geta borist hingað í andrúmsloftinu á skömmum tíma eftir slys," segir í þessari greinargerð, „ef veðurskilyrði eru þannig. Fjarlægðin frá Dounreay til Íslands er minni en fjarlægðin frá Tsjernóbíl til þeirra svæða í Svíþjóð er verst urðu úti eftir slysið vorið 1986.

Um geislavirk efni er færu í hafið við slys gildir það sama og um geislavirk efni sem fara í hafið við daglegan rekstur. Aukning geislavirkra efna í hafinu umhverfis Ísland yrði þegar tímar liðu mikil eða lítil eftir því hve mikið af efnum hefði farið í hafið við Dounreay.

Auknum umsvifum við kjarnorkustarfsemina í Dounreay mundu fylgja auknir flutningar geislavirkra efna á sjó, á landi og í lofti. Auknum flutningum fylgir aukin slysahætta með þeim afleiðingum að geislavirk efni komast út í umhverfið.

Það er álit okkar að fyrirhuguð staðsetning endurvinnslustöðvarinnar við Dounreay orki mjög tvímælis. Staðsetning við Dounreay eykur hættuna á því að lönd er ekki standa að stöðinni verði fyrir mengun af völdum geislavirkra efna frá henni á meðan áhrif á þau lönd sem stöðin á að þjóna gætu orðið mun minni eða jafnvel engin.“

Þetta var tilvitnun í greinargerð Geislavarna ríkisins og fleiri stofnana sem ég nefndi og fylgja till. í sérstöku skjali.

Það má minna á að reynsla er þegar fyrir rekstri slíkra stöðva og mengunar frá þeim, þar sem er t.d. Sellafield-stöðin á vesturströnd Bretlands sem hefur valdið tilfinnanlegri og mikilli mengun í Írska hafinu. Það má líka minna á það, sem fram kemur í fskj. með þessari grg. sem er ræða formanns baráttusamtaka gegn fyrirhugaðri stækkun í Dounreay, baráttusamtaka sem starfa á Shetlandseyjum eða Hjaltlandi, að nú þegar hefur aukning orðið veruleg á hvítblæði í nánd við stöðina í Dounreay og enn meiri í grennd við Sellafield-stöðina þannig að hættan er meiri og er þegar til staðar í næsta nágrenni við þessar stöðvar.

Aðrar þjóðir við norðanvert Atlantshaf hafa þegar vaknað til vitundar um þá hættu sem þarna er á ferðinni. Norðmenn hafa borið fram mótmæli gegn þessu. Það er vaxandi andstaða um allan Noreg hjá fjöldasamtökum sem beita sér gegn fyrirhugaðri stækkun þessarar stöðvar. Sama gildir um Færeyjar. Færeysk stjórnvöld hafa mótmælt harðlega, og Danir fyrir þeirra hönd, áformunum í Dounreay og Danir eru einnig að taka við sér varðandi þetta mál.

Á fundum Vestnorræna þingmannaráðsins hefur þetta mál tvívegis verið til meðferðar, árin 1986 og 1987, í fyrra skiptið að frumkvæði Færeyinga, í seinna skiptið að frumkvæði íslenskra fulltrúa. Aðvörunarorð og mótmæli Vestnorræna þingmannaráðsins, sem einnig er með aðild Grænlendinga sem kunnugt er, gegn þessari fyrirhuguðu stækkun er birt sem fskj. III með þessari þáltill.

Þá bendi ég einnig á það að þessi mál hafa komið fyrir á þingi Norðurlandaráðs þann 26. febr. sl. vegna fsp. um Dounreay-endurvinnslustöðina og þar kom það í hlut hæstv. þáv. heilbrrh. að svara fyrir hönd umhverfisráðherra Norðurlanda varðandi þetta mál. Þau ummæli og þær umræður eru birtar sem sérstakt fskj. með þessari till. Þannig er reynt að halda til haga því helsta sem fram hefur komið í ályktunarformi varðandi þetta mál og tengist Íslandi sérstaklega.

Ég vil þó ekki láta hjá líða að minna á frammistöðu Siglingamálastofnunar ríkisins undir forustu hæstv. fyrrv. samgrh., Matthíasar Bjarnasonar en siglingamálastjóri sótti níunda ársfund svokallaðs Parísarsamnings, um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum, þann 9. júní 1987 og þar var af Íslands hálfu mótmælt sérstaklega losun geislavirkra úrgangsefna í sjó og samþykkt ályktun, sem tengist einmitt Dounreay. Því miður bar þessi fundur hins vegar ekki gæfu til að samþykkja tillögu Íra varðandi Sellafield-stöðina en íslenski fulltrúinn tók afstöðu með Írum í því máli á þessum fundi.

Það liggur því fyrir að þegar er mikil umræða meðal þjóða við norðanvert Atlantshaf vegna þessara háskalegu áforma sem þarna eru uppi um byggingu og stækkun þessarar endurvinnslustöðvar í Dounreay. Þegar hafa fallið aðvörunarorð og ráðamenn hafa lýst áhyggjum, en það þarf að fylgja þessu máli eftir af fullri ákveðni og einbeitni með því að Alþingi Íslendinga álykti um þetta mál og með því að íslensk stjórnvöld beri fram formleg og ákveðin mótmæli vegna þessara áforma og haldi því vakandi hvar sem viðeigandi er að taka á þessu máli nú á næstunni.

Hér getur verið um að ræða mál sem snertir undirstöðuhagsmuni Íslendinga, bæði vegna raunverulegrar mengunarhættu og vegna þeirra óbeinu áhrifa sem umtal um hættu á geislavirkni og mengun af völdum geislavirkra efna getur haft á sölu íslenskra fiskafurða og þarf ekki að hafa um það miklu fleiri orð hversu neikvæð slík áhrif gætu orðið.

Ég treysti því að á þessu máli verði tekið hér af yfirstandandi þingi. Ég legg til, virðulegur forseti, að máli þessu verði vísað til hv. utanrmn. sem ég tel eðlilegt að fjalli um það og að það komi síðan væntanlega frá nefndinni fyrr en seinna til frekari umræðu hér á hv. Alþingi.