24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6159 í B-deild Alþingistíðinda. (4212)

373. mál, launajöfnun og ný launastefna

Guðmundur Ágústsson:

Frú forseti. Ég stend ekki upp sem trúnaðarmaður í verkalýðshreyfingunni en hins vegar er hérna hreyft máli sem flesta varðar og ég tel rétt að þm. á vegum Borgarafl. tjái sig um þessi mál.

Við lögðum fram till. ekki alls fyrir löngu um það að ríkisvaldið kæmi inn í og greiddi lágtekjufólki til baka af ríkistekjum ákveðinn hluta svo að það gæti lifað sómasamlega. Það er mín skoðun að Alþingi eigi ekki að skipta sér af kjarasamningum. Hins vegar finnst mér að ríkisvaldið eigi að koma inn í til jöfnunar á kjörum fólks. Ég tel því óæskilegt að Alþingi semji um eða ákveði lágmarkslaun og hef lýst þeirri skoðun minni áður úr þessum stóli í þeirri umræðu sem skapaðist á sínum tíma er till. okkar borgaraflokksmanna var rædd.

Hins vegar tel ég að Alþingi megi marka stefnu í málefnum launafólks og þá hvernig ríkisvaldið geti komið inn í til að jafna kjör fólks með þá greiðslum en að skipta sér af kjarasamningum tel ég, sama hvort það er í formi lágmarkslauna eða á annan hátt, af hinu óæskilega. Það mætti í þessu sambandi, og þar sem gert er ráð fyrir því í till. að laun megi ekki vera meira en þreföld eða fjórföld lágmarkslaun, benda á það að Alþingi ætti nú fyrst að athuga þann gang sem er hér á Alþingi. Ég býst við því að þeir sem lægst eru launaðir hér hafi í tekjur um 31 000–35 000 en ráðherrar hafi yfir 200 000. Þarna er um áttfaldan eða nífaldan mun að ræða. Svo áður en við förum að ákveða eitthvað fyrir aðra held ég að best sé að við tökum okkar mál í gegn fyrst.