24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6169 í B-deild Alþingistíðinda. (4221)

367. mál, iðgjöld vegna bifreiðatrygginga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir hönd okkar flm. till. fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram bæði hjá hv. 12. þm. Reykv. sem hér talaði síðast og hjá hv. 3. þm. Vesturl. sem hefur iðulega haft með þessi umferðarmál að gera með ýmsum hætti, ekki síst núna á undanförnum vikum.

Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Guðrúnu Halldórsdóttur að nauðsynlegt er að taka sérstaklega á viðgerðarkostnaði tryggingafélaganna. Það er reyndar í 6. lið till. gert ráð fyrir að það verði kannað sérstaklega og ég hygg að tryggingafélögin verði stundum að sæta svo að segja afarkostum í þessu efni. Mér er kunnugt um að nokkur tryggingafélög hafa núna nýlega tekið sig saman um miðstöð sem metur skemmdir og síðan er gengið frá samningum um viðgerðir eftir sérstökum reglum þannig að það er kannski vísir að tilraunum til að halda utan um þetta betur en gert hefur verið.

Ég er einnig fullkomlega sammála þeirri athugasemd hennar að bílaflotinn er auðvitað orðinn svo hrikalega stór að við höfum ekki umferðarmannvirki til þess að standa undir þessum bílaflota og verðum að íhuga það mjög vandlega hvort ekki er orðið nauðsynlegt að verja fé, meira en gert hefur verið, í umferðarmannvirki, ekki síður á þéttbýlissvæðinu en annars staðar, til þess að verja okkur fyrir þeirri vá sem umferðarslysin geta orðið með vaxandi bílaflota.

Ein ábendingin sem fram kemur hér í þessu plaggi er sú hvort rétt sé að taka hluta af þessum kostnaði, þessum samfélagslega kostnaði sem leiðir af því að við erum hérna með marga bíla, inn í bensínverðið. Það er þannig í Svíþjóð og Noregi að iðgjöld eru áætluð eftir akstri. Og mér er kunnugt um það að hjá einu tryggingafélaginu hefur þetta mál verið rætt sérstaklega, að taka þetta inn eftir akstri, og þar leist öllum umboðsmönnum þess tryggingafélags heldur illa á þá hugmynd vegna þess að menn hefðu lag á því að koma mælunum í bílunum sínum þannig fyrir að mjög erfitt væri að „kontrólera“ það og þess vegna duttum við niður á þessa hugmynd með bensínverðið, hvort það er hugsanlegur hlutur. Þá er þess að geta að jafnvel þó við tækjum krónu af hverjum bensínlítra er það ekki mjög mikið inn í þessa súpu því að við seljum um 160 millj. lítra af bensíni á ári en velta tryggingastarfseminnar eða bílatrygginganna er um 2000 milljónir á ári. Við sjáum því að það þyrfti býsna mikið að koma til í bensíni ef það ættti að leysa iðgjöldin af hólmi, enda kemur það að mínu mati ekki til greina. Rökin fyrir því að taka þetta inn í bensínið - að taka hluta inn í bensínið, ekki allt - eru aðallega þau að þetta er samfélagslegur kostnaður sem er ákveðinn að verulegu leyti með lögum. Þess vegna getur í raun og veru ekki verið um að ræða það sem kallað er frjáls samkeppni á milli tryggingafélaganna nema að takmörkuðu leyti og þá um það sem er umfram það sem ákveðið er í lögum á hverjum tíma. Þess vegna finnst mér að þetta mætti gjarnan skoða með bensínverðið.

Hér er bent á þennan möguleika með samruna tryggingafélaganna og það er orðað þannig að það eigi að taka til athugunar „samruna tryggingafélaga og sparnað við rekstur þeirra og alla starfsemi, en hér á landi eru nú átta tryggingafyrirtæki með bílatryggingar“. Bent er á þetta sem möguleika. Við bendum ekki á þetta vegna þess að við séum sannfærðir um það, flm. till., að þetta muni leiða til lægri iðgjalda. Við teljum hins vegar rétt að athuga þetta, hvort þau eru ekki óþarflega mörg og hvort ekki fer óþarflega mikið í rekstrarkostnað þess vegna.

Rökin fyrir samruna tryggingafélaga eru líka hin sömu og að því er varðar það að taka iðgjöldin að hluta inn í bensínið. Hér er um að ræða lögbundna og algjörlega óhjákvæmilega starfsemi. Við erum hér með t.d. starfandi miðstýrt bifreiðaeftirlit á vegum ríkisins sem að vísu eru tillögur um núna uppi í Ed. að breyta þannig að bifreiðaeftirlitið verði í raun og veru lagt niður í því formi sem það hefur verið, því verði breytt nokkuð, en það verði eftir sem áður starfrækt á grundvelli tiltekinna laga og miðstýrt vegna þess að þarna er um að ræða öryggisatriði sem þjóðin öll vill hafa á sínum stað. Þess vegna finnst mér koma til greina að velta því fyrir sér, herra forseti - það er ekki tillaga mín heldur vil ég að menn velti því fyrir sér - hvort ekki eru í rauninni jafnmikil rök fyrir því að vera með bifreiðaeftirlit á einum stað, eftir ákveðnum reglum, og svo því að vera jafnvel með bifreiðatryggingar á einum stað.

Ég hef satt að segja enga sannfæringu fyrir því að samkeppni leysi þennan vanda frekar en annan, þ.e. hún lækki iðgjöldin. Ef hún gerir það, nú, þá skulum við nota hana. En ég hef grun um að það mætti spara nokkra aura með auknu samstarfi félaganna. Hér er bent á þetta sem athugunarefni en ekki neina staðfasta sannfæringu okkar flm. um það að þetta muni leysa vandann út af fyrir sig. Að öðru leyti endurtek ég þakkir mínar til þeirra þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu.