11.04.1988
Sameinað þing: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6182 í B-deild Alþingistíðinda. (4242)

362. mál, tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Till. sú sem hér er til umfjöllunar felur í sér að lagðar verði fyrir Alþingi tillögur um sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna þannig að koma megi sem fyrst á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna. Í þessu sambandi er vísað í 3. gr. jafnréttislaganna. 3. gr. jafnréttislaganna kveður á um svokallaða jákvæða mismunun, þ.e. að það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna að því er varðar sérstakar tímabundnar aðgerðir til þess að jafna stöðu kvenna.

Þetta frv. um breytingu á jafnréttislögunum og þetta ákvæði sem kom fram 1985 og þá var nýmæli var samþykkt að ég held af öllum flokkum á þinginu. Ég taldi rétt að upplýsa við þessa umræðu að þegar er verið að vinna að efni þeirrar þáltill. sem hér er til umræðu og því sem hún lýtur að en á undanförnum vikum hefur félmrn. í samráði við Jafnréttisráð verið að vinna að hugmyndum og tillögum um hvernig að beita megi 3. gr. jafnréttislaganna. Tillögurnar liggja enn ekki fyrir en ég vænti þess að þær liggi fyrir fljótlega.

Ég vil einnig upplýsa að í undirbúningi er núna fundur sem haldinn verður í þessum mánuði á vegum Jafnréttisráðs og félmrn. Það er fundur með forráðamönnum allra ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja á vegum hins opinbera. Þar verður þeim tilmælum beint til þeirra að þeir hlutist til um að hvert ráðuneyti, fyrirtæki og stofnun hins opinbera vinni framkvæmdaáætlun um hvernig stuðla megi að jafnrétti karla og kvenna í hverju ráðuneyti, fyrirtæki og stofnun.

Ég vænti þess að á þeim fundi megi ná þeirri niðurstöðu að það verði hægt að byrja að hrinda í framkvæmd slíkum áætlunum. Við höfum fyrirmyndina að þessu frá Noregi þar sem slíkar jafnréttisáætlanir hafa gefist mjög vel.

Í þeirri till. sem hér er til umfjöllunar er vikið að ýmsum aðgerðum, sem huga mætti að í sambandi við sérstakar tímabundnar aðgerðir til þess að bæta stöðu kvenna, og eru margar hverjar athyglisverðar. Ég nefndi það að ýmsar hugmyndir hafa komið til skoðunar hjá Jafnréttisráði og félmrn. í þessu sambandi. Einnig hefur nefnd á vegum félmrn. unnið að verkefni sem felur í sér að leggja fram tillögur um það hvernig vinna mætti að endurmati á störfum kvenna. Nefndinni var einnig ætlað að kanna sérstaklega hlunnindagreiðslur hjá hinu opinbera, en það er kveðið á um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að jafna eigi hlunnindagreiðslur sem greiddar eru hjá hinu opinbera, og í þriðja lagi þá hefur þessari nefnd verið falið að leita leiða til að tryggja jafnstöðu karla og kvenna við ráðningar og stöðuveitingar á vegum hins opinbera.

Það er athyglisvert að í niðurstöðum þessarar nefndar kemur fram að launamunur kynja í dagvinnu innan raða BSRB er um 5–7% og hjá BHMR um 17%. Nefndin telur að þennan launamun sé að verulegu leyti hægt að skýra með öðrum þáttum en að kynferði skipti þar máli en það sem hefur vakið mesta athygli í athugun nefndarinnar er tvöföld yfirvinna karla á við konur hjá hinu opinbera. Hjá almennum félagsmönnum í BSRB fá karlar 68,2% ofan á dagvinnu sína vegna yfirvinnu en konur 34,9%.

Annað sem einnig er athyglisvert er að konur fá einungis greitt fyrir bílaafnot um 10% af heildargreiðslum ríkisins til starfsmanna vegna aksturs. Í því sambandi er kannski vert að vekja athygli á því að á árinu 1984, að mig minnir, kom fram hér á Alþingi að konur fengju einungis 5% af þeim greiðslum sem rynnu til starfsmanna vegna bílaafnota þannig að hér hefur orðið um nokkra aukningu að ræða því að þessi könnun, sem ég vitna hér til, er frá sl. ári og leiðir í ljós að konur fái 10% af heildargreiðslum ríkisins til starfsmanna vegna aksturs.

Ég taldi rétt að upplýsa þetta hér við þessa umræðu og einnig það, þar sem þessi till. felur í sér að móta tillögur að því er varðar sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna, að slík vinna hefur þegar verið sett í gang og Jafnréttisráð og félmrn. vinna nú í sameiningu að því að móta slíkar tillögur.