11.04.1988
Sameinað þing: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6185 í B-deild Alþingistíðinda. (4244)

362. mál, tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er meðflm. að þessari tillögu og tel hana mjög þarfa og gagnlega. Ég vantreysti ekki hæstv. félmrh. að vilja gera vel í þessum málum. Við höfum unnið mikið saman í þeim í gegnum árin og ekki verið mikið um ágreining okkar á milli. En ég er hrædd um að hún eigi eftir að reka sig þar á ýmsa veggi eða þeir sem ætla að fara að umbreyta einhverju þarna og mig langar svona til fróðleiks, ef sú nefnd sem ætlar nú að fara að vinna í þessu vill taka til greina það sem fólk segir, að benda á að það virðist vera gegnumgangandi regla að konur mega ekki nálægt fjármálum koma, ekki neinu sem tengist fjármálum. Sem dæmi get ég sagt ykkur það að Atvinnuleysistryggingasjóður, sem stofnað er til af aðilum vinnumarkaðarins, er stofnaður árið 1956. Ég er fyrsta konan sem hefur setið þar í stjórn, núna á þessu herrans ári. Það var líka á þessu ári sem fyrsta konan tók sæti í SAL, Sambandi almennu lífeyrissjóðanna. Ég held að þetta sé ekki af því að konur hafi ekki verið tilbúnar til að taka að þessi störf. Það hefur bara verið alveg sjálfsagt að líta fram hjá þeim.

Ég held að það sé ómögulegt að finna nokkrar sannanir fyrir því að konur geti ekki farið með fjármál alveg á við karla. Ég er viss um þvert á móti að væri það af sanngirni og hlutlaust rannsakað, þá kæmi það þveröfuga í ljós. Ég held að konur séu fullt svo samviskusamar hvað fjármálin snertir. Ég er hins vegar á því og er sama sinnis og hv. 2. þm. Austurl. að það þarf að taka upp nýjar leiðir í jafnréttismálum. Ein af þeim leiðum er sú leið, sem felst í þeirri tillögu sem hann er 1. flm. að og ég meðflm., að skipa ráðgjafarnefnd sem yrði þá ætlað það verkefni að vera mikið meira inni á vinnustöðunum, fá fólk sjálft til að hugsa um hvað þetta er vitlaust fyrir okkur öll að haga málum svona. Ég er sannfærð um að þar sent karlar og konur vinna vel saman, þar er betur unnið en þar sem annað kynið kynni að vera eingöngu - svo framarlega sem þar er alls jafnréttis gætt.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, en ég hvet mjög til þess að þessi þáltill. verði samþykkt og að hún fari þá til athugunar hjá þessari nefnd og það sem kemur fram í henni og svo ýmislegt sem hér kann að verða sagt verði rætt þar og athugað.