11.04.1988
Sameinað þing: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6187 í B-deild Alþingistíðinda. (4247)

369. mál, forvarnir gegn of háum blóðþrýstingi

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um forvarnir gegn of háum blóðþrýstingi sem Ólafur Granz, varaþm. Borgarafl. á Suðurlandi, flutti á þskj. 701 ásamt öðrum hv. þm. Borgarafl., þeim Albert Guðmundssyni, Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur, Inga Birni Albertssyni, Guðmundi Ágústssyni, Kolbrúnu Jónsdóttur og Hreggviði Jónssyni. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta nú þegar hefja undirbúning að stórauknu forvarnarstarfi gegn of háum blóðþrýstingi. Í þessum tilgangi skal ráðherrann m.a. beita sér fyrir setningu laga og reglugerðar um rekstur sérbúinna eftirlitsbifreiða þar sem færu fram blóðþrýstingsmælingar og annað forvarnarstarf. Kostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Í grg. sem tillögunni fylgir er frekar gerð grein fyrir bakgrunni og ástæðum þessa tillöguflutnings. Þar er m.a. minnt á að fyrir nokkrum árum hafi allmiklar umræður farið fram hér á landi um of háan blóðþrýsting, heilsutjón og dauðsföll af hans völdum. Þá var hvatt til aukins forvarnarstarfs, en sú umræða skilaði ekki nægilega miklum árangri. Dauðsföllum af völdum þessa sjúkdóms fjölgar stöðugt og aldur þeirra sem hann leggur að velli færist sífellt neðar.

Þrátt fyrir lofsvert forvarnar- og eftirlitsstarf ýmissa stofnana og félagasamtaka nær starfsemi þeirra því miður ekki nægilega vel til landsmanna og er það í samræmi við reynslu annarra þjóða. Háþrýstingur er dulinn sjúkdómur sem í flestum tilfellum gerir ekki vart við sig fyrr en um seinan og menn fara ekki reglulega til þess að láta athuga blóðþrýstinginn.

Í nokkrum nágrannalöndum okkar hefur verið brugðið á það ráð að starfrækja sérstakar eftirlitsbifreiðar sem fara víða, m.a. um strjálbýl svæði til þess að annast almennt forvarnar- og eftirlitsstarf. Reynslan af þessum bifreiðum er ótvírætt mjög góð og því er lagt til að við Íslendingar komum á slíkri þjónustu hér.

Úr bifreiðum þessum má dreifa hvers konar upplýsingum um hollustu og forvarnir. Þær þurfa að vera útbúnar nægilegum rannsóknartækjum til þess að mæla blóðþrýsting og athuga önnur sjúkdómseinkenni eða taka sýni eftir því sem henta þykir.

Ekki er lagt til að komið verði á fót sérstakri stofnun til þess að annast þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar, en þess í stað er gert ráð fyrir að heimastöðvar þessara bifreiða verði nokkrar stærstu heilsugæslustöðvarnar.

Ákjósanlegt væri að koma á virku samstarfi og reglulegum samskiptum milli eftirlitsbifreiða og fjölmennra íverustaða, svo sem skóla og vinnustaða þar sem trúnaðarmenn hefðu milligöngu. Blóðþrýstingsmælingar eru tiltölulega auðveldar í framkvæmd og kalla hvorki á mikinn né dýran tækjabúnað. Þess vegna þyrfti að koma á námskeiðum fyrir trúnaðarmenn svo að þeir gætu annast slíkar mælingar og létt þannig undir með eftirlitsþjónustunni.

Tillagan um þessa þjónustu er hugsuð sem endurskipulagning og að hluta viðbót við núverandi eftirlitsstarf með of háum blóðþrýstingi. Með tillögunni er á engan hátt verið að áfellast núverandi eftirlit, heldur einungis verið að efla það með sem minnstum tilkostnaði.

Tillaga þessi er til áréttingar ákvæði tölul. 5.12 í 19. gr. laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, þar sem segir að á heilsugæslustöðvum skuli m.a. stunda hópskoðanir og skipulagða sjúkdómaleit, og í anda laga nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og frumvarps til laga um breytingu á þeim á þskj. 518 sem nú liggur fyrir Alþingi.

Ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn. sameinaðs Alþingis.