12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6216 í B-deild Alþingistíðinda. (4264)

390. mál, Kennaraháskóli Íslands

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég lýsi ánægju minni með það að frv. um Kennaraháskóla Íslands skuli vera komið fram og vona að það verði að lögum á þessu þingi.

Félagslegar aðstæður hafa breyst verulega á undanförnum árum í þessu landi og þess vegna hefur verið mjög nauðsynlegt að þróa og efla starfsmenntun kennara. Þær tafir sem orðið hafa á því að endurskoðun á lögunum um Kennaraháskóla Íslands hafi átt sér stað hafa því staðið eðlilegum vexti skólans fyrir þrifum auk þess sem gildandi lög eru á ýmsan hátt orðin úrelt. Með nýrri löggjöf yrði lagður grunnur að öflugri símenntun og framhaldsmenntun fyrir starfandi kennara auk rannsókna á þessum vettvangi.

Markviss símenntun er ákaflega nauðsynleg og er óskandi að með aukinni tækni í fjölmiðlun verði hægt að gera þá menntun auðveldari í okkar dreifbýla landi. Með samþykkt frv. verður Kennaraháskólinn betur í stakk búinn til að gegna í raun hlutverki sem miðstöð kennaramenntunar fyrir landið allt. Skólastarf í dreifbýli hefur fram til þessa að verulegu leyti byggst á réttindalausum kennurum sem í dag kallast leiðbeinendur. Ég álít að þegar kennarastarfsheitið var lögverndað hafi ekki verið hugað nægilega vel að því að gera þeim kennurum, réttindalausum, sem haldið hafa uppi skólastarfi á landsbyggðinni víða, oft í fjölda ára eða áratugi, kleift að afla sér réttinda á viðunandi hátt. Við megum ekki lítilsvirða það fólk sem hefur komið til bjargar þar sem ekki hafa fengist réttindakennarar. Auðvitað hefur þetta fólk reynst misvel rétt eins og hámenntað fólk á þessu sviði, en flest af því vill afla sér réttinda. Ég vil því leggja miklu áherslu á að það nám sem fram fer fyrir leiðbeinendur á vegum Kennaraháskólans, miðstöðvar kennaramenntunar í landinu, verði lagað að breyttum tímum og nýjum möguleikum, t.d. með fjarkennslu. Einnig gæti komið til greina að kennslan færi fram að einhverju leyti við þá framhaldsskóla og menntastofnanir sem eru til staðar á landsbyggðinni.

Þar sem ég sit í menntmn. þessarar hv. deildar get ég fjallað frekar um frv. þar, en ég vildi að þetta kæmi fram hér við 1. umr. Ég vil að síðustu ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég fagna framkomu frv. og vona að það verði að lögum á þessu þingi.