12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6219 í B-deild Alþingistíðinda. (4266)

390. mál, Kennaraháskóli Íslands

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér aðeins til að lýsa ánægju okkar alþýðubandalagsmanna með það frv. sem hér er til umræðu. Það er vissulega löngu tímabært að taka til endurskoðunar framtíðarskipan kennaramenntunar hér á landi. Alþb. hefur á undanförnum þingum og reyndar nú sl. haust lagt fram till. til þál. um kennaramenntun. Sú till. er að því leytinu betri en frv. ríkisstjórnarinnar að þar er lagt til að sett verði heildarlöggjöf um kennaramenntun á Íslandi, en engin slík löggjöf er til í dag. Þannig er allmörgum stofnunum ætlað að sinna menntun kennara fyrir grunn- og framhaldsskólastig og hefur þar hver stofnun sín sérstöku lög til þess að fara eftir. Í tillögum Alþb. er hins vegar gert ráð fyrir að heildarskipan kennaramenntunar hér á landi verði tekin til endurskoðunar og lög sett þar um. Í þessu frv. er hins vegar aðeins tekið á einum þætti kennaranámsins og vissulega ekki léttvægum, Kennaraháskóla Íslands.

En eins og ég sagði áðan fagna alþýðubandalagsmenn þessu frv. og þeim nýmælum sem það hefur í för með sér. Með því er bundinn endi á óvissu um framtíð Kennaraháskólans og hvern sess hann skipar. Allt frv. ber vott um vönduð vinnubrögð, enda unnið í samráði við þá sem við menntunarmál starfa frá degi til dags. Þær greinar frv. sem hafa jákvæðustu breytingarnar í för með sér eru þær sem gera ráð fyrir að grunnmenntun kennara verði treyst og að lagður verði grundvöllur að öflugri framhaldsog símenntun starfandi kennara sem er ekki síður mikilvægur þáttur.

Frv. stuðlar einnig að því að Kennaraháskólinn verði efldur sem miðstöð þjónustu- og þróunarstarfsemi í mennta- og skólamálum. Ekkert er eins mikilvægt í okkar þjóðfélagi og að hlúa vel að menntastofnunum okkar. Skólar og dagvistunarstofnanir gegna æ mikilvægara og stærra hlutverki í uppeldi barna. Það er því ekki lítið atriði að þeir sem veljast til vinnu við þessar stofnanir hafi hlotið góðan undirbúning undir starfið og að kennarastarfið njóti þeirrar virðingar stjórnvalda sem því ber. Frv. ríkisstjórnarinnar um Kennaraháskóla Íslands er spor í rétta átt.