12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6220 í B-deild Alþingistíðinda. (4271)

391. mál, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir þá athugasemd, sem fram kemur við lagafrv. þetta, að brýna nauðsyn beri til að efla rannsóknir á sviði uppeldis- og skólastarfs. Það er ekki síður þörf á rannsóknum í fræðslumálum en á öðrum sviðum í nútímaþjóðfélagi og verður seint hægt að meta þátt rannsókna á sviði menntamála í baráttunni fyrir því að gera kennarastéttina færari um að takast á við þau verkefni sem henni eru ætluð á hverjum tíma. Það má hins vegar auðvitað alltaf spyrja hvort þörf sé á mikilli yfirbyggingu utan um slíka stofnun, hvort hún starfi betur sem sjálfstæð stofnun með sjálfstæðan fjárhag og eigin stjórnarnefnd innan Kennaraháskólans eða sem sjálfstæð stofnun eins og hér er lagt til og spurning jafnvel hvort verksvið hennar skarist við þá rannsóknarstofnun sem heimilt er að koma á laggirnar innan Kennaraháskólans skv. 26. gr. frv. um Kennaraháskólann. En ef það fyrirkomulag sem hér er lagt til tryggir hins vegar á einhvern hátt að fé fáist til að sinna rannsóknum á sviði uppeldis- og kennslumála, þá horfir málið auðvitað öðruvísi við. En það vekur óneitanlega athygli að í athugasemdum um frv. þar sem fjallað er um núverandi skipulag segir m.a., með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur stofnuninni smám saman vaxið ásmegin þótt verulega skorti á um fé og mannafla til þess að sinna því veigamikla hlutverki sem henni er ætlað. Ljóst virðist að Rannsóknastofnun uppeldismála þarf að hafa á að skipa tveimur starfsmönnum hið minnsta auk forstjóra og ritara í hálfu starfi. Æskilegast væri að annar þeirra hefði sérþekkingu á sviði tölfræði og aðferðafræði, en hinn á sviði skóla- og uppeldismála.“

Mér er spurn hvort orðið hafi sú grundvallarbreyting á stefnu hæstvirtrar ríkisstjórnar í menntamálum að þau verði í raun sett í forgang. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að gera hinar einstöku greinar frv. að umræðuefni nú þar sem mér gefst væntanlega tækifæri til að taka þátt í umfjöllun um málið í menntmn. þessarar hv. deildar.