12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6228 í B-deild Alþingistíðinda. (4278)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég skil ekki þá valddreifingu sem frv. hefur í för með sér. Mér finnst að hlutirnir séu frekar á hinn veginn, að þetta sé frv. til þess að mismuna þegnunum, bjóði upp á það að mismuna þegnunum. Hver er ábyrgur fyrir því að það sé ekki gert annar en löggjafarsamkoma þjóðarinnar? Og hvaða aðili er hugsanlegur til þess að sjá um þennan þátt, að hann verði ekki á þann veg að þegnunum sé mismunað, annar en félmrh.? Það er engin stofnun eðlilegri og sjálfsagðari til þeirra hluta. Það er verið að mismuna þegnum ef boðið er upp á að önnur útsvarsprósenta sé í Reykjavík en á Seltjarnarnesi. (Gripið fram í.) Þó svo hafi ekki verið er boðið upp á það með þessu. (Gripið fram í: Það hefur alltaf verið.) Ja, það er ekki betra, ekki bætir það. Við erum nú alltaf að leita að því að laga þetta þjóðfélag, við erum frekar að leita að því en á hinn veginn, að við séum að reyna að koma óréttlætinu frekar fyrir. En með þessu frelsisfrv. er verið að bjóða upp á óréttlæti. Ég vona reyndar að það verði ekki mikið um það vegna þess að það er nærri því útilokað að fara inn á það að hækka útsvarsprósentuna, eins og ég sagði áðan, vegna þess að ekkert sveitarfélag mun leggja í það gagnvart þegnum sínum að innheimt verði af þeim árið eftir sú hækkun sem ákveðin yrði. Hitt er rétt að fyrir sveitarfélagið kæmi þessi hækkun strax til skila eins og ráðherra benti á og það er kostur, en þrátt fyrir það að boðið sé upp á það hef ég ekki trú á að sveitarfélögin treystu sér til að hækka útsvarsprósentu sína eitthvað upp fyrir meðaltatsálagningu í landinu. Mér finnst það nærri því alveg fráleitt. Hin hættan er sem sagt fyrir hendi, að ríku sveitarfélögin bjóði þegnum sínum lægra útsvar og að þessir gjaldendur fái árið eftir endurgreiðslu af sínum gjöldum á meðan kannski hinir, ef einhver legði í það að hækka, væru krafðir um aukagreiðslu.

Ég held að sá leikur sem hér er verið að bjóða upp á sé mjög neikvæður, ranglátur. Hann er náttúrlega fyrst og fremst ranglátur gagnvart sveitarfélögum vítt og breitt um land sem nú berjast í bökkum vegna þess að þau eru að missa sína tekjustofna meira og minna inn á höfuðborgarsvæði sem við gætum átt von á að mundi lækka sína útsvarsprósentu. Meira og meira af þjónustu, aðstöðugjaldsskyldri þjónustu, er að færast hingað til Reykjavíkur. Það er sagt að núna séu um 70% af versluninni komin hingað og svo gott sem öll heildsöluverslun. Meginhluti allra stórra fyrirtækja, skipafélög, flugfélög og annað, er saman kominn hér í Reykjavík og á þetta eru lögð aðstöðugjöld sem mynda óeðlilegan tekjustofn fyrir þetta sveitarfélag. Og það á að bjóða þessu sveitarfélagi upp á það að geta storkað allri heilu landsbyggðinni með því að það geti lækkað sína útsvarsprósentu og sagt við sína gjaldendur: Ja, þið fáið bara endurgreiðslu hér í Reykjavík, í hinni góðu borg Davíðs. Þið fáið endurgreiðslu á meðan þeir vestur á Hellissandi verða að bæta við útsvarið sitt vegna þess að tekjur þeirra af öðrum tekjustofnum hafa minnkað. Ja, mikil er valddreifingin og mikið er frelsið.