12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6230 í B-deild Alþingistíðinda. (4280)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara þeirri fyrirspurn sem kom fram varðandi Alþb. en tel þó rétt að skýra afstöðu mína og flokks míns, Borgaraflokksins, til frv. Ég tel að þetta sé spor í rétta átt og langar því til að fagna frv. og mun, þegar þetta mál verður tekið fyrir í nefnd, mælast til þess að alla vega sú meginhugsun sem þar kemur fram, um sjálfsvald sveitarfélaga til að ákveða innheimtuprósentu sína, verði samþykkt.

Ég hef litla ástæðu til að ætla að þetta hafi í för með sér mismunun eins og kom fram í ræðu hv. 4. þm. Vesturl. um það að Reykjavík eða stærri sveitarfélögin komi til með að ráskast með innheimtuhlutfallið þannig að minni sveitarfélögin verði undir. Ég held einmitt að það hafi gerst á undanförnum árum að í Reykjavík hafi innheimtuhlutfall útsvars verið miklu hærra en a.m.k. í sumum öðrum sveitarfélögum.

Það er annað sem ég vildi taka fyrir og ræða lítillega. Það er að þegar öll þessi frumvörp um staðgreiðslu komu fram og önnur frumvörp sem fylgdu í kjölfarið var mikið talað um einfaldleikann, skilvirknina og réttlætið. Mér finnst þetta frv. um endurgreiðslu og ofgreiðslu og hvers konar greiðslur sem þarna er verið að tala um ekki vera í anda einfaldleikans heldur hitt frekar að þarna er enn og aftur verið að setja reglur sem torvelda framkvæmd og auka skriffinnskuna.

Að lokum fagna ég því að hv. þm. Karvel Pálmason er kominn í sátt við Alþfl. aftur (KP: Hver segir það?) og ég vonast eftir því að Vestfirðir komi nú á landakortið aftur og tengist meginlandinu. (KP: Það þurfa fyrst aðrir að komast í sátt við stjórnina.) Við skulum bíða og sjá hvað gerist í þeim efnum. En ég vil sem sagt að lokum fagna framkomu frv. og vonast eftir að það hljóti góða meðhöndlun í nefnd.