12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6235 í B-deild Alþingistíðinda. (4286)

403. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til þess að taka undir þær athugasemdir sem komu fram í máli hv. 7. þm. Reykv. um að könnuð verði framkvæmd staðgreiðslunnar yfirleitt, hvaða áhrif hún hefur, sérstaklega á þá aðila sem t.d. njóta ýmissa tryggingabóta því að ég er ansi hrædd um að framkvæmdin hafi einmitt komið mjög illa niður varðandi þá aðila. Ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir af hvaða ástæðu það er en það virðist vera svo að hér hefur orðið kerfisbreyting sem er svo þung í vöfum að fólk fær ekki leiðréttingu sinna mála nema seint og um síðir eins og hv. 7. þm. Reykv. nefndi.

Ég get nefnt hér eitt dæmi. Ellilífeyrisþegi, sem hefur nýlega fengið þann rétt, var að fá afgreiðslu sinna mála, grunnlífeyri fyrir þrjá mánuði, en hann er að öðru leyti ársmaður sem kallað er í sambandi við staðgreiðslukerfið, þ.e. hann er reiknaður eftir á vegna þess að hann er með félagsbú eða rekstur. Þessi ellilífeyrisþegi hafði gert grein fyrir ástæðunum fyrir því að hann óskaði eftir að vera ársmaður vegna þess að tekjurnar eru það lágar að hann ber yfirleitt ekki skatta. Hann fær rúmar 26 þús. kr. greiddar frá tryggingunum fyrir þessa þrjá mánuði og af þeim eru teknar rúmar 9 þús. kr. í staðgreiðslu skatta, þ.e. hann fær útborgaðar fyrir þrjá mánuði rúmar 16 þús. kr. í ellilífeyri. Þarna er náttúrlega fyrst og fremst kerfið að verki.

Annað dæmi veit ég um ellilífeyrisþega sem á undanförnum árum hefur ekki greitt neina skatta. Nú eru allt í einu teknar af honum í skatta 5 þús. kr. á mánuði og hann skilur það ekki sjálfur vegna þess að aðstæður hans eða tekjur hafa ekkert breyst. Hann skilur þess vegna ekki hvað hefur gerst. Þess vegna vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv. að það er mjög brýnt fyrir hæstv. fjmrh. að láta fara ofan í þessi mál og athuga hvernig framkvæmdin er og hvort ekki er hægt að laga svona, ég vil nú leyfa mér að segja vitleysur eða mistök í framkvæmd þessara mála.

Svo langar mig aðeins í leiðinni að nefna það varðandi aðstöðumuninn hér á höfuðborgarsvæðinu eins og kom fram varðandi umræðurnar um fyrra frv. sem rætt var áðan, um tekjustofna sveitarfélaga, að ég er sammála því að það er ýmislegt þar sem þarf að athuga nánar vegna þeirrar stöðu sem ýmis byggðarlög eða sveitarfélög úti á landi eru í. Og það þarf að gerast með öðrum hætti heldur með frv. því sem hér var áðan til afgreiðslu, þ.e. frv. um tekjustofna sveitarfélaga.