12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6243 í B-deild Alþingistíðinda. (4297)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um heimild til hækkunar á hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum. Skv. frv. yrði ríkisstjórninni heimilt að semja um hækkun á hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum úr 68 í 125,8 millj. bandaríkjadollara miðað við gullgengi dollarans 1. júlí 1944.

Svo sem kunnugt er gerðist Ísland stofnaðili að Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington í árslok árið 1945. Síðar gerðist Ísland einnig aðili að tveimur systurstofnunum Alþjóðabankans, Alþjóðalánastofnuninni 1956 og Alþjóðaframfarastofnuninni 1961. Alþjóðabankinn og systurstofnanir hans hafa hin síðari ár fyrst og fremst veitt þróunarlöndum aðstoð og fyrirgreiðslu í formi lána.

Í upphafi beitti Alþjóðabankinn sér einnig af miklum krafti fyrir endurreisn efnahagslífs í ýmsum aðildarlöndum í kjölfar heimsófriðarins. Reyndar nutu Íslendingar á sínum tíma góðs af þeirri uppbyggingarstarfsemi bankans, m.a. með lánum til virkjana, til Áburðarverksmiðjunnar, til hitaveituframkvæmda í Reykjavík og nú síðast við hafnarframkvæmdir í Þorlákshöfn og Grindavík eftir Vestmannaeyjagosið. Íslendingar hafa ekki lengur rétt eða möguleika á lánafyrirgreiðslu hjá Alþjóðabankanum, eru nú af alkunnum ástæðum fyrst og fremst veitendur, eða ættu að vera á þróunaraðstoð, en geta hins vegar áfram notið góðs af lánum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er nátengdur bankanum.

Lán Alþjóðabankans til þróunarlandanna eru nú mjög mikil og þótt lánveitingar bankans hafi vaxið ört á undanförnum árum hefur þó þörf þróunarlandanna fyrir aðstoð vaxið enn örar, m.a. til fjárfestingar, fyrst og fremst til að koma þjóðum þriðja heimsins úr fátækt og skuldabasli. Það hefur því öðru hverju þurft að hækka hlutafé aðildarríkjanna í bankanum til að tryggja heilbrigðan fjárhagsgrundvöll hans og auka möguleika hans til að taka lánsfé á hinum alþjóðlega fjármagnsmarkaði og auka á þann hátt möguleika hans til að veita frekari lán og aðra fjármagnsfyrirgreiðslu til þróunarlanda.

Íslendingar hafa tekið þátt í hækkun á hlutafé í bankanum, síðast með lögum frá árinu 1982, en á grundvelli þeirra laga var hlutafé Íslands í bankanum rúmlega þrefaldað. Með því frv. sem ég mæli hér fyrir er leitað eftir heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að um það bil að tvöfalda hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum, úr 68 í 125,8 millj. bandaríkjadollara miðað við gullgengi á grundvelli tveggja samþykkta bankans. Aðeins lítill hluti af þessari fjárhæð er innborgunarfé sem greiðist á nokkrum árum eða m.ö.o. er innborgunarféð 90 millj. kr. sem greiðast skulu á sex árum, árunum 1988–1993, og er þá miðað við gengisskráningu í marsbyrjun. Ábyrgðarfé Íslands yrði hins vegar 2666 millj. kr. Sáralitlar líkur eru þó á því taldar að á þessa ábyrgð Íslands á fjárskuldbindingum Alþjóðabankans reyni, enda hefur það aldrei gerst síðan Ísland varð aðili að bankanum fyrir tæpum 43 árum.

Greiðsla innborgunarfjárins skiptist þannig að á þessu ári 1988 skal greiða 11 millj. kr., síðan 22 millj. á árinu 1989 og loks 14 millj. kr. á ári tímabilið 1990–1993 og verður að sjálfsögðu gert ráð fyrir því í fjárlagatillögum næsta árs ef þetta frv. nær fram að ganga.

Það má geta þess að Norðurlöndin hafa sameiginlega átt einn fulltrúa í framkvæmdastjórn Alþjóðabankans og er skipt um þennan fulltrúa á 2–3 ára fresti. Nokkrir Íslendingar hafa gegnt þessu starfi að vera fulltrúar Norðurlandanna í stjórn bankans. Hinn 1. ágúst nk. tekur Jónas Haralz, bankastjóri Landsbanka Íslands, við þessu starfi sem fulltrúi Norðurlandanna og verður hans starfstímabil í Washington þrjú ár.

Ég tel að starfsemi Alþjóðabankans og þátttaka Íslands í henni sé einmitt dæmi um þá aðferð sem fámennt ríki en vel megandi á að hafa til þess að taka þátt í þróunaraðstoð í heiminum einfaldlega vegna þess að með þeirri aðferð komumst við hjá því að eyða allt of miklu af hinu takmarkaða þróunaraðstoðarfé í stjórn og skipulag heima fyrir eins og við vill brenna þegar um litlar fjárveitingar er að ræða.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég legg áherslu á að frv. fái skjóta og góða meðferð þannig að það verði afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir þingslit, enda er nauðsynlegt til þess að Alþjóðabankinn geti haldið áfram sinni starfsemi ótruflaðri að sem allra flest aðildarríkin geri fullnægjandi skil og skuldbindingar gagnvart aukningu hlutafjár í honum.