12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6248 í B-deild Alþingistíðinda. (4301)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Mig langar til að fara fram á það við hv. þingdeildina að þessari umræðu verði lokið, en ég vil mjög gjarnan verða við þeim tilmælum hv. 5. þm. Reykv. að í þingnefndinni verði komið á framfæri upplýsingum um það hvernig útlán Alþjóðabankans hafa skipst. Ég fullvissa hv. 5. þm. Reykv. um það að meginhluti þess lánsfjár sem á síðari árum hefur verið varið úr bankanum hefur einmitt farið til lágtekjulanda. Í seinni tíð hefur bankinn í meira og meira mæli valið sér það að beina sínu fé þannig innan þessara fátæku landa að úr sárustu fátækt sé dregið. Mörg hinna fjölmennu fátæku þróunarríkja eru ákaflega lagskipt lönd. Innan þeirra er að finna sára fátækt en líka mikinn auð. Viðleitni bankans hefur á seinni árum beinst mjög að því að bæta lífskjör þeirra sem eiga við allra bágust kjör að búa, ekki síst með því að efla hlut kvenna í þróunarstarfi því að það er eitt það allra mikilvægasta fyrir þessi lönd til þess að þau komist á legg að skilningur sé á því að konur fái notið sín og beina fé til þess. Börn þessara fátæku þjóða njóti þeirra góðu verka. Þá er það ekki síður mikilvægt að hlífa umhverfinu í þessum löndum. Menn hafa gert sér það Ijóst í vaxandi mæli að það er ekki nóg að ana áfram í iðnþróun. Það þarf að hafa hug á því lifandi umhverfi sem maðurinn lifir og hrærist í, og á allt sitt undir á endanum. Þetta eru stefnumið Alþjóðabankans og það er þess vegna sem ég ítreka áskorun mína til hv. þingdeildar að samþykkja nú þetta frv. Upplýsingar um skiptingu lánsfjárins verða lagðar fram í þingnefndinni eins og eðlilegt er.