12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6250 í B-deild Alþingistíðinda. (4306)

442. mál, jarðræktarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á jarðræktarlögum á þskj. 792.

Til afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 ákvað Alþingi að nokkur hluti af jarðræktarframlögum vegna framkvæmda á árinu 1987 yrði ekki greiddur fyrr en á árinu 1989. Til þess að mæta því er ljóst að draga þarf eitthvað úr skuldbindingum um aðrar greiðslur á því ári vegna væntanlegra framkvæmda á árinu 1988.

Á undanförnum áratugum hefur túnrækt margfaldast og á hverju ári verið bætt þar við, síðast á árinu 1987 nær 950 hekturum. Á síðustu árum hefur búfé sem fóðrað er á heyjum farið fækkandi og víða í sveitum eru tún sem ekki voru slegin á síðasta ári. Miðað við þær aðstæður er meiri þörf á stuðningi við aðrar framkvæmdir í landbúnaði enda þótt verið geti að einhverjir bændur sjái sér hag í ræktun þó þeir séu ekki hvattir til þess sérstaklega með jarðræktarframlögum. Af þessum sökum hefur verið valin sú leið að leggja til í þessu frv. að framræsla á nýju landi og nýrækt túna verði ekki styrkt á árinu 1988 þannig að eingöngu verður veittur stuðningur við viðhald skurða og endurræktun gamalla túna en að sjálfsögðu er mikilvægt að halda ræktuðu landi í sem bestu ástandi. Á síðasta ári námu framlög vegna ræktunar nýrra túna 19,7 millj. kr.

Jafnframt þessari breytingu verða gerðar ráðstafanir til þess að úttekt annarra framkvæmda fari fram fyrr en að undanförnu þannig að við gerð næstu fjárlaga liggi ljósar fyrir hvað hefur verið unnið af þeim framkvæmdum sem bændur hafa nú sótt um.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.