12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6254 í B-deild Alþingistíðinda. (4310)

443. mál, skógrækt

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég ætla hér við 1. umr. þessa máls aðeins að mæla nokkur orð vegna þess að frá því að frv. þetta birtist hér í þingsölum í gær hefur ekki verið tími til að grandskoða það af minni hálfu og sjálfsagt ekki annarra hv. þm. Þau eru mörg málin sem berast inn í sali Alþingis þessa daga, þar á meðal og ekki síst frá hæstv. ríkisstjórn eftir að fleiri mánaða hlé hefur verið á flutningi mála hér inn í þingsali af hálfu ríkisstjórnarinnar, með mjög fáum undantekningum, og eru það vissulega ekki vinnubrögð sem eru til eftirbreytni.

Þetta frv. til laga um skógvernd og skógrækt er, eins og hæstv. landbrh. rakti hér í framsögu sinni, nokkuð breytt frá frv. sem lá fyrir þinginu í fyrra og raunar í hittiðfyrra. En það eru ekki, finnst mér, góð vinnubrögð að frv. skuli ekki hafa komið fram fyrr á þinginu vegna þess að ég geri ráð fyrir að það sé hugur hæstv. landbrh. að fá málið afgreitt á þessu þingi svo oft hefur verið gerð atrenna að því að endurskoða skógræktarlögin á undanförnum árum.

Fyrst kom fram frv. þann 17. mars 1986, síðla á því þingi. Það frv. var endurflutt 28. okt. 1986, þ.e. snemma á síðasta þingi, en nú kemur málið fram 12. apríl í þriðja sinn og þá í breyttu formi. Ég ætla að vænta að það verði þrátt fyrir allt mögulegt að fara yfir þetta mál hér með eðlilegum hætti í þinginu þannig að það megi hljóta hér afgreiðslu. Ég tel að hér sé mjög brýnt mál á ferðinni og þarft mál í rauninni þó að vafalaust megi þar enn um bæta frá því sem fyrir liggur í þessu stjfrv.

Mér sýnist að þau ákvæði sem aukið hefur verið inn í frv. frá því sem var hér á síðasta þingi séu flest hver til bóta, þau styrki málið og stöðu skógræktar í landinu, þannig að ég vil lýsa því sem almennu viðhorfi, án þess að það taki endilega til allra þátta þessa frv., að þær breytingar sem orðið hafa frá því sem var í frv. á síðasta þingi horfi fremur til bóta.

Þegar mál þetta var rætt hér haustið 1986, þ.e. það frv. sem þá lá fyrir um skógvernd og skógrækt, gerði ég allnokkrar athugasemdir við það. Ég ætla ekki að endurtaka þær hér. Ég lýsti m.a. nokkrum efasemdum um að þau ákvæði sem er að finna í 7. gr. séu auðveld viðfangs í sambandi við glímuna við búfé og að halda búfé frá skógræktarsvæðum eða skóglendi, og er þar þó um mjög þýðingarmikil mál að ræða vissulega. Ég lýsti því þá einnig að mér fyndist það orka tvímælis að vera með sérstakan kafla í þessum lögum um Skógræktarfélag Íslands sem eru frjáls félagasamtök, en hafa vissulega notið ríkisstuðnings frá upphafi sem eðlilegt er og mætti hann gjarnan vera meiri. En mér finnst það orka nokkuð tvímælis að vera með sérstök lagafyrirmæli varðandi þann félagsskap og að tengja það þessu frv. um skógvernd og skógrækt. Það væri þá frekar að það væru sérstök lög sem giltu um stuðning við Skógræktarfélag Íslands og þar með við frjálsa starfsemi á þessu sviði. En ekki ætta ég að hafa á móti því að það sé stuðningur við þá starfsenti í lögum svo ágætt starf sem unnið hefur verið og unnið er á vegum skógræktarfélaga víða um land.

Ég held að fyrir utan endurbætur á löggjöf skipti mestu að hið opinbera, ríkisvaldið, sýni stuðning í verki við skógræktarstarfsemi í landinu með öflugum fjárveitingum til skynsamlegra verka á þessu sviði. Þar hefur verið allt of naumt skammtað, bæði til Skógræktar ríkisins en einnig til rannsóknarstarfa á vegum Skógræktar ríkisins. Eitt af því sem fyrir liggur í þessu frv. varðar rannsóknir sem tengjast skógrækt og er það út af fyrir sig vel að slíkt ákvæði skuli sett í lög ekki ósvipað og gildir um stuðning við rannsóknarstarfsemi í þágu annarra atvinnugreina. En þessu þarf að fylgja eftir með fjárveitingum. Að mínu mati skortir verulega á að unnið hafi verið úr þeirri reynslu sem fyrir liggur af 80, bráðum 90 ára starfsemi skógræktar í þessu landi. Það er verið að endurtaka mistök, bæði á vegum Skógræktar ríkisins og ekki síður á vegum frjálsra félagasamtaka, sem mætti komast hjá ef menn legðu í það vinnu að safna saman upplýsingum og niðurstöðum af þeim tilraunum sem kalla má að fram hafi farið víða um land í sambandi við plöntun og ræktun aðfluttra tegunda. Ég hef oft nefnt þetta við forráðamenn Skógræktar ríkisins og átalið það t.d. að ráðgjafarstarfsemi við þá viðskiptavini stofnunarinnar sem kaupa af henni trjáplöntur sé ófullnægjandi vegna þess að það er langt frá því að vaxtarskilyrði fyrir einstakar tegundir séu hin sömu um land allt. Þau eru mjög misjöfn og reynsla um það liggur fyrir víða og það er slæmt ef menn eru að kaupa köttinn í sekknum í þessum efnum og setja niður trjáplöntur, einkum ætlaðar til yndisauka, sem litlar líkur eru á að þrífist í sumum byggðarlögum. Þannig þarf að vanda tegundaval. Þetta má segja að snerti rannsóknarstarfsemi og ráðleggingastarfsemi á vegum Skógræktar ríkisins sem fylgja þyrfti eftir með miklu ákveðnari hætti en tekist hefur til þessa.

Það skiptir miklu líka að tekið sé stórt og myndarlega á í þessum efnum þannig að hægt sé að taka upp ræktunarstarfsemi með nytjar í huga á stórum samfelldum landsvæðum. Bæði er það líklegt til þess að vera hagkvæmara og skila meiri arði í framtíðinni og auk þess dregur það úr kostnaði við girðingar og glímuna og árekstrana við búfjárrækt sem vissulega veldur allverulegum tilkostnaði hérlendis í sambandi við skógræktarstarf.

Í þessu sambandi vil ég vísa til þáltill. sem liggur fyrir Sþ. um eflingu skógræktar á Fljótsdalshéraði þar sem 1. flm. er hv. 3. þm. Austurl. ásamt mér og hv. 5. þm. Austurl. sem stöndum að þessari þáltill. Fljótsdalshérað er eitt af þeim svæðum á landinu sem eru sérstaklega vel fallin til skógræktar, efri hluti Fljótsdalshéraðs með hækkandi meðalhita eftir því sem lengra dregur inn til landsins eins og árangur í skógrækt á Hallormsstað um bráðum 90 ára skeið ber ljósan vott um. Slík úrvalssvæði er vissulega að finna víðar og viðleitni hefur verið til þess að kortleggja þau eða gefa vísbendingar um hvar þau svæði sé að finna og vissulega viðleitni til þess einnig að undirbúa átak á slíkum svæðum. Ég tel að það sé afar þýðingarmikið að menn standi þar að með myndarlegri hætti en tekist hefur til þessa og tel að dæmið um Fljótsdalshérað ofan Egilsstaða alveg sérstaklega sé þar eitt af þeim sem borðleggjandi mega teljast. Það vill svo til að t.d. á því svæði er sauðfjárræktin minnkandi þáttur í búskap og horfur raunar á að hún geti lagst af þar á stóru svæði og þá skiptir auðvitað miklu að bændur, sem þar eru, geti áttað sig á hvaða möguleikar eru til skógræktar sem nýbúgreinar og gildir það vafalaust um önnur svæði þó ég þekki þar minna til.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri við 1, umr. málsins, en lýsi þeirri von minni að frv. þetta megi verða að lögum helst á þessu þingi ef hægt er að vinna það með eðlilegum hætti, en alla vega að það dragist ekki lengi úr þessu eftir þær atrennur sem gerðar hafa verið á undanförnum árum að endurskoða lög um skógvernd og skógrækt í landinu.