12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6258 í B-deild Alþingistíðinda. (4312)

443. mál, skógrækt

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektir þeirra við þetta frv. og get tekið undir flest af því sem þeir sögðu.

Hv. 2. þm. Austurl. undirstrikaði þörfina á því að komið sé til skila upplýsingum sem reynslan leiðir í ljós og að því hefur verið unnið mjög síðustu árin að reyna að gera það betur en áður, bæði miðað við þá reynslu sem fengist hefur hér innan lands sérstaklega og jafnframt þá fræðslu sem annars staðar er að hafa.

Það hefur verið tekin upp mjög mikil samvinna við Norðurlandaþjóðirnar á þessu sviði sem er okkur mjög gagnleg. Mönnum er orðið ljóst nú að það þarf að fá sérstök afbrigði fyrir hina ýmsu landshluta hér á landi og þá getur skipt máli hvort uppruni þeirra er 100 km sunnar eða norðar í því landi sem fræið er fengið, eins og t.d. frá Alaska þar sem munur á aðstæðum er svo mikill hér.

Það er einmitt verið að taka upp þau vinnubrögð, sem hv. 2. þm. Austurl. minntist hér á, að gera tilraun með skógrækt á stórum svæðum því að á sl. ári fékk Skógrækt ríkisins til umráða 600 hektara af landi Mosfells í Grímsnesi og þar voru í haust unnir fyrstu 40 hektararnir sem gert er ráð fyrir að setja nú í með bestu tækni sem völ er á til þess einmitt að það liggi fyrir hvernig hægt er að gera þessa vinnu sem hagkvæmasta. Við þekkjum öll sjálfsagt þá viðleitni eða þá tilhneigingu að setja skóga einhvers staðar upp í brekkur þar sem erfitt er að koma tækni við, en þá kostar það að sjálfsögðu miklu meiri vinnu.

Það hefur einnig gerst að níu eða tíu bændur syðst í Biskupstungum hafa tekið sig saman um að friða sitt land og óska eftir að fá stuðning við skógrækt á því svæði með bestu vinnubrögðum sem völ er á.

En að sjálfsögðu, eins og hér kom fram, þarf fjármagn til þessara hluta. Í fjárlögum þessa árs eru áætlaðar hærri upphæðir en áður í þessu skyni, en að sjálfsögðu hrekkur það ekki langt til þess að gera stórvirki þó að það geti orðið gott upphaf á því sem nú er verið að leggja út í.

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að reyna að velja þau svæði sem heppilegust eru til skógræktar, eins og reynslan hefur sýnt að innri hluti Fljótsdalshéraðs er og hv. 2. þm. Austurl. gat um. Það örvar alla þá sem áhuga hafa á þessum málum að koma í Hallormsstaðaskóg og sjá hvað þar getur vaxið.

Ákvæðið um að Landgræðsla og Skógrækt skuli vinna saman er til þess að undirstrika þá stefnu sem hefur verið tekin upp. Það er sú samvinna sem þegar er hafin á milli þessara stofnana landbúnaðarins og enn fremur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sem er með verkefni í gangi í mjög nánu samstarfi við Skógrækt ríkisins.

Ég tek undir þau orð ræðumanna að sjálfsagt er að lagfæra það sem hv. þm. sýnist að betur megi fara í frv. til að ná þeim tilgangi sem því er ætlað og ég vonast til þess að hv. alþm. sjái sér fært að vinna þannig að afgreiðslu málsins að það geti orðið að lögum á þessu þingi.