12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6264 í B-deild Alþingistíðinda. (4321)

293. mál, áfengislög

Sverrir Hermannsson (frh.) :

Herra forseti. Eins og ég tók fram í fyrri hluta ræðu minnar ætla ég ekki að gerast að þessu sinni margorður um þetta mál. Það er enda svo sem ýmsir af fyrirsvarsmönnum þess gerist orðsjúkir mjög, enda ekki að undra þegar gengið er undir svo vondu máli. Það er sérkennilegt hvernig mál hafa raunar skipast, að ekki skuli hafa verið hægt að ná hlustum manna með öll rök sem að því hníga að hér séu menn að vinna hina mestu ósvinnu með því að kalla yfir þjóðina aukið áfengismagn í bjórlíki sem er talin ísmeygilegasta aðferðin til þess að koma áfengi ofan í fólk.

Enda þótt ýmsir formælendur þessa máls hafi látið að því liggja í ótta sínum við það í raun og veru að orðfæri og orðalag ýmissa mótstöðumanna þess hafi orðið til þess að hrekja þingmenn til fylgis við það leyfi ég mér að fullyrða að ekki hefur verið hægt að hrófla við afstöðu manna, ekki eins einasta manns, í þessu máli þrátt fyrir þau gildu rök sem fram hefur verið teflt í málinu.

Fjölmiðlar gerðu sér það að leik í upphafi þessa þings að kanna lifur og lungu í mönnum og menn létu það yfir sig ganga og greiddu þar atkvæði og í ekki merkilegri fjölmiðli en Dagblaðið er - og hefðu ýmsir bændur a.m.k. látið það hjá líða að sitja fyrir svörum hjá því málgagni. En þetta er samt staðreynd, að því sem manni sýnist, og ég hef ekki ástæðu til að vefengja kunnugra manna mál í því efni að í Ed. sé þetta mjög á þann veg að nú eigi þessi ósköp greiðan gang í gegnum hið háa Alþingi.

Ég vil segja í sambandi við þá brtt. sem ég flyt ásamt með þremur öðrum þm., hv. 10. þm. Reykv., hv. 13. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykn., að til þess liggja tvær ástæður.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að það hafi mikið að segja þegar fram í sækir og leyfð hefur verið bruggun og sala öls á Íslandi að einhver fjarlægðarvernd geti orðið til að hindra að menn auki stöðugt neyslu þessa alkóhóls. Ég held að þetta verði þannig, og ætla ég þó ekki að gerast spámaður í málinu, að þetta muni þykja nauðsyn til bera að verði aðgengilegt hverjum sem er. Það má þá mikið vera ef frjálsræðispostularnir muni ekki hefja upp þann söng að tilhlutan ölgerðarmanna, því að auðvitað eru þeir aðaldriffjöðrin í öllu þessu máli, óðar en líður.

Ég hef þá skoðun að það kynni helst að verða til þess að draga úr hömlulausri neyslu þessarar áfengistegundar að menn okruðu á henni, að menn seldu hana sem dýrustu verði. Raunar er það sannfæring mín að með því móti einu væri hægt að halda í þótt ég hins vegar óttist að það verði aldrei í þeim mæli að þetta verði ekki til stórtjóns, heilsutjóns, fyrir þjóðina. Fyrir því er það aðallega að ég legg hér til og flyt hugmynd í tillöguformi fram, sem varð til í Þjóðminjasafni Íslands, að hér yrði stofnað til Carlsbergssjóðs nokkurs konar.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það fyrirbrigði á danskri grund, en þannig var að sá sem upphóf að brugga öl, Carlsberg gamli, var listunnandi mikill og varði á sínum tíma stórfé til þess að efla listasöfn og hvers konar menningarstarsemi í heimalandi sínu. M.a. vann hann þau afrek að flytja heim Thorvaldsen frá Ítalíu og ótrúlegan aragrúa annarra listaverka, auk þess að styrkja innlenda starfsemi í hvívetna í þeim efnum. Af skattalegum ástæðum sérstaklega þegar fram í sótti varð það svo að ráði að Carlsbergssjóður var stofnaður sem síðan hefur gegnt meiri háttar hlutverki í menningarmálum Danmerkur.

Ég ætla að vona að menn rugli þessu ekkert saman við það að menn vilji svo þess vegna líta á að hér sé eitthvert menningarfyrirbæri á ferðinni frekar en brennivínið sem við skattleggjum auðvitað stórfelldlega til að sjá fyrir þörfum þjóðfélagsins á margháttuðum sviðum og á menningarsviðum einnegin. Því fer alls fjarri. Menn geta leikið sér að því í rökþrotum sínum og ég læt það sem vind um eyrun þjóta og ég mun halda áfram að beita mér af alefli gegn samþykkt þessa frv. þótt það lifi skammur tími þess hér í hv. deild og með öllum ráðum að reyna að vinna að því eftir því sem ég hef færi á héðan af að stemma stigu við því að þetta nái fram að ganga.

En eins og ég sagði hef ég trú á að helsta vörnin í málinu eftir að samþykkt þessa óbermis hefur átt sér stað á hinu háa Alþingi sé að þetta verði skattlagt og verðlagt sem allra hæst. Þess vegna er það eindregið skoðun flm. að ofan á það verð sem ella hefði verið ákveðið, sem erfitt er auðvitað að taka til nánar um, yrðu lagðar 5 kr. sem yrðu lagðar í svonefndan safnasjóð.

Þetta er fyrri ástæðan, að með verðstýringu yrði reynt að hamla gegn hömlulausri neyslu þessa alkóhóls og svo í öðru lagi hinar brýnu þarfir safnanna í landinu sem um langa hríð hafa verið afskipt um fjármuni til nauðsynjahlutverka þeirra.

Ég nefni hér og við flm. Þjóðminjasafn. Áætlanir sýna okkur að Þjóðminjasafnið þarf til að byrja með 100 millj. kr. til þess eingöngu að gera, að segja má, húsnæði sitt vatns- og vindhelt. Það hefur legið undir stóráföllum, Þjóðminjasafnið, og munir þess vegna þess að viðhald hússins hefur verið gersamlega vanrækt. Úr þessu þarf að bæta svo ég nefni eitthvað sem dæmi, en til þess að búa það svo úr garði að viðunandi sé, Þjóðminjasafnið, er ætlað að þurfi um 270 millj. kr. Við þekkjum hvernig okkur gengur að ræða við fjárveitingavaldið um þessa hluti þegar þar að kemur og skilningurinn ekki mikill á þeim bæ.

Við nefnum Þjóðskjalasafn. Þar tókst að fá stórgott húsnæði til handa safninu. Það bjó við þær hörmulegu ástæður uppi í Safnahúsi að í öngum sínum hafði safnstjórnin framlengt skilafrest til Þjóðskjalasafnsins upp í 40 ár og framlengdi æ ofan í æ og lengdi skilafrestinn af því að þeir gátu við engu tekið. En það vill verða svo að menn sjá mjög í það að veita þessu okkar Þjóðskjalasafni fjármuni til að koma sér fyrir svo sómasamlegt megi teljast.

Ég veit ekki hversu lengi menn ætla að við getum haldið uppi menningarþjóðfélagi á Íslandi án þess að eiga náttúrugripasafn. Ég verð rétt að segja það að mér er alveg óskiljanleg sú deyfð sem hefur ríkt hjá fólki og fyrirsvarsmönnum að þessu leyti. Og alveg sérstaklega ef við beinum huganum að ungdómnum í landinu, hversu mikill lærdómur og skóli þetta er og lífsnautn að geta gengið að nokkuð góðu náttúrugripasafni, að kynnast fuglum himinsins, liljum vallarins og öllum þeim dýrum náttúrunnar sem við umgöngumst en höfum ekki, og bæjarlýðurinn síst hér um kring, lengur nægjanlegt tækifæri og svigrúm til þess að kynnast svo sem vert væri.

Ég nefni Snorrasafn í Reykholti, það skammarmál, þar sem Norðmenn eru að senda kóng sinn til að reyna að lappa upp á sakirnar, en sjálfir erum við ekkert nema deyfðin og hengilmænuhátturinn í þessu máli.

Fleira má auðvitað nefna. Listasafn Íslands, sem mælt var fyrir frv. til l. um hér áður, er að vísu komið í nýtt húsnæði og sæmilega að því búið. En óðar en líður skal á sannast að það safn þarf meira til sín, bæði í húsrými og ekki síst kaupum á listaverkum. Það er skammtað afskaplega naumlega sem safnið fær til sinna þarfa, sér í lagi til kaupa á listaverkum, en það hljóta menn að sjá og skilja að það hlýtur að vera undirstaða þess að málaralistin sé stunduð svo sem vert væri á Íslandi að sjálft safn landsins geti verslað, keypt listaverk af þeim sem þessa iðju stunda.

Ég gæti haldið áfram að nefna margt fleira í þessu sambandi, en læt hér staðar numið. Samkvæmt þeim útreikningum sem Hagstofa gerði eða Þjóðhagsstofnun, trúi ég væri, á sínum tíma um neyslu bjórsins, þá náði sú áætlun um 7 milljónum lítra á ári. Ég hef þær upplýsingar að í dag sé neytt um 900 þúsund lítra á Keflavíkurflugvelli, en það er auðvitað ekki innanlandsneysla heldur er vegna umferðarinnar líka sem kemur að og frá landinu án viðkomu nema þar — 7 milljónir lítra, takk, af áfengi sem er sama að styrkleika og tvöfaldur skammtur af viskíi blandaður í sódavatni með venjulegum hætti. Það er þessi saklausi mjöður sem heilsuráðherrann okkar hæstvirtur er að greiða hérna atkvæði með að haldi innreið sína í þjóðfélagið að bæta heilsufarið. En enn verð ég að spara stóru orðin svo að kórdrengir Sjálfstfl. verði ekki orðsjúkir.

7 milljónir lítra og það er gert ráð fyrir að af hverjum 33 cl verði greiddar 5 kr. og þær haldi verðgildi sínu. Þar af leiðir má gera ráð fyrir að um 15 kr. yrðu greiddar af lítra öls um það bil og þá gæti þessi skattur lagt sig á 100 millj. kr., mikið fé sem við þurfum sérstaklega að vanda til meðferðar á í því skyni sem ég hef hér nefnt. Þess vegna er líka gerð hér tillaga um að menntmrh. skipi sjóðnum stjórn sem setji safnasjóði stofn- og skipulagsskrá sem síðan sé háð samþykki menntmrh. Hér er auðvitað stórt lagt undir og þetta er ekki lítill skattur, en þegar menn hafa þetta tvennt í huga, að hafa verðlagið sem hæst á þessum ófagnaði sem bjórinn er til þess að stemma stigu við ofneyslu hans og svo í öðru lagi hin brýna þörf þessarar menningarstarfsemi í landinu, og ég tek það fram að hér er því bætt við að önnur menningarhlutverk komi til greina þegar fram í sækir og betur er séð fyrir safnamálum en nú er, af þessum tvennum ástæðum er þessi tillaga flutt.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um hana svo sem, en ég verð að segja það alveg eins og er að við þá frétt sem birtist í ríkisfjölmiðlum í gærkvöldi urðu viðbrögðin með þeim hætti sem mér hafði áður boðið í grun. Bruggararnir tóku heldur betur við sér. Ég ætla aðeins að vona að ég eigi ekki eftir að heyra þau rök sem voru flutt þegar í stað gegn þessu, til að mynda það að þetta væri alveg óskylt mál. Það má segja að skattlagning á brennivíninu sé alveg óskylt mál við menningarstarfsemi í landinu sem við notum þó þessar tekjur til. Það var nefnt undir eins, og það kunnu bruggarar, að það hefði verið hækkað einu sinni verðlag á öli á Grænlandi og þá hefðu menn sótt meira í brennivínið. Sérkennileg rök, kannski ekki svo sérkennileg af úttærðum hagfræðingum, en lögfræðingur ætti að sjá við því vegna þess að þótt menn tali um hækkun á vöru sem hefur ekki verið til gæti það tæplega orsakað meiri sókn í brennivínið sem er fyrir hendi meðan þetta er ekki til.

Þeir sem óttast brennivínið sem mest og sterku drykkina og ætla að hindra og koma í veg fyrir ofneyslu þeirra með því að innleiða bjór hljóta hér að flytja tillögu um gefins bjór til þess nú að krækja fyrir þessi ósköp. Hæstv. heilsuráðherrann hlýtur að flytja slíka tillögu, eins og ég drap hér á áðan, um gefins bjór til að lækna menn af brennivínssýkinni! Ég fer ekki fleiri orðum um þetta.

Ein af röksemdunum var sú að hér væru menn að leggja á ríkissjóð því allt færi þetta í hann. Það má svo sem segja sem svo. Að vísu er þetta nýr tekjustofn, skattur á öl, ef ölið verður framleitt og selt, þannig að það er ekki tekið af þeim tekjustofni sem ríkissjóður hefur fyrir hendi nú. Að vísu er það svo, en auðvitað getum við haldið áfram að rekja hvaðeina sem við köllum til þarfanna í einn og sama sjóðinn okkar meðan við erum svo gæfusöm að halda ein lög allir um það. En þeir sem ekki geta hugsað sér þessa aðferð koma þá væntanlega með aðrar þar sem okkur verður vísaður vegurinn til þeirrar nauðsynlegu starfsemi sem þessi menningarstarfsemi er í landinu. Það hljótum við líka að gera. Og þeir hljóta að sýna fram á það með gildum rökum að ekki beri að hafa hátt verð á alkóhóli í bjór. Það hljóta þeir að gera. Ella vekja þeir tortryggni um að þeir séu að ganga erinda allt annarra manna en íslensku þjóðarinnar hér, heldur örfárra sem ég hef nefnt gróðadólga og mönnum þykir nú prúðmannlegra að kalla gróðapunga. Það er líklega vegna þess að þeir skilja ekki hvað dólgur þýðir. Það hlýtur að vera af einhverjum slíkum orsökum. Og þeir menn hófu starfsemi sína eftir fréttir í gær þegar fréttist um þessa tillögugerð hérna vegna þess að auðvitað skerðir þetta gróða þeirra. Auðvitað selst minna. Auðvitað geta þeir lagt minna á. Nema hvað! Og viðbrögðin létu ekkert á sér standa og má með ólíkindum heita að þeir skyldu halda mig svo veikgeðja að ég hopaði eitt fet fyrir slíkum gróðadólgum.

En það er reynt með öllum hætti að hafa áhrif á veikgeðja hv. alþm. og eins og ég segi eiga þeir hauka í horni þegar það er helst ráð hjá sjálfum hæstv. heilbrmrh. að leggja hér til að aukið áfengismagn verði í umferð á almennum markaði sem harðast mun bitna á ungdómnum í landinu. Og að hugsa sér það að þetta skuli vera á þeim tíma þegar við erum upplýstir um að alkóhólið er aðfari eiturlyfjanna.

Ég hef sagt það áður og þarf ekki að endurtaka það, að þótt ég snerist gegn þessu fyrirbrigði, bjórnum, fyrir 31 ári hafði ég engin afskipti af honum þegar hann var hér á dagskrá. Ég greiddi ekki atkvæði með honum og ég greiddi atkvæði á móti honum, en ég hafði engin afskipti af honum, ég talaði ekki í þeim málum. En 16. okt. 1985 voru lagðar fyrir mig skýrslur um neysluvenjur skólaæsku á Stór-Reykjavíkursvæðinu og orsakir þeirra, eiturefnaneysluvenjur. Ljótt og vont orð. Þá hlaut ég að strengja þess heit með sjálfum mér að láta aldrei hendi óveifað að reyna að hindra eiturefnaneysluna sem er miklu meiri en nokkurn mann grunar. Og læknar og allar rannsóknir færa okkur heim sanninn um að það er alkóhólið sem varðar veginn fyrir eiturefnin í næstum því öllu falli. Þegar svo þessar sannanir lágu á borðinu, og þær liggja á allra manna borðum hvað svo sem þeir þegja og verja sig með frjálsræðiskjaftæði sem og að öllum eigi að gera jafnhátt undir höfði og ég man ekki hvað og hvað, þær liggja á allra borðum, að menn skuli samt vilja láta gera þessa tilraun, kalla þeir sumir, er mér alveg með öllu óskiljanlegt.

Ég sagði áðan við hæstv. heilbrmrh. að ég þyrfti ekkert að eyða fleiri orðum á hann né heldur lengja þessa umræðu af því sem hún er rétt að byrja og það verður undir henni gengið af öðrum mönnum. Innan örskamms tíma verður hún tekin upp og mig uggir að ekki verði aftur snúið þá. Þá verður hún tekin upp í ljósi þeirra staðreynda innan örskamms tíma, árs eða svo, að áfengisneysla þjóðarinnar hefur stóraukist. Innan tveggja, þriggja ára verður hún tekin upp á þeim forsendum að heilsufar þjóðarinnar hafi stórversnað, alveg óhjákvæmilega. Það þarf engan spámann til þess að segja þetta fyrir. Og þrætur um tölfræði annarra þjóða í þessum efnum eru alveg með ólíkindum. Tölfræði eru ekkert annað en staðreyndir þegar rannsóknir og úttektir hafa verið gerðar nógu rækilega.

Ef svo illa til tekst að öl verði leyft er ég sannfærður um að hið háa Alþingi mun samþykkja tillögu okkar um að auka skattana á þetta alkóhól og þá að nýta það til gagnsamlegra hluta.