12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6281 í B-deild Alþingistíðinda. (4327)

293. mál, áfengislög

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er að bera í bakkafullan lækinn að lengja þessa umræðu mikið meira, en vegna þeirrar brtt. sem hér hefur komið fram frá fjórum hv. þm. í þessari virðulegu deild vil ég láta það koma fram að ég er hlynntur þessari brtt. en ég get ekki betur séð en að hún setji mig í talsverðan vanda. Vandinn hlýtur að vera sá að samþykki ég brtt. hlýt ég að standa frammi fyrir því að þurfa að samþykkja frv. í heild sinni (SvH: Alls ekki.) þegar það kemur til atkvæða. Annað er bara tvískinnungur, hreinn og klár, (SvH: Nei, nei, nei. Þetta er misskilningur þingmannsins.) Nei, þetta er ekki misskilningur. (SvH: Það eru ótal dæmi um að menn hafi greitt þannig atkvæði, ótal, ótal.) Ég hygg að þetta væri alveg ótrúlega kjánaleg meðferð og kjánaleg afstaða hjá þingmanni sem væri andstæðingur bjórfrv. í heild, að hann vegna þess að hann væri hlynntur skattlagningartillögu sem kæmi inn í frv. yrði að lokum að samþykkja frv. í heild sinni sem hann er búinn að lýsa yfir andstöðu við og greiða atkvæði gegn við fyrri umræður í þinginu. Mér finnst undarlegt að þurfa í raun og veru að hafna þessari tillögu vegna þess að ég hygg að á flutningi hennar sé formgalli. En þetta mun ég hugsa nánar.

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að ég er búinn að hlusta á megnið af þeirri umræðu sem fram hefur farið á þinginu um áfengt öl og það sem kemur mér mest á óvart í þessari umræðu, vegna þess að ég hef reynt að byggja minn málflutning á tölulegum staðreyndum um áfengt öl frá öðrum löndum, vísindaritgerðum, vísindarannsóknum, upplýsingum frá öðrum löndum, er að á sama tíma, eins og ég hef sagt ykkur áður, og allar þjóðir Vesturlanda og þjóðir þriðja heimsins, Afríku, Asíu, eru að berjast miskunnarlausri, örvæntingarfullri baráttu gegn aukinni áfengisneyslu, þá er Alþingi Íslendinga að berjast fyrir því að auka áfengisneyslu. Þetta er auðvitað þvílík þversögn að það tekur engu tali. Og ef menn hugsa málið út frá þessu sjónarmiði er þetta í eðli sínu þinginu til háborinnar skammar.

Ég vil líka leyfa mér að fullyrða, þó ég auðvitað geti ekki rennt stoðum undir þá fullyrðingu, hún er meira sögð af tilfinningu fyrir málinu, að þeir menn sem styðja bjórinn og styðja bjórfrv. hafi ekki lesið þær upplýsingar sem til eru um afleiðingar af ölneyslu, af framleiðslu á sterku öli í öðrum löndum.

Og nú langar mig að segja hv. þm., sem enn nenna að sitja undir þessari umræðu, að fyrir tæpri viku horfði ég á langan sjónvarpsþátt í CBS-sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum þar sem fjallað var um það sem Bandaríkjamenn kalla núna þjóðaróvin númer eitt, eiturlyfjavandann.

Í þessum þætti kom m.a. fram að tíundi hver Bandaríkjamaður neytir eiturlyfja, þ.e. 25 milljónir Bandaríkjamanna eða þar um bil. Það er þingmannanefnd að rannsaka eiturlyfjaflutninga til Bandaríkjanna, smygl, dreifingu eiturlyfja, þátt háttsettra embættismanna innan stjórnkerfisins, bæði í Bandaríkjunum og utan Bandaríkjanna, í eiturlyfjasmyglinu. Það voru beinar útsendingar frá yfirheyrslum þingnefndarinnar yfir mönnum sem tengdust þessum málum og voru afskaplega forvitnilegar. Ég mundi nú leggja til að þingmenn íslenskir yrðu sér úti um eintak af þessum yfirheyrslum, af sjónvarpsþáttunum og horfðu á þá.

Í framhaldi af þessari umræðu var langur fréttaskýringarþáttur þar sem komu fram fulltrúar heilbrigðisyfirvalda, læknar, félagsfræðingar, fólk sem starfar í gettóum stórborganna þar sem vandinn er mestur og það var fjallað einkum og sér í lagi um kókaín, um „krakk“ og um hassneyslu.

Það var eitt sem ég tók sérstaklega eftir og skrifaði hjá mér: Niðurstaða þriggja þeirra sem um þetta fjölluðu í sjónvarpsþættinum var sú að langflestir unglingar á aldrinum 12–16 ára leiddust út í hassneyslu og „krakk„notkun í framhaldi af áfengisneyslu. Og inn í þessa umræðu kom bjórinn alveg sérstaklega. Það var rætt um hann á þeim nótum að unglingar neyttu áfengs öls vegna þess í fyrsta lagi að það væri talið minna hættulegt en sterkir drykkir og vegna þess að menn hefðu ekki eins miklar áhyggjur af því að verða alkóhólistar vegna neyslu á sterku öli.

Kona sem tók þátt í þessari umræðu og var félagsfræðingur og starfaði í gettóinu í New York sagði að vísu að stór hópur unglinga færi beint út í fíkniefnaneysluna, bæði „krakkið“ og hassið, en miklu fleiri leiddust út í það í framhaldi af áfengisdrykkju, einkum og sér í lagi öldrykkju.

Þetta er niðurstaða þessa ágæta fólks sem hefur átt við þennan vanda að stríða miklu lengur en við og ég verð að segja að ég fylltist þvílíkri skelfingu þegar ég áttaði mig á því hvers konar böl er um að ræða í þessum efnum að aldrei hef ég verið eins harður andstæðingur þess að auka á framboð áfengis hér á landi og nákvæmlega þessarar tegundar sem við erum að ræða og núna. Þessi þáttur hafði meiri áhrif á mig en flest annað sem ég hef lesið og séð um þessi mál og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það sæta furðu að hv. þm. sem styðja bruggun á sterku öli og sölu þess hér á landi og eru foreldrar skuli leyfa sér að styðja þetta. Það finnst mér svo óskiljanlegt að ég fæ engan botn í það hversu mikið sem ég hugsa um það mál.

Ég átti viðræður við breskan heiðursmann fyrir nokkru. Hann var staddur hér á landi og hafði mikinn áhuga á bjórumræðunni. Við vorum að tala um hana og ég reyndi fræða hann eins og ég gat. Ég sagði honum m.a. að stuðningsmenn bjórsins héldu því mjög fram að hann gæti orðið mannlegum samskiptum til heilla, m.a. í formi „pöbba“ eða bjórkráa þar sem fólk gæti hist og hjalað saman yfir bjórdrukk. Þá sagði þessi heiðursmaður: „Já, ég hef orðið var við þetta, að menn lita á breska „pöbba“ í einhverjum ævintýraljóma. En menn líta aldrei á bakhlið málsins. Menn líta aldrei á skelfinguna sem fylgir þessari sídrykkju á bjór á breskum „pöbbum“. Eða hefur það fólk sem talar um sjarmann við bjórdrykkjuna komið til hafnarborga á Bretlandseyjum þar sem menn gjarnan eyða hýrunni sinni í bjórdrykkju, eða þær félagslegu afleiðingar sem þessi bjórdrykkja hefur, eða hve stór hluti af áfengisvanda Breta bjórdrykkjan er, hve margir alkóhólistar eru bjórdrykkjumenn?"

En hér er sagt: Bjórinn, hann er ekki hættulegur. Hann kennir börnunum okkar að drekka. Þau eiga kost á veikri tegund af áfengi sem þau geta sullað í hvenær sem þau vilja af því að það fylgir því engin áhætta. Þessi breski heiðursmaður sagði: „Það eru auðvitað tvær hliðar á þessu máli, en hér hefur aðeins verið dregin upp hin bjartari sem snýr kannski að útlendingnum sem kemur í skyndiferð í breska borg og finnst notalegt að skjótast inn á krá.“

Annað er það sem ég vil mótmæla og sem hefur komið fram í máli stuðningsmanna bjórsins og það er að bjórinn verði eingöngu seldur á útsölustöðum ÁTVR. Þetta er ekki rétt. Hann verður seldur á um það bil 140 öðrum stöðum til viðbótar sem eru öll veitingahús landsins sem hafa leyfi til áfengissölu. Við erum ekkert að tala um að selja bjór í örfáum áfengisútsölum. Hann fer auðvitað inn á hvert veitingahús landsins sem hefur vínveitingaleyfi þannig að dreifing hans verður miklu meiri en menn vilja almennt gefa í skyn í umræðum á þingi. Þessu finnst mér að menn hafi gleymt í allri umræðunni.

Ég verð að segja það, líka þeim sem hafa mikla trú á því að það sé hægt að stýra áfengisneyslu með verðlagningu, að ég hef ekki umtalsverða trú á þeirri kenningu þó að þeir menn séu kannski sammála mér í andstöðunni gegn bjórnum hér á þingi. Ég átti þess kost að ræða stuttlega við einn ágætan starfsmann hins háa Alþingis, sem áður var barþjónn um líklega þriggja áratuga skeið, og hann hafði mikið gaman af þeirri skoðun sem komið hafði fram í einhverjum sjónvarpsþætti, sem ég tók þátt í, að verðlagning á áfengi hefði umtalsverð áhrif á það að menn keyptu eða keyptu ekki. Hann sagði að á sínum þriggja áratuga ferli sem barþjónn hefði hann aldrei vitað til þess að nokkur maður hefði snúið frá barnum vegna þess að brennivínið var of dýrt. Ég tel þess vegna að verðlagningaraðferðin, sem menn hafa mjög flaggað með, stjórni ekki þessu máli að verulegu leyti. Ég hygg að það sé fyrst og fremst spurning um framboðið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að tuða meira um þetta mál. Þessi umræða er orðin mikil og okkur ber skylda til þess að afgreiða þetta mál á hvorn veginn sem það fer. Ég vil bara hvetja menn til þess áður en þeir taka endanlega afstöðu í þessu máli að kynna sér betur þau gögn sem til eru um afleiðingar bjórdrykkju og bruggunar og sölu áfengs öls í öðrum löndum. Ég verð að segja það eins og er að það eru t.d. upplýsingar frá Finnlandi sem hafa langmest áhrif á mig í þessum efnum vegna þess að þar stendur skýrum stöfum, óhrekjanlegum, í skýrslum frá finnska heilbrmrn. að á þriggja ára tímabili eftir að bruggun og sala áfengs öls var leyfð í Finnlandi jókst heildaráfengisneysla um 116%. Þessu verður ekki mótmælt. Það er ekki hægt að mótmæla þessu. Og miðað við að drykkjuvenjur okkar og Finna hafa um árabil verið taldar mjög svipaðar hygg ég að nákvæmlega hið sama muni gerast hér.

Ég segi það bæði í fyllstu vinsemd og mikilli alvöru, eins og ég hef sagt áður, að ég hygg að afleiðingarnar af því að veita þessa heimild til bruggunar og sölu á sterku öli eigi eftir að verða miklu alvarlegri en menn gera sér grein fyrir í fljótu bragði. Ég er sannfærður um að þetta á eftir að kosta heilbrigðiskerfið óheyrilega fjármuni — og kostar nú lækning á þeim sjúkdómum sem fylgja ofneyslu áfengis þegar nægilega stóra upphæð.

Það er m.a. af þessari ástæðu að ég hef snúist gegn frv. Ég hef verið andstæðingur bjórbruggunar í tíu ár því að fyrst þegar byrjað var að fjalla um þetta og ég fór að fylgjast með þessu gerði ég mér far um að kynna mér þær upplýsingar sem fyrir hendi eru um þetta og á þeim upplýsingum hef ég byggt afstöðu mína í þessu máli. Ég hef tekið það skýrt fram að þessi afstaða byggist ekki á tilfinningalegum rökum. Hún byggist fyrst og fremst á því að ég hygg að þessi ákvörðun verði allt of dýr fyrir samfélagið þegar til lengdar lætur. Og ég hygg að þessi ákvörðun verði ekki bara dýr í peningum heldur verði hún dýr í tilfinningalegu áfalli fyrir fleiri og fleiri og fleiri, hún verði dýr vegna þeirra hörmunga sem áfengið leiðir nú þegar og á eftir að leiða í æ ríkara mæli yfir íslenskar fjölskyldur, yfir íslensk börn, konur og karla. Af þessum upptöldum ástæðum ítreka ég andstöðu mína við þetta frv.