04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

1. mál, fjárlög 1988

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Fyrir réttri viku hlustuðum við á stefnuræðu hæstv. forsrh., út af fyrir sig ágætisræðu þó ekki segði hún mikið um stefnu ríkisstjórnarinnar. Hér höfum við hins vegar fengið til 1. umræðu frv. til fjárlaga og þar birtist stefnan svört á hvítu. Við sjáum líka hver raunverulegur viðskilnaður síðustu ríkisstjórnar var, en hann er einn sá ljótasti sem um getur. Því má virða hæstv. fjmrh. það til nokkurrar vorkunnar að taka við og ætla að leysa vandann.

Í frv. sjáum við svo hvernig á að standa að því. Og þar komu vonbrigðin. Oft hef ég hlustað á hæstv. fjmrh. áður en hann tók við þessu embætti og oft hef ég lesið greinar hans þar sem hann lýsir skattastefnu Alþfl., og yfirleitt hefur þar borið hæst að það á að ná tangarhaldi á þeim sem svíkja undan skatti, koma í veg fyrir skattsvik almennt. Það væri stefna Alþfl. Þess vegna beið ég fjárlagafrv. með nokkurri eftirvæntingu. En hér er það og ekki eftirvæntingarinnar virði. Enn er leitað á sömu miðin. Enn á að leysa vanda ríkissjóðs með auknum álögum á almenning. Áfram sleppa stóreignamenn frá skattlagningu, enn sleppa skattsvikararnir, áfram á að fylla upp í göt fjárlaga með því að skerða og skera niður samfélagslega þjónustu. Og áfram skal haldið þeirri stefnu að færa byggð í þessu landi á suðvesturhornið.

Frv. gerir ráð fyrir hallalausum ríkissjóði í lok ársins 1988, gott markmið en leiðirnar að því þreyttar og lúnar. Í engu er svarað væntingum fólks um nýjar leiðir í skattlagningu og að tekið verði á skattsvikum þó að hæstv. ráðherra hafi sjálfur nefnt tölur um upphæðir sem á hverju ári er stungið undan skatti og að þær færu langleiðina með að rétta stöðu ríkissjóðs eftir heldur óskemmtilegan viðskilnað síðustu ríkisstjórnar. Þarna eru á ferðinni hærri upphæðir en þær sem fást fyrir aukna skattlagningu á mat og menningu. En það er megininntakið í skattastefnu þessarar ríkisstjórnar.

Neysluskattar þeir sem ríkisstjórnin lagði á sl. sumar og áformað er að stórauka á næsta ári bitna af fullri hörku á fjölskyldum í landinu, ekki einungis í formi hærra verðs á nauðsynjum heldur kemur þessi skattlagning að fullu út í verðlagið þannig að afborganir af verðtryggðum lánum hækka verulega. Það ásamt þeirri óheftu stefnu sem rekin er í vaxtamálum á eftir að bitna illa á landsmönnum. Það hefur verið erfitt fyrir fólk að halda húsnæði sínu og láta enda ná saman í fjármálum heimilanna á undanförnum árum, en það mun verða enn erfiðara á komandi ári verði ekki breyting á stefnu stjórnvalda.

En áfram með tekjuleiðir og leiðir að hallalausum ríkissjóði. Þær eru: aukinn neysluskattur, bifreiða- og bensíngjöld, launaskattur á ýmis fyrirtæki eins og fiskvinnslu, niðurskurður á styrkjum til atvinnuvega, verkefni færð eftir hentugleikum yfir til sveitarfélaganna, skattur á menningu, niðurfelling og skerðing á framlögum til ýmissa málaflokka, eins og t.d. til áfengisvarnaráðs og til íþrótta- og æskulýðsmála. Það er óþarfi að telja fleiri liði. Allt er á sömu bókina lært. Hvergi er reynt að ná til þeirra sem peningana eiga heldur róið á sömu mið og áður. Hæstv. fjmrh. situr og dorgar í vasa almennings. Þar er enginn kvóti. Þar er ekki rætt um ofveiði eða útrýmingarhættu. Þau mið á að þurrka upp. Hefði nú ekki verið nær að draga fram tillögur sem hér hafa verið fluttar af Alþb. og jafnvel Alþfl., tillögur sem taka á skattsvikum, tillögur um álagningu skatta sem ekki velta beint út í verðlagið?

Og þá er það gjaldahliðin. Það sést að áætluð útgjöld hækka um 19,3% frá því sem nú er áætlað á móti tekjuaukningu upp á 24,6%. Stór hluti af útgjöldum ríkissjóðs eru vaxtagjöld eða um 8,1% á móti 7,3% þetta ár. Til samanburðar má nefna að vaxtagjöld námu 2,2% af heildarútgjöldum ríkissjóðs árið 1982 sem sýnir í hve miklar ógöngur málin hafa þróast. Vaxtagjöldin eru áætluð um 4800 millj. kr. eða um 1 millj. 220 þús. aukning frá því sem nú er. Þetta þýðir að um tólfta hver króna af tekjum ríkissjóðs fer í vaxtagreiðslur, bein afleiðing af stefnu síðustu ríkisstjórnar og allhastarleg afleiðing þegar litið er til þess góðæris sem við höfum búið við. Þennan útgjaldalið var sem sé ekki möguleiki á að draga saman. En það á að gera á öðrum sviðum. Um leið og í frv. er viðurkennt og orðið við áætlaðri þörf allra ráðuneyta til verulegrar útgjaldaaukningar varðandi kostnaðarliðinn Yfirstjórn ráðuneyta, allt frá 60 og upp í 100%, er niðurskurður á framlögum til atvinnuveganna og stofnana sem vinna að rannsóknum á þeirra vegum. Þarna verða verst úti atvinnuvegir landsbyggðarinnar, sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður. Endurgreiðslur söluskatts til sjávarútvegs á að skera niður um helming. Þær eiga að vera 350 millj., en þyrftu samkvæmt áætlun að vera yfir 700 millj. Launaskattur er lagður á fiskvinnsluna, dregið úr fjármagni til rannsókna, fiskileitar, markaðsöflunar og tilrauna í útgerð og fiskvinnslu. Harkalega vegið að einum helsta undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.

Í þessu sambandi má líka taka framlög til hafnamála. Það hefur komið berlega í ljós á síðustu vikum í samtölum fjvn. við sveitarstjórnarmenn að ástand hafna er víðast hvar í mjög slæmu ásigkomulagi. Beiðnir um fjárframlög í þennan málaflokk liggja á borði fjvn. og þar er um stórar fjárhæðir að ræða, nemur hundruðum milljóna kr. Fulltrúar sveitarfélaganna miða beiðnir sínar við till. til þál. um hafnaáætlun sem lögð var fram á síðasta ári en aldrei afgreidd, sýnd veiði en ekki gefin. Tillagan var þó í nokkru samræmi við framkvæmdaþörf. Áætluð fjárframlög til hafnamála á árinu 1988 eru í engu samræmi við þessa þáltill. og er ekki úr vegi að spyrja hér hver verði örlög hennar. Á að draga hana upp á borðið aftur og framreikna eða á að pakka henni niður? En þó illilega sé vegið að sjávarútvegi í frv. til fjárlaga fær þó landbúnaðurinn í raun enn verri útreið. Reyndar fær þessi atvinnugrein hrikalega meðferð ef tekið er tillit til þróunar síðustu ára.

Fyrir örfáum mánuðum, þegar núv. ríkisstjórn setti saman stefnuyfirlýsingu sína, mátti finna þar kafla sem ber millifyrirsögnina Starfsáætlun og fjallar um mikilvæga þætti í atvinnustefnunni. Þar segir um stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaði, með leyfi herra forseta:

„Nýjar búgreinar verði efldar og stærri hluti fjárveitinga til landbúnaðar renni til þeirra. Menntun, starfsfræðsla og rannsóknir í landbúnaði verði efldar. Jafnframt verði unnið skipulega að fjölgun nýrra starfa í sveitum landsins.“

Svo mörg voru þau orð. Ekki er ég hissa þó hæstv. landbrh. hafi átt erfitt með að kyngja þeim tillögum sem birtast í frv. varðandi landbúnaðinn, hafandi svona stefnuyfirlýsingu í farteskinu.

Nú þegar bændur eru hvattir til að leggja stund á nýjar búgreinar, og reyndar eru það margir sem eiga ekkert val ef þeir ætla að búa áfram á jörðum sínum, þyrfti að stórauka rannsóknir og ráðgjafarþjónustu við þessa atvinnugrein. En ef ekki verður breyting á frv. í meðförum þingsins verðá framlög til landbúnaðar, rannsókna og ráðgjafar á vegum hans stórlega skert. Stjórn Stéttarsambands bænda hefur reyndar sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að stjórnin telur að þetta frv. til fjárlaga brjóti í bága við þá stefnu sem mörkuð hefur verið á Alþingi um málefni landbúnaðarins og bendir m.a. á því til stuðnings að eitt meginmarkmið búvörulaganna er að stuðla að uppbyggingu nýrrar atvinnustarfsemi í sveitum, að búháttabreyting í landbúnaðinum er eitt viðamesta verkefnið sem þessi atvinnugrein og þær stofnanir sem henni þjóna hafa tekist á við. Það liggur því í augum uppi að þörf landbúnaðarins fyrir rannsóknir og leiðbeiningar hefur sjaldan verið meiri en nú. Það skýtur því skökku við að framlög til þessara þátta eru dregin saman.

Iðnaður fær líka sinn skerf af niðurskurðinum. Þar ætla ég að nefna sérstaklega einn lið sem líklega bitnar hvað harðast á okkur sem búum úti á landsbyggðinni, en það er að framlög til iðnráðgjafarþjónustu eru felld niður. Iðnráðgjafar hafa verið starfandi í nær öllum landsfjórðungum og unnið þar mikið og gott starf. Þau eru ófá fyrirtækin úti á landsbyggðinni sem þeir hafa átt þátt í að koma af stað, auk þeirrar ráðgjafar sem þeir veita starfandi fyrirtækjum um rekstur og rekstrarafkomu. Það er því erfitt að taka þeirri tillögu að þessi störf skuli leggja niður, ekki síst nú þegar samdráttur er í atvinnugreinum landsbyggðarinnar og brýn þörf fyrir uppbyggingu nýrra atvinnufyrirtækja, þörf á að leifa nýrra leiða, ekki síst ef halda á byggð í öllu landinu. Það er því með öllu óskiljanlegt að áætlað er að hætta framlögum til starfsemi iðnráðgjafa.

Framlög til Iðntæknistofnunar, sem sinnt hefur sama hlutverki og iðnráðgjafar, eru líka skorin niður. Um það hafði Páll Pálsson, forstjóri Iðntæknistofnunar, m.a. þetta að segja í samtali við blaðið Dag, með leyfi herra forseta:

„Þetta er ekki síst furðulegt þegar rifjað er upp hvernig forustumenn stjórnarflokkanna böðuðu sig í vísdómi og visku um það að sérstaka áherslu ætti að leggja á uppbyggingu á hinum ýmsu sviðum sem Iðntæknistofnun sinnir mest og er í nánustum tengslum við. Í einu orði sagt finnst mér þetta bara rugl og eftir svona meðferð get ég ekki treyst og borið virðingu fyrir þessari ríkisstjórn.“

Seinna í sama viðtali um niðurskurð til Iðntæknistofnunar segir Páll:

„Þetta á hins vegar ekki aðeins við um okkur heldur virðist þetta vera bundið þessum atvinnuvegi því að það sama gerist með framlög til vöruþróunar og markaðsmála hjá Iðnlánasjóði og einnig með framlög til Rannsóknasjóðs ríkisins. Þessar þrjár einingar eru langt fyrir neðan meðaltalshækkun.“

Þetta var um tillögur frv. um framlög til iðnaðar. En það er ekki alls staðar skorið niður. Sums staðar er um verulega aukningu að ræða frá því sem áður var og er það vel. Þar má nefna Lánasjóð ísl. námsmanna, framlög til sérkennslu barna og til leiklistarstarfsemi. Reyndar er alls ekki víst að þessi auknu framlög til leiklistar nýtist að fullu því að menningarskatturinn leggst á leikhúsmiðana og getur orðið til þess að almenningur eigi erfiðara með að veita sér þá ánægju að fara á góða leiksýningu.

Enn á ég eftir helstu breytingar á tillögum til fjárlaga frá því sem áður var. Lengi hafa verið í gangi umræður um breytta verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og loks liggja frammi tillögur nefndar sem fjallar um málið, tillögur sem á margan hátt eru skynsamlegar og eru í þá átt að færa aukin völd og ákvörðunarrétt út til sveitarfélaganna. Þetta er niðurstaða sem ég held að megi fullyrða að eigi meirihlutastuðning sveitarstjórnarmanna, en þó með þeim fyrirvara að um leið og aukin verkefni eru færð út til sveitarfélaganna séu þeim tryggðar auknar tekjur, enda kemur þetta skýrt fram í ályktun áðurnefndrar nefndar.

Nefndin um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga leggur enn fremur til að ekki sé nú flanað að neinu, undirbúningur verksins þurfi að vera góður, og því leggur nefndin til að tilfærsla verkefna verði um áramótin 1988–1989. Þannig gefist sveitarfélögum og ríkisvaldi nægur tími til undirbúnings og aðlögunar. En nú ber svo við að allt í einu án undirbúnings tekur hæstv. fjmrh. ákvörðun um einhliða tilfærslu verkefna, þ.e. hann tekur út úr tillögunni þau verkefni sem honum finnst henta að færa yfir á sveitarfélögin án þess að þau fái nokkurn aðlögunartíma og án þess að þeim séu tryggðir ákveðnir tekjustofnar eða tekin hafi verið ákvörðun um hvernig skuli staðið við uppgjör þeirra framkvæmda sem ríkið hefur nú þegar samþykkt og án þess að ríkið yfirtaki nokkuð af þeim verkefnum sem lagt er til að falli í hlut þess. Í þessu felst ekkert réttlæti og virðist hafa verið framkvæmt í einhverju bráðræðiskasti án umhugsunar og án sanngirni.

Af þeim verkefnum sem nú hafa verið færð yfir til sveitarfélaganna má nefna byggðasöfn, tónlistarskóla, heimaþjónustu við aldraða og rekstur dagvistarstofnana. Þessi verkefni og önnur sem ég mun koma að hér á eftir eru færð alfarið yfir á sveitarfélögin. Fullkomin óvissa ríkir um hvernig þeim er ætlað að mæta auknum útgjöldum sem tilfærslan hefur í för með sér. Aðeins er bent á að úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði aukin frá því sem var í ár eða réttara sagt: skerðing Jöfnunarsjóðs verður minni en í ár.

Ekki sé ég að þarna sé um neinn höfðingsskap að ræða. Aðeins er verið að láta sveitarfélögin hafa þær tekjur sem þau eiga samkvæmt lögum rétt á að fá. Burtséð frá allri verkefnaskiptingu eru þetta tekjur sem þau eiga og hafa átt að fá. Þarna er því hreint ekki verið að koma með aukna tekjustofna í samræmi við aukin verkefni sveitarfélaga, aldeilis ekki, og enginn sveitarstjórnarmaður tekur mark á þeim röksemdafærslum.

Tekjur Jöfnunarsjóðsins ættu samkvæmt frv. að vera 1 milljarður 655 millj. kr., en gert er ráð fyrir skerðingu þannig að sveitarfélögin fá af þessum lögbundnu tekjum sínum 1 milljarð 485 millj. kr. Hvergi er heldur í frv. gert ráð fyrir framlagi til að greiða þær skuldbindingar sem ríkið hefur nú þegar gert við sveitarfélögin og enn er allt í lausu lofti hvað varðar álagningarprósentu útsvars þannig að tekjur sveitarfélaga til að mæta auknum útgjöldum eru eins mikið í lausu lofti og hægt er. Því óttast ég að sú ákvörðun að færa strax verkefni yfir á sveitarfélögin eigi eftir að draga dilk á eftir sér og bitna harkalega á minnstu sveitarfélögunum úti á landi. Þar verði ókleift að halda uppi þeirri þjónustu sem nú er í gangi, svo sem dagvistun barna og tónlistarkennslu.

Það þarf heldur ekki að efast um að það á líka eftir að bitna á sveitarfélögunum sú tillaga að fella niður framlög til Íþróttasjóðs og Félagsheimilasjóðs eða niðurskurður til æskulýðs- og íþróttamála. Börn úti á landi búa víðast hvar ekki við sömu aðstöðu til íþróttaiðkana og það sem þekkist hér á höfuðborgarsvæðinu. Íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarnar hafa þó unnið þarna mikið og gott starf, oft í samvinnu við sveitarstjórnirnar. Skert framlög til þessara félaga þýða því ekkert annað en skerðingu á starfsemi þeirra í þágu barna og unglinga vítt og breitt um landið.

Sveitarfélögin fá líka í sínar hendur rekstur landshafna og framlögum ríkis í dýrar vatnsveituframkvæmdir er hætt þannig að sá liður færist af fullum þunga á sveitarfélögin. Hv. alþm. verða því að tryggja að frv. til fjárlaga fyrir árið 1988 fari ekki í gegnum þingið án þess að tryggilega verði gengið frá málefnum sveitarfélaganna.

Að breyta orðum í athafnir, sagði hæstv. fjmrh. í umræðum í síðustu viku. Við viljum sjá þessa athöfn gagnvart tekjustofnum sveitarfélaga en ekki bara hafa fyrir því orð hæstv. ráðherra þótt dýrmæt séu.

Og það eru önnur framlög þar sem ekki er farið að samþykktum hv. Alþingis. T.d. var 1985 samþykkt ályktun um að auka í áföngum framlög til þróunaraðstoðar. Sú aukning kemur þannig fram að 1987 eru þessi framlög 30 millj. kr. en hér er lagt til að þau verði 20 millj., niðurskurður um þriðjung á sama tíma og þjóðartekjur hækka. Kvikmyndasjóður fær líka í sinn hlut verulega skert framlög frá því sem áður var. Eitt sinn var samþykktur sérstakur skattur sem renna átti beint til byggingar þjóðarbókhlöðu. Ekki er farið að þeirri samþykkt heldur og ekki er að sjá annað en þeir peningar renni beint í ríkiskassann.

Og þá eru það húsnæðismálin. Byggingarsjóður fær í sinn hlut 1150 millj. Þar af fara til greiðslu erfiðleikalána 150 millj. Eftir standa til nýrra lána 1000 millj., sama krónutala og fyrrv. ráðherra lagði til fyrir ári og þótti þá ekki nóg. En í raun er þetta þó ekki sama upphæð því af þessum 1000 millj. skal ríkissjóður fá að láni 500 millj. þannig að eftir standa aðeins 500 millj. til útlána. Lítið framlag það miðað við þá gífurlegu þörf sem þarna er fyrir aukið fjármagn.

Herra forseti. Ég hef hér stiklað á stóru um þær athugasemdir og fyrirvara sem Alþb. gerir við frv. Við munum á seinni stigum umræðunnar koma með brtt. Ég vil að lokum aðeins segja að þó svo við höfum fyrir framan okkur tillögu að hallalausum fjárlögum eru í þessari tillögu svo margir lausir endar sem eftir á að hnýta. Efnahagsforsendur frv. eru ótryggar sem sýndi sig best dagana áður en frv. var lagt fram. Frv. var unnið í þeim fljótheitum að ekki kann góðri lukku að stýra. Úr því verður þó vonandi bætt í meðförum Alþingis af mönnum sem flýta sér hægt og vita að flas er ei til fagnaðar.