13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6293 í B-deild Alþingistíðinda. (4335)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það eru að sjálfsögðu almannahagsmunir að vel sé farið með fé skattborgaranna og það er nauðsynlegt að hægt sé að hafa eftirlit með meðferð þess fjár. Tilefni þessa frv. hefur þegar verið skýrt hér fyrr í umræðunum og mun ég ekki ræða það frekar. En af því tilefni vil ég vekja athygli á því að nú um nokkra hríð hafa staðið samningaumleitanir milli Tryggingastofnunar og Læknafélags Íslands um hvernig best væri að haga eftirliti stofnunarinnar með þeim reikningum sem læknar senda stofnuninni og fá greidda fyrir unnin læknisverk. Ýmsar aðferðir hafa verið ræddar til að mæta þeim kröfum eða sem geta mætt þeim kröfum sem reikningsskil Tryggingastofnunar gera, en þó þannig að ekki sé rofinn sá hefðbundni trúnaður sem nauðsynlegt er að ríki milli læknis og sjúklings og er reyndar lögskipaður í 10. gr. núgildandi læknalaga, með leyfi forseta:

„Sérhverjum lækni ber að gæta fyllstu þagmælsku um öll einkamál, er hann kann að komast að sem læknir, nema lög bjóði annað eða hann viti sönnur á að brýn nauðsyn annarra krefji, enda láti hann þá ekki uppi annað eða meira en minnst verður komist af með til að afstýra hættu. Um slík einkamál verður læknir ekki leiddur sem vitni í réttarmálum gegn vilja þess er einkamálið varðar nema ætla megi að úrslit málsins velti á vitnisburðinum, enda sé málið þýðingarmikið fyrir málsaðila eða þjóðfélagið.

Nú er lækni gert að bera vitni í slíkum málum og skal það þá jafnan gerast fyrir luktum dyrum. Ákvæði þessi gilda einnig um annað starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni eftir því sem við getur átt.“ Í mínum huga er það meginmál eins og ég hef áður minnst á að eftirlit sé haft með meðferð almannafjár og t.d. má nefna það mikla fjármagn sem rennur í gegnum Tryggingastofnun. Mér finnst eðlilegt að Tryggingastofnun sjálf hafi með höndum þetta eftirlit og ég held að skipan þess verði best komið með samningum milli Tryggingastofnunar og þeirra sem eftirlitið á að ná yfir. Ég vil vekja athygli á því jafnframt að það ríkir almennur vilji meðal lækna að þetta eftirlit sé viðhaft. Ég vil vitna í nýlegt fréttabréf lækna frá því í marsmánuði á þessu ári og benda mönnum á það, það er reyndar 3. tölublað, gefið út 1. mars, þar sem vitnað er í fundarályktun Læknafélags Reykjavíkur. Á almennum félagsfundi í Læknafélagi Reykjavíkur var samþykkt eftirfarandi ályktun, með leyfi forseta:

„Fundur í Læknafélagi Reykjavíkur, 8. febr. 1988, leggur áherslu á nauðsyn þess að haft sé öflugt og virkt eftirlit með störfum og reikningum lækna. Fundurinn harmar þann misskilning, sem komið hefur fram í fjölmiðlum, að samtök lækna vilji á nokkurn hátt halda hlífiskildi yfir læknum sem gerast brotlegir við lög og reglur, en leggur áherslu á að fyllsta trúnaðar og nafnleyndar sé gætt meðan rannsókn stendur yfir. Fundurinn felur stjórn Læknafélags Reykjavíkur og formanni gjaldskrárnefndar Læknafélags Reykjavíkur að finna lausn á framkvæmd þessa eftirlits á þann hátt að samningsaðilar geti sætt sig við og hagsmunir sjúklinga verði tryggðir.“

Reyndar er í þessu fréttabréfi rakinn aðdragandi þessa máls og öll framvinda þess og ég bendi mönnum á að kynna sér það frá sjónarmiði lækna því að ég hygg að við samningu þessa frv. hafi ekkert samband verið haft við Læknafélagið.

„Ekki fer á milli mála“, stendur áfram, „að læknar sem vinna samkvæmt gjaldskrá telja sjálfsagt og eðlilegt að haldið sé uppi eftirliti með reikningum. Hins vegar hefur risið ágreiningur um framkvæmd þess. Skoðanir lækna eru skiptar hvort það teljist þagnarskyldubrot að trúnaðarlæknar greiðsluaðila kanni sjúkraskrár til að sannreyna réttmæti reikninga. Burtséð frá þeim skoðanamun telur stjórn Læknafélags Íslands að sjúkraskrár séu hvorki ákjósanleg né traust heimildargögn um réttmæti reikninga og liggja til þess ástæður sem óþarft er að rekja hér. Gjaldskrárnefndin hefur bæði fyrr og síðar bent á aðrar fljótvirkari og öruggari aðferðir sem gagnaðilar hafa ýmist ekki talið hagkvæmar eða óframkvæmanlegar að svo komnu. Stjórn og gjaldskrárnefnd hafa lagt til eftirfarandi vinnulag við framkvæmd eftirlits með gjaldskrárreikningum heilsugæslulækna.“

Síðan fylgja ítarlegar tillögur í fjórum liðum sem ég mun ekki lesa upp hér en vísa mönnum á að kynna sér. - Og áfram segir: „Til að rannsókn samkvæmt ofanskráðri lýsingu geti farið fram þarf að taka strax á málum. Töf á afgreiðslu hindrar eðlilega úrvinnslu, sama hvaða leiðir eru farnar. Þess vegna verða Tryggingastofnun og sjúkrasamlög að setja sér vinnureglur um eftirlit með reikningum lækna þannig að strax megi grípa inn í ef grunur leikur á misbeitingu. Þá er mikilvægt að samstarfsnefnd Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Íslands fái með reglubundnum hætti upplýsingar um reikninga lækna svo hún geti gripið inn í ef þurfa þykir, jafnvel áður en samlög tækju ákvörðun um slíkt. Framangreindar leiðir hafa verið kynntar fyrir þeim aðilum sem gagnrýnt hafa núverandi eftirlitsákvæði. Hafa þeir lýst sig samþykka þeim vinnubrögðum sem að framan er lýst. Tillögur hafa verið kynntar og ræddar á fundum með samninganefnd Tryggingastofnunar ríkisins og má telja að málunum miði í samkomulagsátt. Takist samkomulag milli samningsaðila ætti öllum deilum um framkvæmd eftirlitsákvæða að vera lókið.“

Í ársbyrjun, 12. jan. á þessu ári, ritaði formaður samninganefndar Tryggingastofnunar ríkisins grein í Morgunblaðið sem ég vil vitna til, en hann heitir Helgi V. Jónsson:

„Allt frá árinu 1978 hefur verið ákvæði í samningum aðila að heimilt væri að tilteknir læknar skoðuðu sjúklingabókhald lækna, en í því felst að bera saman læknisverk samkvæmt reikningi og læknisverk samkvæmt sjúklingabókhaldi. Voru það í fyrstu tveir sérstaklega tilkvaddir læknar, en frá árinu 1984 hafa læknar Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlaga haft þessa heimild samkvæmt samningunum. Eru þeir ekki síður bundnir þagnarskyldu en aðrir læknar samkvæmt læknalögum, enda ráðnir sem slíkir. Læknafélögin og Tryggingastofnun ríkisins eru sammála um, eins og fram kemur í framangreindum samningi, að tryggja eigi sem best rétta beitingu hinnar umsömdu gjaldskrár og að eftirlit sé viðhaft til að fyrirbyggja misferli með almannafé. Var eftirlit þetta þegar árið 1979 úrskurðað heimilt af siðanefnd lækna.“

Þannig er ljóst að báðir málsaðilar eru hlynntir því að eftirlitið fari fram. Spurningin er í raun bara um hvernig á að gera það þannig að trúnaðarskylda sé varðveitt, en nægar reikningslegar upplýsingar fáist til þess að stofnunin geti kannað hver læknisverk hafa verið unnin og hvernig hefur verið staðið að greiðslum.

Ég tel sem sé að það sé fyrst og fremst milli Tryggingastofnunar og Læknafélagsins sem þessir samningar og þetta eftirlit eigi að fara fram. Það er síðan álitamál hvort þarf í undantekningartilvikum að veita Ríkisendurskoðun heimild til að kanna slíkt. Hún þarf þó vitanlega að geta kannað þau reikningsskil sem stofnanir sem hún á að endurskoða hafa með höndum. En ég mundi eindregið mæla með því að afgreiðsla þessa máls yrði fyrst og fremst milli Tryggingastofnunar og Læknafélagsins eða þeirra aðila sem hún greiðir beint fyrir unnin verk.

Ég á sæti í hv. heilbr.- og trn. deildarinnar og mér gefst þá tækifæri til að ræða þetta mál. Ég tel nauðsynlegt að það komi fram bæði í umræðunni um málið og kannski ekki síður í greinargerð að þegar um væri að ræða gjaldskrár lækna sem þessi lög eiga að ná yfir að þar væru fundnar ákveðnar reglur þar sem trúnaðarskyldu læknis við sjúkling væri gætt en sem jafnframt heimiluðu nauðsynlega endurskoðun. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka það sérstaklega fram að endurskoðunin sé undir öllum kringumstæðum aðeins heimil með þeim reglum sem tryggja að trúnaðarsambandið verði ekki rofið. Ég tel það mjög mikilvægt.