13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6296 í B-deild Alþingistíðinda. (4336)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er um að ræða fjallar ekki sérstaklega um lækna eða neinn sérstakan aðila sem þiggur greiðslur frá ríkinu heldur alla þá sem hafa viðskipti við ríkissjóð. Það er hins vegar svo að málefni lækna hafa blandast í þetta mál að gefnu tilefni. Tilefnið er vissulega alvarlegt og hefur rekið á eftir því að menn eru að tala um breytingar á þessari löggjöf. Heimildir Ríkisendurskoðunar til að skoða bókhald aðila hafa verið vefengdar og því verður að styrkja þessar heimildir.

Það virðist, þrátt fyrir hið lögboðna viðfangsefni stofnunarinnar að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga, hafa láðst að marka þær eftirlitsheimildir til handa stofnuninni gagnvart þeim aðilum sem sótt hafa getað greiðslur í ríkissjóð á grundvelli laga, verksamninga eða gjaldskrársamninga við ríkisstofnanir.

Það eru fjölmargir sem þiggja greiðslur frá ríkinu og eru það aðrir en sveitarfélög. Það eru fyrirtæki og það eru einstaklingar og verður ríkið að mínu mati eða Ríkisendurskoðun að hafa heimild til að skoða hver eru rök fyrir reikningum hverju sinni. Ég hef rætt við fjölmarga aðila sem hafa komið nálægt þessum málum og hafa þeir nefnt hin ótrúlegustu dæmi um hvernig menn geta misnotað aðstöðu sína á herfilegan hátt með auðvitað þjófnaði gagnvart ríkinu. Ég tilgreini bara aðeins eitt dæmi hér, sem er rétt, að viðkomandi hafi komið til læknis og það skráð í sjúkraskýrslu að hann sé með hálsbólgu, en reikningurinn hljóðar upp á gips á fæti. Þetta er aðeins eitt dæmi. Þau eru fjölmörg önnur til. Og þetta segir okkur að það er þörf á því að skoða þessa hluti eins og aðra.

Mjög hefur verið gert úr því að trúnaðarskylda lækna sé ekki í heiðri höfð með þessari löggjöf eða frv. þessu, ef það verður að lögum, en ég tel að það sé mikill misskilningur þegar af þeirri ástæðu að sú gagnaskoðun sem talað er um er í rauninni óframkvæmanleg af öðrum en læknum sem bera sömu trúnaðarskyldur og þeir sem eiga að varðveita þennan trúnað við sjúklinga sína.

Þá ber þess að geta að á starfsmönnum Ríkisendurskoðunar hvílir að sjálfsögðu þagnarskylda sem öðrum opinberum starfsmönnum um allt það sem þeir komast að um persónulega hagi manna í störfum sínum. Ég skil vel þessar athugasemdir eða efasemdir, en ég tel að það sé séð fyrir því að þessi trúnaður sé ekki brotinn. Hann má heldur ekki brjóta og það verður ekki gert eða það er ekki til þess ætlast og ekki meiri líkur til þess en með öðru fyrirkomulagi.

Hvers vegna voru þessar heimildir Ríkisendurskoðunar vefengdar? Það má spyrja að því vegna þess að það eru í gildi samningar við Læknafélagið um hvernig með þessi mál skuli fara. Tryggingastofnun taldi sig vera í góðri trú í þessum efnum. Ríkisendurskoðun taldi sig í góðri trú með það að mega skoða öll þessi gögn. En það að vefengt hefur verið hvort hún gæti það gerir það að verkum að hér verður að marka skýrar línur.

Ég skil hins vegar ekki mótrök hv. 11. þm. Reykv. sem ræðir um að það sé nóg vald að kafa í vasa landsmanna eftir sköttum og segir jafnframt að hann sé ekki á móti eftirliti. Ég tel að þetta sé röng hugsun, að eitthvað slíkt sé á ferðinni að menn séu að kafa ofan í vasa almennings á einn eða annan hátt heldur er verið að sannreyna hvað snertir fé sem krafið er af ríkinu hvort það sé eðlilegt að þess fjár sé krafist, ekkert annað. Ég tel að þeir sem fyrir þessu verða megi verða ánægðir með að Alþingi eða Ríkisendurskoðun geti skoðað þessa reikninga eða að þær fjárreiður sem lúta að reikningum sem vísað er á ríkissjóð séu skoðaðar og þess vegna komið í veg fyrir að nokkur vafi sé á því að greiða skuli. Það er ekki hægt að líða að einstakir aðilar geti tekið af ríkissjóði svo mikið fé sem þá lystir án þess að ríkissjóður eða Ríkisendurskoðun geti skoðað hvort það sé eðlilegt. Þess vegna verður að setja þessa löggjöf og ég treysti því að hv. deild muni sameinast um það að mestu leyti að samþykkja þetta frv. Annars gengur Ríkisendurskoðun lömuð til leiks og hvers konar óprúttnir aðilar geta haldið áfram að taka fé úr ríkiskassanum án þess að eiga það skilið.