13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6300 í B-deild Alþingistíðinda. (4338)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Það féllu stór orð í minn garð hjá hv. síðasta ræðumanni. Ég held að fáir hafi frá þessum hv. þm. fengið eins mikla átölu og ég í þessari ræðu. Þess vegna tel ég það vera skyldu mína að koma hér upp og gera ögn betur grein fyrir mínum skoðunum, og þá fullyrðingum sem hann talaði um að ég hefði haldið hér fram.

Hv. þm. segir að ég hafi byggt þetta allt á misskilningi og að ég hafi talað um stjórnarskrárbrot, ég hafi verið andsnúinn þeim lögum sem sett voru um Ríkisendurskoðun. Þvert á móti sagði ég í ræðu minni að ég teldi að Ríkisendurskoðun ætti að heyra undir Alþingi. Það var eitt atriði og kom skýrt fram. Það kom líka skýrt fram að ég teldi að þessi réttur, sem þarna er og kemur fram í þessu frv., ætti ekki að heyra undir Alþingi eða stofnun sem er á þess vegum.

Ég kom ekki inn á það að þetta frv. væri stjórnarskrárbrot í þeirri merkingu sem hv. þm. vildi vera láta. Ég sagði það vera mína skoðun að þetta frv. samrýmdist ekki þeirri stjórnskipun sem við höfum byggt okkur. Og á því er grundvallarmunur. Ef Alþingi, sem án efa er valdamesta stofnun innan ríkiskerfisins, telur að það vilji setja lög um ákveðin atriði þá hefur það þessa heimild. En það sem ég taldi að væri, væri það að ég teldi ekki rétt, miðað við þá hugsun sem ég held að sé eðlilegust varðandi þrígreiningu valdsins, að löggjafinn tæki sér meira vald en það að setja hér lög. Ég tel raunar að Alþingi hafi á undanförnum árum algjörlega - ég segi það beint út - algjörlega vanrækt þá skyldu sína að hugsa fyrst og fremst um það að setja landinu lög.

Alþingi hefur á undanförnum árum verið að færast í þá átt að vera að vasast ofan í gjörðir framkvæmdarvaldshafanna og ég held þegar maður lítur á það frv. sem hér átti að leggjast fram og átti að ræðast, um aðgreiningu framkvæmdarvalds og dómsvalds, þá held ég að Alþingi þurfi að fara að hugsa sinn gang um það hvernig það vill marka þessa þrígreiningu sem stjórnarskráin er byggð upp á.

Ég held við þá skoðun sem kom fram hér í fyrri ræðu minni um að það vald sem hér er verið að ræða um hafi ekki átt að vera í lögum um Ríkisendurskoðun. Það er seinni tíma túlkun og þessi lög, sem lög um Ríkisendurskoðun eru byggð á, eru að meginstofni til frá árinu 1931. Og aldrei á þeim árum þegar Ríkisendurskoðun var undir fjmrn. var talað um það að þessi heimild yrði fyrir hendi. Ég get ekki séð í grg. eða í umræðum hér á Alþingi að talað hafi verið um það að Ríkisendurskoðun ætti að hafa meira vald en stjórnsýsluaðilar. Hafa það vald að fara ofan í gögn sem yfirstofnun hefur ekki heimild til þess að fara ofan í.

Ég held að þarna sé komið að þeim kjarna sem var í minni ræðu, að ég tel það vera hlutverk Alþingis, ef stjórnsýslan á að starfa eðlilega og við eigum að gera þá kröfu til stjórnsýslunnar, eins og eðlilegt má þykja, að hún hafi heimildir í lögum til þess að sinna því hlutverki sem hún á að sinna. Alþingi á ekki að koma með einhverja stofnun sem heitir Ríkisendurskoðun og segja: Hérna er spilling í ríkiskerfinu, nokkuð sem stjórnsýslan getur ekkert farið ofan í. Mér finnst hlutverk Alþingis vera frekar það að skapa stjórnsýslunni þannig reglur að hún hafi heimildir til þess að fara ofan í hluti sem hún telur sér eðlilegt að fara ofan í. Í því máli sem hér um ræðir og talað hefur verið um, þá var það Tryggingastofnun ríkisins sem fór þess á leit við Ríkisendurskoðun að Ríkisendurskoðun færi í þetta mál út af því að Tryggingastofnun ríkisins hafði ekki heimild til þess að fara ofan í reikninga læknanna. Mér fyndist það mjög eðlilegt að Alþingi samþykkti lög er heimiluðu Tryggingastofnun að fara ofan í þessa hluti, en ekki að það sé þriðji aðili einhvers staðar úti í bæ sem kæmi allt í einu og vildi fá heimild til að skoða þessa reikninga og kæmi svo með fullyrðingar í þá átt að þetta sé bara bruðl og vitleysa í ríkiskerfinu.

En þar sem hv. 4. þm. Vestf. taldi ekki ástæðu til að fara ofan í þá hluti sem ég ræddi um, þá sýnist mér nú þeir standa þangað til þeir með rökum verða felldir. Og hvorki í fyrra starfi mínu né hér á Alþingi hef ég mætt því að á rök mín hafi verið slegið með þeim hætti sem hér var, slegið með þeim hætti að þetta væri bara misskilningur og eitthvert rugl. Mér finnst þetta af forseta Sþ. vera mjög lágkúrulegt, ef ég á að segja alveg eins og er.