13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6331 í B-deild Alþingistíðinda. (4346)

431. mál, virðisaukaskattur

Guðmundur Ágústsson:

Frú forseti. Hér hefur verið lesin úr Alþingistíðindum mjög fróðleg lesning og segir manni að það þarf ekki að líða langur tími á milli þess að menn skipti um skoðun og allt í einu eru vond mál orðin að góðum málum. Það er kannski eins gott. Pólitíkin er þannig að oft eru veður fljót að skipast í lofti og menn vita ekki hvenær þeir komast í þá aðstöðu að fá að ráða ríkjum. Þá er kannski oft þannig að þau mál sem lögð hafa verið fram reynast fjandi góð.

Ég ætlaði ekki að hafa mjög langt mál um það frv. sem hér er til umræðu. Til þess hef ég ekki haft nægilega langan tíma. Við þingmenn Borgarafl. höfum ekki átt þess kost að kynna okkur þetta frv. fyrr en núna sl. mánudag þegar það var lagt fram - eða a.m.k. ekki ég þó að þetta frv. hafi farið á milli þingflokksformanna. Ég kem því aðeins til með hér að ræða um mína skoðun á þessu máli sem ég á frekar von á að eigi einhvern hljómgrunn innan míns flokks.

Það kerfi sem í virðisaukaskattinum felst er veruleg breyting frá því kerfi sem gildir um söluskatt. Þegar svona kerfisbreyting á sér stað þarf að huga að mörgum atriðum og ekki aðeins þeim er líta til ákveðinna greina. Það liggur ljóst fyrir að virðisaukaskattur kemur sér mjög vel fyrir útflutningsatvinnugreinar og þær greinar samkeppnisiðnaðar sem framleiða og selja á íslenskum markaði. Um það sem slíkt er ekki ágreiningur. Hins vegar hefur þetta kerfi í mínum huga ýmsar aukaverkanir og er ekki eins gott og af er látið af hæstv. fjmrh.

Ég tel t.d. að þetta kerfi hafi ekki í för með sér minni skattsvik og vísa til þess sem fram kemur í skýrslu skattsvikanefndar þar sem skattsvik eru a.m.k. ekki minni í nágrannalöndunum en hér. Tel ég því áætlun um þá peninga sem áætlað er að komi í ríkissjóð vegna minni undandráttar ekki byggða á föstum rökum.

Það sem ég hef aðallega áhyggjur af í þessu kerfi er skriffinnskan og hvernig þetta kerfi kemur til með að leika smáfyrirtæki og þá aðila sem vilja stofna fyrirtæki og hafa það smátt til að byrja með og láta það síðan vaxa, en það er burðarásinn í íslensku atvinnulífi. Ég held að það hafi gerst erlendis, bæði í Noregi og Danmörku, að litlum fyrirtækjum hafi fækkað verulega vegna skriffinnsku sem þessu fylgir.

Það liggur líka ljóst fyrir að innan ríkiskerfisins þarf að bæta við mannafla til að fylgja þessu kerfi eftir. Það kostar ekki aðeins 30–40 menn heldur kostar það tölvuvæðingu ásamt þeim kostnaði sem því fylgir, það kostar nýtt húsnæði og fleira sem telja mætti til en ég tel samt ekki ástæðu til að minnast á hér.

En það sem ég hef aðallega á móti þessu nýja kerfi, virðisaukaskattskerfi, er að ekki er gerður greinarmunur á hvers konar vöru er um að ræða. Ég tel algera nauðsyn að hér verði a.m.k. tvö skattstig, annars vegar fyrir nauðsynjavörur og hins vegar fyrir annan varning.

Samkvæmt skýrslu OECD, sem birt er með frv., er það innan EBE frekar undantekning en regla að notað sé eitt skattstig. Í flestum löndum eru tvö og alveg upp í sex í Belgíu. Það er aðeins í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eða í Danmörku og Noregi sem eitt skattstig er, en í öðrum löndum eru skattstigarnir tveir eða fleiri. Það segir manni að í þessum löndum er hugsað fyrir því sem meginmarkmiði að fólk geti komist af en ekki að kerfið sem slíkt geti „fúngerað“. Það er hugsað um manninn sem slíkan en ekki allt hugsað út frá kerfinu. Sá hugsunarháttur sem hér er boðaður er kerfishugsunarháttur sem ég held að við eigum að reyna að komast hjá að lögleiða. Hann hefur gefist mjög illa. Ég tel, því miður, að sú ríkisstjórn sem nú er við völd hugsi meira um nauðsyn kerfisins en nauðsyn þess að fólk geti lifað í landinu.

Ég get tekið undir það sem fram hefur komið hjá hv. 6. og 7. þm. Reykv. Það er ýmis starfsemi sem ég tel að flokka megi undir undanþágu og það er sérstaklega menningarstarfsemi. Mun ég ásamt þingmönnum Borgarafl. leggja fram brtt. innan skamms um að skattþrepið á matvæli og menningarstarfsemi verði lægra en hinn almenni skattur og er hugsað til þess að virðisaukaskatturinn á matvæli verði í kringum 11%. Ég tel það mjög eðlilegt.

Það eru önnur atriði í þessu frv. og í grg. sem ég vil vara við og þá sérstaklega það sem frá er greint á bls. 41 og 42 í grg., hvernig ríkisvaldið ætlar að ná þeim tekjum til baka sem það tapar með upptöku virðisaukaskatts. Þar koma fram þrjár hugmyndir og þá eflaust hugsun þessarar ríkisstjórnar eða hæstv. fjmrh. um hvernig hann ætlar að brúa þetta bil.

1. Að skattleggja innistæður í bönkum, sparifé landsmanna.

2. Að hækka verð á varningi Áfengis- og tóbaksverslunarinnar.

3. Að minnka barnabætur og niðurgreiðslur.

Það er aðallega þessi síðasti liður sem ég tel mjög varhugaverðan og mun aldrei samþykkja. Mér fannst ekki ofrausn þegar söluskattskerfið var tekið upp um áramótin á matvæli að því skyldi fylgja hækkun barnabóta og niðurgreiðslna og ef á að taka það af aftur með upptöku virðisaukaskattskerfis held ég að illa sé komið fyrir þessari ríkisstjórn.

Ég ætla ekki að fara ofan í einstaka liði þessa frv., en langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig túlka eigi 34. gr. Þar er einhver mynd af tollkrít tekin upp. Það er ákvæði í tollalögunum um að fjmrh. geti heimilað ýmsum innflutningsaðilum varnings að greiða ekki strax söluskatt, og þegar þetta er tekið upp virðisaukaskatt, og gefa þá 30–60 daga frest á greiðslu þessa skatts. Þessi heimild í tollalögunum hefur ekki verið raunhæf. Mig langar því að spyrja hvort við megum eiga von á því að settar verði ákveðnar reglur um hvenær heimila skuli tollkrít eða hvort þetta eigi að vera loðið eins og nú er.

Ég tel ekki ástæðu að öðru leyti til að fara ofan í frv., en vil ítreka það, sem ég sagði áðan, að að óbreyttu mun ég ekki samþykkja frv. og er sérstaklega andvígur því að það sé aðeins eitt skattþrep. Ég kem til með að sitja þessa viku og næstu í fjh.- og viðskn. og þar munum við eflaust fara mjög vandlega ofan í einstakar greinar frv. og hugmyndina um virðisaukaskatt sem slíkan. Ég vil því bíða með frekari umfjöllun þangað til að 2. umr. kemur.