13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6333 í B-deild Alþingistíðinda. (4347)

431. mál, virðisaukaskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Sú niðurstaða hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnar Agnarsdóttur var mjög eftirtektarverð, eftir að hún hafði fjallað í ítarlegu máli bæði um Mareoni-skeytasambandið og virðisaukaskattinn, að hvað sem um hann að öðru leyti mætti segja virtist sér þó sem hann kæmi sér vel fyrir atvinnuvegina, sérstaklega útflutningsatvinnuvegina. Í því samhengi hlýtur að vera innifalið einnig samkeppnisatvinnuvegina. Ég er henni öldungis sammála um það og þá um leið hitt væntanlega líka að með því að við með breyttu skattkerfi getum styrkt þessar undirstöður íslensks efnahagslífs stígum við líka mikilvægt skref til þess að við getum styrkt lífskjörin hér á landi með því að við með þessum hætti stöndum vel á bak við þessar undirstöðuatvinnugreinar íslensks þjóðfélags. Vitaskuld er kjarninn í málinu sá að með því að lögfesta virðisaukaskattinn er verið að styrkja atvinnulífið í landinu og færa það til þess horfs sem vænlegt er í þeirri samkeppni sem við hljótum í nútímaþjóðfélagi að eiga við innflutninginn, atvinnugreinar í öðrum löndum í sambandi við okkar útflutning. Það er höfuðmarkmiðið með þessari skattalagabreytingu eins og tekið er fram í frv. viðvíkjandi þessum þáttum. Virðisaukaskatturinn mismunar ekki framleiðslugreinum eða framleiðsluaðferðum. Hann hefur ekki áhrif á val neytenda á neysluvörum eða þjónustu. Hann veldur ekki tilviljanakenndri hækkun framleiðslukostnaðar. Hann bætir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum aðilum, sem búa við virðisaukaskatt, bæði á erlendum mörkuðum og hérlendis. Þetta eru auðvitað þau markmið sem við viljum ná.

Ég get vel undir það tekið að skoðanir eru skiptar um hvort virðisaukaskatturinn út af fyrir sig hafi það í för með sér að innheimta og eftirlit með álagningu verði öruggara en kannski sé hægt að gera með söluskatti ef þannig verður að honum staðið að framkvæmd hans sé örugg. En við vitum á hinn bóginn um það söluskattskerfi sem hefur verið hér á landi og er raunar enn að það er mjög örðugt í einstökum atriðum og veldur því að söluskattsinnheimtan kemur misjafnlega við ýmsan atvinnurekstur. Og síðast en ekki síst er erfitt að skilgreina oft og tíðum hvers konar vinna, sem unnin er inni í fyrirtækjum nú, skuli vera söluskattsskyld. Getum við þar nefnt t.d. endurskoðun, lögfræðiþjónustu, tækniþjónustu og ýmislegt annað sem því tengist. Það er auðvitað tilhneiging hjá fyrirtækjunum til þess að smokra sér undan söluskattinum þegar menn með menntun á þessum sviðum eru í þeirra þjónustu og enginn vafi á því að þar er eitt gatið í söluskattskerfinu. Við getum bent á ýmis göt önnur. Ég held að sú almenna niðurstaða sé viðurkennd í þinginu að eftir því sem undanþágurnar eru fleiri og erfiðara að skilgreina þær, eftir því séu meiri líkur til þess að undandráttur verði frá framkvæmdinni eins og hún er hugsuð. Ég held þess vegna að hv. þingdeildarmenn geti verið fullkomlega sammála um það að ef við berum saman það frv. sem hér liggur fyrir og tökum hins vegar söluskattskerfið eins og það hefur verið lögfest sé ekki vafi á því að innheimtan verði réttlátari og eftirlit auðveldara með því að skatturinn sé örugglega lagður á og skili sér í ríkissjóð. Þess vegna er enginn vafi á því að þetta frv. er líka merkilegt skref í þá átt að uppræta undanbrögð frá opinberum gjöldum, hvað svo sem almennt má segja um mismunandi virðisaukaskatt og mismunandi söluskatt án þess að bera nákvæmlega saman annars vegar frv. eins og þetta og framkvæmdina eins og hún er, heldur er einungis talað um það frá fræðilegu sjónarmiði. En við erum nú ekki að gera það að þessu sinni heldur einungis að tala um hlutina eins og þeir liggja fyrir og ég held að þeir sem um þetta hafa fjallað séu sammála um það að frv., ef að lögum verður, muni verða til þess að uppræta undanbrögð frá skatti. Þess vegna er líka nauðsynlegt að það verði lögfest.

Ég held að ég hljóti að hafa misskilið þau ummæli sem féllu hjá a.m.k. einum ef ekki fleiri ræðumönnum um það að með frv. væri gert ráð fyrir því að þrengja að margvíslegri menningarstarfsemi meira en gert hefur verið, í sambandi við t.d. listmálara. Nú er það svo samkvæmt söluskattslögum að þau verk sem listmálarar selja sjálfir beint til kaupenda eru undanþegin söluskatti og hið sama gildir um virðisaukaskattinn. Samkvæmt frv. ber þeim heldur ekki að greiða virðisaukaskatt af málverkum þannig að þeir verða að þessu leyti í sömu stöðu. Ef við lítum á hinn bóginn til endursölu á listaverkum er hún nú með margvíslegum hætti. Aðalreglan er sú að söluskattur fellur á málverk sem ganga kaupum og sölum í verslunum þó svo að merkileg undanþága sé frá því í sambandi við listmunauppboð, en eins og hv. þm. rekur minni til voru á síðasta þingi samþykkt lög um það að sérstakt gjald yrði lagt á listaverk á listmunauppboðum sem renni í sjóð og komi til endurgreiðslu til þeirra listamanna sem máluðu viðkomandi verk eða hjuggu höggmyndir, auðvitað með þeim takmörkunum sem höfundarétturinn setur.

Að öðru leyti hygg ég að frv. taki sambærilegt tillit til menningarstarfsemi eins og nú er. Ef einhver atriði eru þar öðruvísi, sem rök standa til að taka til greina, hygg ég að samkomulag geti um það náðst nema þar sé um ágreiningsefni að ræða sem vegna eðlis skattsins sé mismunandi mat á hvernig farið skuli með. Ég legg því ekki mikið upp úr þeim ummælum sem um það hafa fallið.

Ég tók eftir því að eitt atriði í frv. var sérstaklega umdeilt og það er það ákvæði að virðisaukaskatturinn skuli lagður á matvæli. Nú er það auðvitað álitamál hvernig menn vilja með það fara. Við vitum að það var á sínum tíma umdeilt og umdeilanlegt hvort rétt væri að fella söluskatt niður af matvælum. Það var gert í tveim áföngum og við vitum að fyrir því voru færð óyggjandi rök að sú ákvörðun leiddi til undanskots frá söluskatti. Þetta liggur fyrir. Þetta er ekki umdeilanlegt. Þetta leiddi m.ö.o. til vissrar spillingar í álagningu og innheimtu söluskattsins sem ógerningur var við að gera. Þess vegna var sú ákvörðun tekin að leggja söluskatt á nýjan leik á matvæli. En samtímis var það gert í fyrsta lagi að hækka persónufrádráttinn. Í öðru lagi voru fjölskyldubætur hækkaðar og í beinum tengslum við það einnig tekjutrygging til aldraðra. Og við vitum að sömuleiðis var tekin ákvörðun um það að stórauka niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Allt var þetta gert til þess að létta á þeim sem minnstar tekjurnar hafa og af þeim sökum þyngstar byrðarnar vegna uppihalds.

Hér hefur aðeins verið nefnd ein tala í sambandi við niðurfellingu á matarskattinum svonefnda, að ef hann félli niður þyrfti ekki að hækka virðisaukaskattinn nema í 24 eða 25% og þá væntanlega búist við því að sömu tekjur næðust í ríkissjóð eða þá að útgjöld ríkissjóðs minnkuðu. Dæmið kæmi eins út fyrir ríkissjóð með plúsum og mínusum.

Ég veit nú ekki alveg hvernig þetta er hugsað. Við fyrstu sýn dettur manni auðvitað í hug að hv. þm. hafi ekki hugsað sér það að virðisaukaskatturinn yrði felldur niður af öllum matvælum eða þá hitt, sem líka kemur til greina, að hann hafi hugsað sér að minnka persónuafsláttinn eða þá draga úr niðurgreiðslum eða með öðrum hætti létta á ríkissjóði. Að öðrum kosti sé ég ekki að þessar tölur komi heim og saman. En þannig er það nú oftast nær þegar við erum að tala um það hér í þinginu að við viljum lækka skatta. Þá viljum við, ef við erum í stjórnarandstöðunni, ógjarnan tala um afleiðingarnar af því fyrir ríkissjóð að skattarnir lækki. Mig minnir að það hafi verið Magnús dósent sem sagði það á sínum tíma að heimurinn liti öðruvísi út af tröppum Landsbankans en Stjórnarráðsins. Eins er það kannski um ríkissjóð og þær kvaðir sem lagðar eru á hann. Þær líta allt öðruvísi út þegar viðkomandi stendur uppi í fjmrn. eða er oddviti stjórnarandstöðunnar hér á þingi. Alveg með sama hætti og við heyrðum það áðan í ræðu hv. 7. þm. Reykv. að hann gat dregið upp úr sínu pússi ótal ummæli sem núv. hæstv. fjmrh. sagði meðan hann var í stjórnarandstöðunni. Alveg með sama hætti getur hæstv. fjmrh., ef honum sýnist svo, dregið upp úr sínu pússi margvísleg ummæli sem þessi sami þm. hafði uppi þegar hann mælti sem ráðherra í ríkisstjórn. Þannig er nú þetta. Það er hlutverk stjórnarandstöðunnar að reyna að mála hlutina svona viðkunnanlegum litum, elskulegum litum, og raunar féll hér eitt ógætilegt orð áðan sem menn hentu gaman að. Mig minnir t.d. að hv. 6. þm. Reykv. hafi, þegar síðasta ríkisstjórn var við völd, hent gaman að því að einn af ráðherrum þeirrar stjórnar tók sér annað slagið í munn orðið „litli maðurinn“ og sagðist bera umhyggju fyrir honum. En ég tók ekki betur eftir en þessi sami þm. talaði um þennan sama „litla mann“ áðan, en ekki, eins og maður hefði kannski getað búist við, um litlu konuna. Þannig fer nú þetta að menn tala með ýmsum hætti eftir því hvernig þeir eru staddir.

Ég geri ekki mikið með það þótt hv. 7. þm. Reykv. hafi talað svo áðan að við mundum ekki ná samkomulagi um það að reyna að hraða afgreiðslu þessa máls. Frv. er mjög vel unnið. Það hefur verið lagt fram hér á Alþingi í nokkuð breyttu formi, ég man ekki hvort það er þrisvar sinnum áður eða eitthvað svoleiðis. Ég hygg að það muni a.m.k. vera svo. Hér er um kunnugleg og margrædd ákvæði að ræða og ég vil mega vænta þess að í fjh.- og viðskn. takist eins og jafnan áður samkomulag um vinnubrögð þannig að menn þurfi ekki undan því að kvarta að ekki sé reynt að leita þeirra upplýsinga sem talið er nauðsynlegt né kalla þá menn til sem þurfa þykir.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, aðeins fagna því að þetta frv. er fram komið. Það er mjög mikilvægur liður í því mikla starfi sem nú er unnið af hæstv. ríkisstjórn til þess að bæta tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og markar þáttaskil í ríkisfjármálum. Ég vil mega vænta þess að um vinnubrögð öll takist hið besta samkomulag.