13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6343 í B-deild Alþingistíðinda. (4354)

431. mál, virðisaukaskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að það er rangt eða misskilningur hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að menningarstarfsemi sé hlíft í þessu plaggi. Hann tiltók ákveðin atriði varðandi sölu á málverkum. Af því að málið er honum skylt í margföldum skilningi vil ég benda honum á að það er gert ráð fyrir því í frv. eins og það liggur hér fyrir að virðisaukaskattur sé greiddur af uppboðum af hvaða tagi sem eru og að uppboðshaldarar sjái um að hann sé greiddur. Það eru engin ákvæði um það í frv. að uppboð á málverkum séu undanþegin í þessu efni. Það er hvergi á það minnst.

Ég vil síðan taka fram að mér láðist áðan að geta þess að ég tel að ákvæði frv. varðandi byggingarstarfsemi séu ákaflega sérkennileg og ég efast um að það sé hægt að framkvæma þau eins og hæstv. ráðherra gerir tillögu um. Það er mál sem við ræðum síðar.

En ég þakka hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að lokum fyrir þær upplýsingar sem komu fram í hans ræðu og voru fróðlegar, benda til þess að hæstv. fjmrh. verði að leita stuðnings Alþb. við að koma í gegn þeim skattkerfisbreytingum sem hann gerir grein fyrir á síðu 41 í plagginu. Og ég er fullviss um að Alþb. er reiðubúið til að aðstoða hann þó í litlu sé í þessu efni ef nauðsyn krefur.