13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6349 í B-deild Alþingistíðinda. (4359)

293. mál, áfengislög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hélt að forsjónin mundi forða mér frá því að taka til máls í þessu máli, en svona fer nú, þrátt fyrir góðan ásetning, að hér er ég kominn, ekki til að flytja langa ræðu heldur einungis til þess að vara við þeirri brtt. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að mæla fyrir áðan.

Reynsla Svía var sú að þeir bönnuðu framleiðslu á akkúrat þessari tegund öls sem Steingrímur Sigfússon er að leggja hér til, þ.e. milliöli, og það er mikil umræða meðal Finna um það að fara að dæmi Svía. Mér sýnist á ræðu hv. flm. brtt. að ef meiri hluti nefndarinnar hefði flutt frv. um það að heimila áfengt öl að styrkleika 3,4–4% hefði hann orðið með því máli. Ég fæ ekki annað út úr þeirri ræðu sem hann hélt hér áðan. Og þá finnst mér að hann gangi lengra heldur en flm. í að innleiða skaðvænlegt, áfengt öl.

Varðandi peningana til forvarnarstarfsins er sú till. sjálfsagt góðra gjalda verð ef menn telja að 75 millj. kr. verði heppilegast varið með þessu móti. Ég vek athygli á því að þar sem við sitjum báðir í fjh.og viðskn. Nd., við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, höfum við stundum gripið til þess ráðs við afgreiðslu lánsfjárlaga að setja þar inn kafla sem hefst á orðunum „þrátt fyrir“. Það væri ósköp þægilegt að komast fram hjá þessu ákvæði með því að segja: Þrátt fyrir ákvæði áfengislaga nr. þetta og þetta verður ekki varið til forvarnarstarfs á árinu nema þessari upphæð. Það er því tómt mál að setja inn einhverja tölu þarna. Ég er sem sagt alfarið á móti þessari brtt. og vara við því að samþykkja hana.