13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6352 í B-deild Alþingistíðinda. (4361)

293. mál, áfengislög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að taka þátt í almennum umræðum um þetta mál vegna þess að ég er enginn sérstakur áhugamaður á þessu sviði.

Hins vegar hef ég margt um þetta mál að segja og ég hef lengi tekið þátt í umræðum um þetta mál.

Ég hygg að það séu líklega ein 35 ár síðan ég tók þátt í fyrstu umræðunum á málfundi um þetta mál, reyndar ásamt tveimur vinum mínum sem báðir sitja nú hér á þingi. Seinna hef ég haft minni áhuga á þessu en ég hafði fyrir 35 árum, en hef þó ævinlega verið á því að núverandi ástand í þessum málum væri órökrétt og ekki stætt á því að taka út úr eina tegund og láta gilda um hana sérreglur eins og verið hefur.

Ég viðurkenni að samþykkt bjórfrv. gæti vissulega eitthvað aukið heildarneyslu áfengis, en ég hygg að í mörgum tilvikum yrði um að ræða neyslu sem engu máli skipti. Tökum bara t.d. þá mörgu sem hugsanlega munu fá sér hálft eða eitt bjórglas fyrir svefn. Sennilega er það fyrst og fremst til heilsubótar og veldur ekki tjóni, en mun auðvitað þegar á heildina er litið hækka eitthvað prósentutölur um neyslu þjóðarinnar án þess að skipta máli. Ég tek mönnum því vara á því að ætla að álykta með einföldum hætti út frá breytingum á heildarneyslu. Mér finnst satt best að segja að í áfengismálunum skipti kannski meira máli hver áfengisáhrifin verða og að áfengisáhrifin verði ekki með þeim hætti að menn fari illa með áfengi og verði sjálfum sér og öðrum að tjóni. (ÓÞÞ: Er það að drekka það eða hella því niður að fara illa með áfengi?) Ja, það getur verið hvort tveggja og fer eftir því á hvað er hellt niður.

Ég held að það skipti nú mestu máli að menn drekki eitthvað sjaldnar sterkustu drykkina og að áfengisáhrifin, þau sem verst verða, verði í sem fæstum tilvikum. Það hefur verið mitt meginsjónarmið og frá því sjónarmiði hef ég ekki getað fallist á að bjórinn væri hættulegasti drykkurinn af þeim drykkjum sem hugsanlega eru á boðstólum. En ég viðurkenni að það má tala lengi um þetta mál og færa rök með og móti og það verður hver og einn að gera þetta upp við sína samvisku.

Seinast þegar frv. um þetta efni var hér til umræðu hafði ég forustu fyrir því að þjóðinni yrði gefinn kostur á að segja álit sitt á málinu, flutti um það till. ásamt fleiri þingmönnum í hv. Ed. Till. var samþykkt þar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða. Mér datt ekki annað í hug en að þannig mundi málið verða afgreitt. En þá voru til einhverjir þeir sérvitringar hér í hv. Nd. sem voru að vísu miklir áhugamenn um það að málið yrði samþykkt en gátu alls ekki hugsað sér að það yrði samþykkt ef þjóðin fengi eitthvað um það að segja og því felldu þeir frv. þegar það kom til Nd.

Ég hef, vegna þess að þetta hefur nú einu sinni gengið yfir, ekki hugsað mér að hafa frumkvæði að því öðru sinni að flytja till. í þessum dúr, en ég tek hins vegar fram að ég styð till. af þessu tagi ef hún kemur fram hér og mun vafalaust greiða henni atkvæði, má mikið vera ef ég yrði ekki meðflutningsmaður að henni ef mér væri boðið það. En ég ætla ekki að hafa forustu fyrir því í annað sinn úr því að svona fór í fyrra sinnið. Hins vegar verðum við að skoða þetta mál í dálítið víðara ljósi en efni frv. gerir ráð fyrir. Ég held að þó maður styðji málið geti maður haft áhyggjur af vissum hliðum þess. Það er t.d. hugsanlegt að í auknum mæli átti menn sig ekki á því að þeir séu undir áhrifum og keyri bíl og valdi tjóni. Þá er spurningin hvort ekki sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að upplýsa menn um hvers þeir eru að neyta. Ég er ekki viss um að það sé nema tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar sem áttar sig á því að eftir að hafa drukkið úr einni bjórdós eru menn búnir að innbyrða svo mikið magn af áfengi að þeim er ekki leyfilegt að aka bifreið. Ég er ansi hræddur um að margir átti sig ekki á þessu. Ég dreg þá ályktun af því að þar með þurfi ég ekki endilega að vera á móti málinu sem slíku en að nauðsynlegt sé að vara menn við, gera mönnum ljóst hvert er innihald dósarinnar eða flöskunnar, og almennt álít ég að fræðsla um áfengismál sé ákaflega langt á eftir tímanum og ekki í neinu samræmi við það sem þörf er á.

Ég tek eftir því að áróður um tóbaksvarnir hefur borið mikinn og ágætan árangur. Ég sé ekki betur en á þessu sviði liggjum við dálítið eftir. Þess vegna hef ég haft frumkvæði að því að hér er flutt till. sem var verið að enda við að útbýta, en flm. hennar eru, auk mín, Kristín Halldórsdóttir, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Friðjón Þórðarson, Níels Árni Lund og Óli Þ. Guðbjartsson.

Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Ráðherra skal skipa fimm manna nefnd til að gera tillögur er stuðlað gætu að því að draga úr heildarneyslu áfengis. Meðal annars ber nefndinni að fjalla um verðlagningu áfengis og leiðir til að vara við hættum sem fylgja neyslu þess, t.d. með áprentuðum upplýsingum um áfengishlutfall og ákvæði umferðarlaga. Einnig skal nefndin gera tillögu um sérstaka fræðsluherferð, einkum meðal skólafólks, um áfengismál er hefjist eigi síðar en mánuði áður en lög þessi koma til framkvæmda.“

Gert er ráð fyrir að þetta sé ákvæði til bráðabirgða.

Ég held að þessi till. þurfi ekki öllu frekari skýringar við.

Ég tel að það ætti að standa á hverri flösku sem seld er frá Áfengisversluninni hvert áfengismagnið er og hugsanlega mætti standa á flöskunni líka hvað þyrfti mikið til að menn væru komnir yfir þau mörk sem umferðarlög setja. Ég er nefnilega viss um að fólk gerir sér ekki mikla grein fyrir því hvað það má drekka mikið af hvítvíni eða rauðvíni eða sjerríi, svo önnur dæmi séu nefnd, áður en það ekur bifreið. Satt best að segja er það áreiðanlega minna magn en flestir halda. Þar af leiðandi mundi ekkert veita af upplýsingum um áfengisinnihald þeirra vökva. Einnig getur vel komið til greina að hafa einhverjar frekari aðvaranir á þessum drykkjum sem væru í eðlilegu samræmi við vísindalegar niðurstöður. Ég held að það verði ekki hrakið að þær aðvaranir sem settar hafa verið á tóbak hafa verið byggðar á vísindalegum niðurstöðum. Það má vera að allt sé óljósara hvað áfengi varðar, en vafalaust mætti þar vera einhver áletrun sem við ætti.

Ég vil taka það fram að ég styð till. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um fjáröflun til fræðslustarfsemi. Satt best að segja geri ég alveg ráð fyrir því að þessar till. hefðu verið sameinaðar og fluttar sem ein till. ef tími hefði gefist til þess. En það virðist vera svo mikill hraði á þessu máli, og mátti engu muna að þessi till. frysi úti í gær, að það gefst ekki ráðrúm til að undirbúa till. og því koma þær fram í tvennu lagi. En ef menn skoða þessar tvær till. sjá menn að þær eiga ákaflega vel saman og þær eiginlega styðja hvor aðra og skýra hvor aðra þannig að það er sannarlega ekkert því til fyrirstöðu að þær séu báðar samþykktar.

Það atriði till. sem fjallar um verðlagningu áfengis er flókið mál sem ég ætla ekki að fara hér að rökræða mörgum orðum, en auðvitað skiptir miklu máli hvaða verðlag er á þessum vörum og stundum hefur það hent satt best að segja að verðlag á þessum vörum hefur sigið niður mjög mikið og áfengi hefur orðið verulega miklu ódýrara hlutfallslega en áður var. Á því hljóta að vera ýmsar hliðar og ekki ólíklegt að margir muni vilja koma í veg fyrir að áfengi verði óeðlilega ódýrt því enginn vafi er á að hátt verðlag heldur á móti óhóflegri neyslu.

Ég minnist þess að þegar ég kom í fjmrn. árið 1980 sá ég að verðlag á áfengi hafði verulega dregist aftur úr á liðnum árum og það var sérstakt átak með öðru að hífa áfengisverðið upp á nýjan leik. Ég hygg að áhrif áfengis á vísitölu framfærslukostnaðar á áratugunum milli 1960 og 1980 hafi átt vissan þátt í þessu. Menn skirrðust við að hækka áfengið í réttu hlutfalli við verðlagsbreytingar vegna þess að menn voru að reyna að halda niðri verðbólgu. Sem betur fer var ákveðið á árinu 1979 að taka áfengið út úr vísitölunni og í kjölfar þess þótti mér sjálfsagt að gera ráðstafanir til þess að verðlag á áfengi væri í eðlilegu hlutfalli við verðlag eins og áður hafði verið.

Sem sagt: Það þarf að skoða verðlagspólitíkina almennt og það á ekki að láta neinar tilviljanir ráða þar ferðinni. Því er það eðlilegt hlutverk þessarar nefndar að skoða þessa hlið málsins, auk þess sem nefndinni er ætlað að standa fyrir sérstakri fræðsluherferð sem þá yrði væntanlega kostuð með þeim fjármunum sem fengjust inn ef till. hv. þm. Steingríms Sigfússonar fæst samþykkt.