13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6355 í B-deild Alþingistíðinda. (4363)

293. mál, áfengislög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þætti vænt um að það yrði kannað hvar hv. 1. þm. Norðurl. v. elur manninn. Hann beindi til mín ákveðnum orðum hér og ég vildi gjarnan fá tækifæri til að svara því lítillega ef hæstv. forseti vildi vera svo góður. (Forseti: Það mun verða grennslast fyrir um hvar hann elur manninn.

Reyndar kemur í ljós á skerminum hjá mér að hann hefur vikið úr húsinu.) Það verður þá varla að því gert, herra forseti. Ég geri svo sem engar kröfur um að hv. 1. þm. Norðurl. v. verði handjárnaður og fluttur hingað nauðugur ef hann kærir sig ekki um að taka áfram þátt í umræðunni, en það verð ég þó að segja í þessu tilviki eins og öðrum slíkum hliðstæðum að mér finnst heldur óviðurkvæmilegt að menn vaði í ræðustólinn og séu með ummæli og kannski má segja skot á aðra hv. þm. en yfirgefi síðan þinghúsið og taki ekki frekar þátt í umræðum þannig að ekki sé þá hægt að svara þeim og gjalda líku líkt.

Ég hafði einmitt hugsað mér að fræða hv. þm. Pál Pétursson, 1. þm. Norðurl. v., ofurlítið úr því að hann greinilega þekkir ekki fræðin sín og hefur ekki lesið heima og veit ekki hvað hann er að tala um. Hv. þm. hélt því fram að brtt. mín gengi út á það að leyfa milliöl eins og það var í Svíþjóð. Það er ekki rétt. Það skal upplýst að milliölið sænska var 4,5% að styrkleika, vínanda að rúmmáli, og þeir sem til þekkja vita að hver prósenta eða hálf prósenta á þessu bili hún vegur mjög þungt. Það sem hér er lagt til er að leyfa léttara öl en þar var um að ræða. Ég muni kalla þetta léttöl eða léttmilliöl eftir því hvaða nöfn menn vilja velja því. Ég held að það sé stór munur á því hvort neyslan liggur á bilinu 3–4% eða 4–5% í ölinu. Það vita allir sem þessi mál hafa kynnt sér að á þessu bili verða miklar breytingar á innihaldi og eðli vökvans og neyslumunstursins sem fylgir.

Svo maður tali bara venjulega íslensku, herra forseti, og ég geri ekki ráð fyrir að það verði ástæða til að áminna mig þó ég láti það vaða miðað við ýmislegt sem hér er látið óátalið, þá gengur mönnum verr að drekka sig fulla af léttara öli en 4–41/2%.

Reynsla Svía af milliölinu, fyrir hvað var hún sérstaklega slæm? Það er leitt að hv. þm. Páll Pétursson skuli ekki vera í þessari kennslustund þannig að hann viti þetta það sem hann á eftir ólifað. Hún var slæm vegna þess að það dró stórlega úr neyslunni á léttara ölinu. Hún færðist upp í millistyrkleikann, úr öli sem var á bilinu 2–31/2–4% og upp í þennan milliölsflokk. Það töldu Svíar og það kom enda í ljós að væri mjög óheppileg þróun. Ég velti því reyndar fyrir mér hvort 4% væru of hátt mark og hefði gjarnan viljað hafa þetta 3,75% því að sérfræðingar mínir í þessum efnum fullyrða að mörkin á milli liggi um þetta bil, frá 3,75% og upp í 4,25%. Þegar styrkleikinn er orðinn meiri en það verður veruleg breyting á munstrinu ef menn skilja hvað ég er að fara með þeirri leiðinlegu klisju.

Ég tel sem sagt, og þóttist hafa rökstutt það sæmilega áðan, að það væri af tvennu illu betra að leyfa þá léttan ölflokk á þröngu styrkleikabili og auglýsa það rækilega og merkja og um það er brtt. mín. Það má taka sem dæmi að vínandainnihald í einni 33 cl flösku, svo eitthvað sé nú tekið, af 4% styrkleika er minna en í tveimur íslenskum pilsnerflöskum í dag. Það var ákveðin viðmiðun sem ég hafði í huga að áfengisinnihaldið í einni slíkri flösku yrði minna en úr tveimur pilsnerflöskum og í daglegri umgengni held ég að menn teljist ekki hafa sturtað í sig brennivíni á Íslandi þó þeir fái sér tvær pilsnerflöskur.

Það hefði kannski verið ástæða til þess að skýra þetta úr því að það kemur í ljós hér á árinu 1988, þegar bjórmálin eru búin að vera iðulega til umræðu ár eftir ár, að menn eru greinilega ekki betur að sér en þetta, a.m.k. ekki sumir hv. þm., um þá flokka öls sem um er að ræða og styrkleika í einstökum tilvikum. En þetta er þannig að milliölið sænska var 4,5% að styrkleika. Alþjóðlegur staðall fyrir svonefnt export-öl er öl með 5% og meira og svo er enn sterkara öl til sem gengur undir ýmsum nöfnum, kennt við fíla eða kartöflur eða guð má vita hvað. Þetta þurfa menn helst að vita og í öllu falli að rangfæra ekki og snúa út úr þessari brtt. Hún er ekki um að leyfa öl af sama styrkleikaflokki og sænska milliölið var.

Páll Pétursson, 1. þm. Norðurl. v., þarf ekki að kenna ræðumanni stafrófið í þeim efnum að löggjafarvaldið og fjárveitingarvaldið er hjá Alþingi og er til afgreiðslu á hverju ári. Það er móðgun við hv. alþm. að láta líta svo út í máli sínu að mönnum sé ekki ljóst að hvert einasta Alþingi sem situr getur breytt lögum, hvort sem heldur er að skerða fjárveitingarákvæði eða breyta þeim með einhverjum öðrum hætti. T.d. gæti næsta Alþingi breytt þeirri niðurstöðu sem hér kynni að verða í þessu bjórmáli. Þetta vita allir hv. þm. og þarf ekki að vera uppi með einhverja aulafyndni um það hér.

Ég lýsti hins vegar þeirri skoðun minni að menn mundu veigra sér við því að hjóla í það strax á næstu árum að skera niður sérmerktar tekjur til forvarna og fræðslustarfa gegn neyslu áfengis og vímuefna ef það lægi ljóst fyrir að þær fjárveitingar voru settar inn um leið og þessi breyting var gerð á áfengislögunum. Ég mundi leyfa mér að halda, og vil vona það, að það verði sú döngun í þingmönnum framtíðarinnar að þetta héldi. Ef þetta færi þannig fram að í tengslum við þessa breytingu, ef af verður, yrði ráðstafað sérstaklega fjármagni til forvarnar- og fræðslustarfs á grundvelli þess skilnings þingmanna að það væri mikilvægt í tengslum við þessa breytingu, þá mundu menn ekki gerast svo litlir að narta í það strax á næstu árum. En það kæmi auðvitað í ljós ef af yrði.

Herra forseti. Ég stóð hér upp til að svara þessari ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. einkum og sér í lagi. Hann var ekki viðstaddur til að hlýða á mál mitt, en það gerðu hins vegar aðrir hv. þm. og ég vona að mér hafi tekist sæmilega að svara fyrir þær till. sem ég flyt.

Eins og ég sagði í upphafi geta menn endalaust velt vöngum yfir því hvar sé farsælast meðalhófið í þessum efnum og hvar beri að hafa reglur og hvar eigi að beita fræðslu- og forvarnarstarfi. Það verður víst aldrei fundin nein endanleg og ævarandi niður staða í þeim efnum. Ætli það verði ekki mat manna, breytilegt í tímans rás, hvað menn til telja að þurfi að vera bundið í lögum í þágu almannaheilla og hvað sé hægt að leysa með öðru móti? En það skiptir þá líka máli, hvað sem lögunum líður, að menn hafi skilning á vandamálinu, horfist í augu við það og bregðist við samkvæmt því. Það er ekki nóg, hæstv. heilbrmrh., að tala um að það þurfi meiri peninga í forvarnarstarf og fræðslu og ýmiss konar hliðstæða starfsemi gagnvart heilsugæslu og öðrum slíkum málum. Það þarf þá að vera hægt að gera eitthvað í málunum. Það þarf þá að vera pólitískur vilji fyrir því að gera eitthvað. Við erum langþreytt á því öll, hv. alþm. og þjóðin, að menn séu uppi með falleg fyrirheit í því sem ég kalla sunnudagsræðum, þá sé þetta allt gott og blessað og þá eigi að gera allt fyrir alla, en þegar á hólminn er komið stendur mest lítið af því. Ég hef, þó ekki eldri maður, hlustað á margar fallegar ræður á hátíðarstundum. Þegar menn fyllast eldmóði og ætla að gera allt fyrir íþróttahreyfinguna eða gera allt fyrir ungmennafélögin eða gera þetta eða gera hitt. Hvað verður svo úr þegar á hólminn er komið? Er ekki betra að menn reyni þá að hafa orðin hógværari og standa svo við það sem þeir eru að reyna að segja? Ég mun að sjálfsögðu leggja það á minnið sem hv. alþm. hafa hér sagt um einlægan áhuga sinn á fræðslu- og forvarnarstarfi og endist mér aldur til og gefist tími skoða hvað varð úr efndunum. En ég bendi mönnum á þá einföldu og handhægu aðferð að samþykkja brtt. mína og síðan till. hv. þm. Ragnars Arnalds o.fl. sem geta farið mjög vel saman. Þá eru menn búnir að afgreiða málið fyrir sitt leyti og sýna að þeir meina eitthvað með þessum ræðuhöldum.

Einmitt vegna þess sem hv. þm. Páll Pétursson vitnaði til, að á hverju ári eru afgreidd lánsfjárlög með löngum hala af „þrátt fyrir ákvæðum“, væri held ég mjög skynsamlegt að reyna að ganga frá þessu í lög. Heldur hv. þm. að það gangi betur að fá peninga í þetta á næstu árum ef það er ekki stafkrókur um það að svo skuli gert en þó að hafa það bundið í áfengislögum? Við skulum þá tala við þá menn, hv. þm., ef okkur endist aðstaða og aldur til, sem ætla að hjóla í að skerða þetta strax á næstu árum ef þessi breyting nær fram að ganga.