13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6360 í B-deild Alþingistíðinda. (4367)

462. mál, hreppstjórar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er aðeins tvennt sem mig langar að inna hæstv. dómsmrh. eftir.

Það er í fyrra lagi hvort ekki beri að skilja ákvæði 2. gr. svo að hún verði þá fyrst virk þegar sitjandi hreppstjórar láta af störfum og aðrir verða skipaðir í þeirra stað. Og í öðru lagi vil ég spyrja hvernig með það verði farið því mér sýnist í ákvæðum 3. gr. að það sé nokkurt misræmi á milli aðstöðu sveitarfélaganna hvað það varðar að þau sveitarfélög, þar sem sýslumaður hefur ekki skrifstofu, hafa umsagnarrétt um hverjir úr hópi umsækjenda verði skipaðir hreppstjórar, en í því tilfelli að sýslumaður hafi skrifstofu í þéttbýliskjarna er honum samkvæmt orðanna hljóðan í 3. gr. heimilt að skipa þann forstöðumann jafnframt hreppstjóra án þess að sveitarfélagið á staðnum, að séð verður, hafi umsagnarrétt um það mál. Þar er að vísu úr vöndu að ráða því að væntanlega yrðu forstöðumenn ráðnir og jafnvel starfandi áður en að slíkri sameiningu starfanna kæmi, en ég bendi engu að síður á þetta misræmi og það gæti valdið vandkvæðum, svo að ekki sé sagt leiðindum, að staða sveitarfélaganna yrði mismunandi hvað þetta snertir.