13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6363 í B-deild Alþingistíðinda. (4370)

462. mál, hreppstjórar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég heyrði ekki allar þessar umræður, en mér sýnist á 2. gr. frv. að það geti verið heppilegra að hafa annað fyrirkomulag í sambandi við að velja hreppstjóra. Þar sem ég þekki til held ég að það verði ekki margir til þess að sækja um slíka stöðu þó auglýst væri. Ég held að það væri miklu heppilegra að leita til sveitarstjórnanna um ábendingu, um annaðhvort einn eða tvo menn sem væru til þess taldir heppilegastir, og síðan að sýslumaður á hverjum stað kannaði hvort þeir mundu taka tilnefningu. Ég er alveg sannfærður um að ef auglýst yrði t.d. í hreppum sem ég þekki best yrðu það ekki heppilegustu mennirnir sem sæktu.

Ég vildi koma þessari ábendingu til hæstv. ráðherra, en hef ekkert meira um málið að segja. Þetta er afleiðing af því að leggja sýslunefndirnar niður. Það verður með einhverjum hætti að ráða bót á þessu máli, en ég held að þetta sé skásta leiðin.