13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6381 í B-deild Alþingistíðinda. (4377)

415. mál, þjóðminjalög

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er frv. þetta samið af nefnd sem skipuð var af menntmrh. í nóvember 1987. Í þessari nefnd áttu m.a. sæti þingmenn úr fjórum þingflokkum sem nú eru á Alþingi. Þetta frv. er síðan flutt af þessum fjórum þingmönnum ásamt þingmönnum úr hinum tveim þingflokkunum.

Það er eflaust minn ókunnugleiki sem veldur því að mér finnst einkennilegt að menntmrh. skuli ekki flytja þetta frv. og þá sem stjfrv. Ég vil því spyrja 1. flm., sem jafnframt var formaður nefndarinnar sem samdi frv., hver ástæðan sé fyrir þessu.

Það kemur einnig fram í grg. með frv. að árið 1981 skipaði þáv. menntmrh. nefnd til að endurskoða þjóðminjalögin sem eru frá 1969. Nefndin skilaði ítarlegu áliti og tillögum að nýjum þjóðminjalögum. Í þeirri nefnd voru Friðjón Guðröðarson, Gunnlaugur Haraldsson og Þór Magnússon.

Við 1. umr. ætla ég að ræða lítillega um byggðasöfnin. Ég vil taka undir með 1. flm. um mikilvægi byggðasafnanna og að starfsemi þeirra eigi að greiðast úr sameiginlegum sjóðum. En í þessum tillögum, sem þremenningarnir sendu frá sér, kemur fram í 5. gr. að landið skuli skiptast í sex minjasvæði, Reykjaness, Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands og Suðurlands. Svo langar mig, með leyfi forseta, að lesa 6., 7. og 8. gr. þessara tillagna, en þær eru svona:

6. gr.: Umsjón með minjavernd á hverju minjasvæði landsins er í höndum svæðisráðs sem skipað er einum fulltrúa úr stjórn allra viðurkenndra minjasafna á svæðinu, safnvörðum [sem sagt forstöðumönnum safna] og minjaverði sem jafnframt er formaður og framkvæmdastjóri ráðsins.

7. gr.: Menntmrn. skipar minjaverði að fengnum tillögum þjóðminjaráðs og svæðisráðs hlutaðeigandi minjasvæðis. Ríkissjóður greiðir nauðsynlegan stofnkostnað við embættið og föst laun minjavarðar. En um reksturskostnað og skiptingu hans milli ríkis og sveitarfélags fer eftir nánari ákvæðum í reglugerð.

Minjaverðir skulu hafa aðsetur við eftirgreind miðsöfn á viðkomandi minjasvæðum: Árbæjarsafnið í Reykjavík fyrir Reykjanesminjasvæði, Byggðasafn Akraness og nærsveita fyrir Vesturlandsminjasvæði, Byggðasafn Vestfjarða á Ísafirði fyrir Vestfjarðaminjasvæði, Minjasafnið á Akureyri fyrir Norðurlandsminjasvæði, Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum fyrir Austurlandsminjasvæði, Byggðasafn Árnessýslu á Selfossi fyrir Suðurlandsminjasvæði. Minjavörður skal að öllu jöfnu gegna forstöðumannsstarfi við viðkomandi minjasafn.

Í tengslum við embætti minjavarðar skal vera miðstöð fyrir sérfræðilega þjónustu og ráðgjöf fyrir önnur söfn og almenna minjavernd á svæðinu.“

Þarna kemur fram að gert er ráð fyrir að minjaverðir hafi aðsetur við ákveðin söfn á hverju minjasvæði og að kostnaður við embætti og laun minjavarðar skuli greiðast úr ríkissjóði. Jafnframt er gert ráð fyrir ákveðinni valddreifingu þar sem gert er ráð fyrir að svæðisráð hafi umsjón með minjavernd á hverju minjasvæði.

Þegar félmn. Nd. hafði til meðferðar frv. um breytta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga núna í desember komu Þór Magnússon og Gunnlaugur Haraldsson, safnvörður á Akranesi, til viðræðna við nefndina. Þá lögðu þeir mikla áherslu á að efla þyrfti byggðasöfnin um allt land og auka tengsl þeirra við Þjóðminjasafnið í Reykjavík.

Mér þykir því 9. gr. frv. ákaflega lítilfjörleg eða alla vega mjög veik ef henni er ætlað að leiða til verulegra breytinga frá þeirri skipan sem nú er, en 9. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sérstakir minjaverðir skulu starfa á vegum þjóðminjavarðar, einn í hverjum fjórðungi. Skulu þeir hafa umsjón með menningarminjum landsfjórðungsins, skráningu og eftirliti fornminja og gamalla bygginga, svo og vera byggðasöfnum til ráðuneytis og aðstoðar. Skulu þeir taka laun til jafns við deildarstjóra Þjóðminjasafns og greiðist kostnaður við laun og starf þeirra úr ríkissjóði.“

Þessi hluti greinarinnar er kannski ekki svo slæmur, en það sem kemur á eftir er það sem mér fannst svolítið veikt og tel að þar sé ekki nógu skýrt ákveðið um hlutverk minjavarða og að þeir skuli starfa á minjasvæðunum, en þar segir: „Menntmrh. skipar minjaverði til starfa um lengri eða skemmri tíma eftir aðstæðum að fengnum tillögum þjóðminjavarðar.“

Þarna er því aðeins gert ráð fyrir að menntmrh. skipi þá til lengri eða skemmri tíma í hverjum fjórðungi, þ.e. það er ekki farið eftir þeim tillögum sem ég vitnaði til, hvorki um skiptingu landsins í minjasvæði né um það að minjaverðir skuli starfa við ákveðin söfn á hverju svæði.

Í athugasemdum við 9. gr. segir, með leyfi forseta: „Annar meginþáttur starfssviðs þjóðminjavarðar er skráning, varsla og rannsóknir á þjóðminjum um landið allt. Reynslan sýnir að eftirlit með þjóðminjum á landsbyggðinni verður ekki viðunandi nema með bættri skipan og virðist þessi háttur sá ákjósanlegasti.“

Mig langar því að varpa fram þeirri spurningu til þeirra sem sömdu þetta frv. og eru jafnframt flm. þessa frv. hvers vegna þeir telja það fyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir vera betra en það sem kom fram í tillögunum sem ég vitnaði til áðan.

Ég tel afar brýnt að efla byggðasöfn landsins og að auka tengsl þeirra við Þjóðminjasafnið og ég er ekki viss um að það fyrirkomulag sem þetta frv. gerir ráð fyrir tryggi það á fullnægjandi hátt.