13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6387 í B-deild Alþingistíðinda. (4379)

415. mál, þjóðminjalög

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Svar við því hvers vegna þetta er þmfrv. en ekki ríkisstjórnarfrv. er einfalt. Menntmrh. hæstv. óskaði eftir því, ef svo kynni til að bera að hægt væri að fá fulltrúa úr öllum þingflokkum og raunar einn í viðbót, hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson, að þá kysi hann þá aðferð og hún er ekki óþekkt að vísu. Annað liggur ekkert að baki þeirri málsmeðferð.

Nefndin ræddi í upphafi og hefur haldið allmarga fundi um þetta mál með því sérfróða fólki úr Þjóðminjasafni sem á sæti í nefndinni með hvaða hætti skyldi að þessu staðið og auðvitað má segja kannski að það hefði mátt takast að bera fram brtt. við gildandi lög, en þó voru þessar breytingar svo margþættar að menn töldu ástæðu til að bera þetta fram sem nýtt frv.

Það var niðurstaðan að hér gerðum við tillögur um rammalög en tækjum ekki upp þann mikla doðrant sem nefndin frá 1981 gerði tillögur um þar sem kveðið er á um alla hluti út í hörgul. Ég er reyndar þeirrar skoðunar um alla lagasetningu að hún eigi að vera frekar rammalöggjöf og síðar þá út frá rammanum settar reglugerðir eftir því sem þörf er á um túlkun laganna og frekari ákvæði en að þessir firnalegu lagabálkar séu settir í lög eins og við höfum svo mörg dæmi um. Það réði niðurstöðunni hjá nefndinni að velja heldur rammalöggjöf sem síðar yrði eftir því sem þörf gerðist og krefði frekar útfyllt með reglugerðarákvæðum.

Það stendur þann veg á nú að ég ætla ekki að misnota þolinmæði hæstv. forseta, en vegna 9. gr. sjá menn auðvitað að kveðið er á um það í upphafi greinarinnar að sérstakir minjaverðir skuli starfa á vegum þjóðminjavarðar, það er fortakslaust, einn í hverjum fjórðungi og að sjálfsögðu ævinlega. Lokamálsgreinin getur valdið misskilningi sem auðvitað þarf að stemma stigu við og taka af tvímæli um að menn gætu skilið það á þann veg að það ætti enginn að vera um einhvern tíma, til lengri eða skemmri tíma. Það er aðeins átt við að það væri ekki bundið við einhver fimm eða tíu ár heldur eftir því sem fólk fengist til að starfa.

Það var enn fremur ákveðið að hverfa frá þessum fjölda sem áður hafði verið gerð tillaga um. Það yrði of viðamikið, safnaráðin um allt land, og samtengingin við Þjóðminjasafnið væri þýðingarmest í þessu.

Við hurfum frá þeim tillögum að ákveða að landsbyggðasafnvörður skyldi starfa við ákveðið safn. Það töldum við óráðlegt að setja í lög nú vegna þess að það kynni að vera ákaft tog um hvar sá ætti að sitja. En ég vil upplýsa að við höfðum raunar í huga gömlu fjórðungaskiptinguna þegar við vorum að ræða hina fjóra minjaverði. En þó þyrfti ekki endilega að vera við það bundið. En þetta var nú og er nú og mér hættir a.m.k. til að binda mig við það.

Það kann vel að vera að hér þyrfti að kveða skýrar á um mörg ákvæði. En ég vil ekki meina að galli frv. sé aðallega sá að það sé stutt og ekki í öllu falli út í þann hörgul sem menn kynnu að vilja lýsa starfseminni í heild sinni. En við skulum gjarnan gefa okkur tíma. Ég teldi að úr því sem komið er væri allt of mikil fljótaskrift á því að ætla sér að fara að busla þessu í gegnum hið háa Alþingi á þeim annríkisdögum sem enn lifa. En það er þó a.m.k. í áttina. Við erum búin að fá þetta fram og getum unnið að þessu. Þetta er þó beinagrind sem menn geta þá reynt að koma holdi og klæðum á ef mönnum finnst á skorta og annað sem hleypir þó umræðunni af stað því að við þurfum nauðsynlega á því að halda að endurskoða þessa starfsemi alla saman og setja okkur að verja meiri tíma, starfsemi og peningum til þess arna.

Það vill svo til að eitt af því fáa sem ég hafði fengið unnið í sambandi við fjárhagsáætlun þessu að lútandi var um fjóra minjaverði og þar var niðurstaðan að stofnkostnaður gæti numið 6 millj. kr. á þessum fjórum stöðum. Launakostnaðurinn er talinn geta numið sömu fjárhæð, 6 millj. kr. Þ.e. stofnkostnaður í eitt skipti fyrir öll 6 millj., launakostnaður 6 millj. og reksturskostnaður slíks embættis, ferðakostnaður og allt sem að því lýtur, 5 millj. Hér vorum við með í reksturinn 11 millj. kr. og stofnkostnað 6 millj. eða 17 millj. í allt vegna þessara minjavarða. Þetta er eins og ég segi þó það lausleg áætlun að ég treysti mér ekki til að flytja hana hér, en vil upplýsa þetta þannig að af séu tekin tvímæli um að okkur er auðvitað alvara og það á að skiljast ákvæði 9. gr. á þann veg að það sé fortakslaust að fjórir minjaverðir starfi.

Það er mjög margt annað sem ég hefði viljað ræða í þessu sambandi, en eins og ég segi: við 1. umr. læt ég við þetta sitja. En það hefur enginn gert ráð fyrir neinni fljótaskrift við afgreiðslu málsins. Ég er ánægður mjög með að takast skyldi á afmælisári Þjóðminjasafnsins að fá fulltrúa úr öllum þingflokkum til að standa að þessu frv., en hér er vafalaust ýmislegt óunnið enn og sjá betur augu en auga eins og sagt er. Ég held og veit reyndar að hér eru mjög margir áhugamenn um málið og hér eru engir pólitískir strengir sem menn leika á þannig að ég vænti þess, herra forseti, að þetta megi áður líður og áður en til lokaafgreiðslu kemur fara okkur þann veg úr hendi að allir megi vel við una að ég tali nú ekki um byggðasöfnin úti á landi þar sem margir menn hafa unnið gífurlega verðmætt, óeigingjarnt starf á liðnum áratugum og bjargað stórkostlegum menningarverðmætum. Við höfum verið allt of sinnulausir, þessir sem hafa átt að heita í fyrirsvari í þjóðfélaginu að þessu leyti.