04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

1. mál, fjárlög 1988

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég á örstutt erindi. Ég er stuðningsmaður þessa frv. í meginatriðum, ég er samþykkur meginstefnu þess, en ég hef fyrirvara á um einstök atriði og mjög sterkan um önnur, eins þau er lúta að því að ekki verði breytt frá þeirri stefnu, sem minn flokkur hefur fylgt, að við höldum áfram að byggja allt landið. Ég þykist enda þess fullviss að menn munu ekki hrökkva mjög við þótt stjórnarþm. hafi fyrirvara um einstök atriði fjárlagafrv. því að það leyfa sér nú sjálfir ráðherrarnir að hafa.

Ég ætla ekki að gera að umtalsefni nema örfá atriði. Ég hef auðvitað sterkan fyrirvara um ýmis menningarmálefni sem farið er sérkennilegum höndum um í þessari tillögugerð. En ég er ekki forustusauður í þeim efnum nú og hef enda fullt traust á þeim sem það hefur og ekki af þeim ástæðum ástæða til að fjölyrða mjög um þau í hans fjarveru. En auðvitað eru þar hlutir sem ekki eru ásættanlegir eins og fjárveitingar til grunnskóla og einstakra framhaldsskóla. Ég nefni tónlistarfræðsluna, eitt besta framtak sem gert var á sínum tíma af alþýðuflokksmanninum Gylfa Þ. Gíslasyni, hann hafði þar um alla forustu og hefur skilað gífurlegum árangri sem tómstundaiðn líka fyrir ungdóminn í landinu. Ég treysti ekki þeim aðferðum, sem nú á að viðhafa með þessari skyndingu, að færa það á herðar sveitarfélaganna. Það er ýmislegt annað sem við höfum áður rætt um að þyrfti að færa á hendur sveitarfélaganna. Þeir halda vafalaust áfram að gefa reikningana sína fyrir skólaakstrinum, oddvitarnir og hreppstjórarnir vítt og breitt um landið, og við vitum hvernig þeir hafa hljóðað.

Ég lagði drög að því að fá alveg sérstaka ég segi ekki yfirlýsingu en umfjöllun hæstv. fjmrh. um þjóðarbókhlöðumálið. Ég hlustaði grannt á framsöguræðu hans og tók ekki eftir því sérstaklega að þar væri um margt misfarið um hluti, en ef einhver þýðingarmikil efni í ræðu hans hafa verið álíka í meðförum eins og þetta þarf hann að hafa sig við allan á næstu dögum að draga aftur það sem hann hefur látið í ljós. Og hann verður að athuga það, hæstv. ráðherra, að það er orðið breytt frá því sem hann var hér stjórnarandstöðuþingmaður og leyfði sér löngum og löngum að tala út og suður um menn og málefni án þess að nokkrum dytti í hug að taka mark á því. Nú er hann orðinn hæstv. ráðherra sem verður krafinn ábyrgðar fyrir verk sín og orð. (Gripið fram í.) Ég er heyrnartækislaus. Ef einhvern langar til að tala við mig verður hann að reyna að hafa hærra.

En það hlýtur að vera lágmarkskrafa til hæstv. ráðherra að hann kynni sér lög sem í gildi eru um málefni sem hann fjallar um. Ég er með nýsett lög í höndunum og fyrsta grein þeirra hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á gjaldárunum 1987, 1988 og 1989 skal lagður á sérstakur eignarskattur er renna skal óskiptur til byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðunnar.“

Þetta eru ekki fjármunir sem hæstv. fjmrh. hefur neitt vald yfir. Þetta eru ekki fjármunir sem eiga að renna í ríkissjóð. Þetta eru fjármunir sem lúta stjórn sérstaks sjóðs og þá stjórn mynda þrír menn. Formaður er seðlabankastjóri Jóhannes Nordal og meðstjórnendur ráðuneytisstjórarnir úr menntmrn. og fjmrn.

Ég tók eftir því og hef það raunar hér fyrir framan mig að hæstv. ráðherra telur að þá samninga sem fyrrv. ráðherrar, menntmrh. og fjmrh., gerðu eigi að virða. Það er vel. En hann misfer með öllu um innihald þeirra samninga. Þeir samningar sem gerðir voru voru um það að ríkissjóður tók að láni hjá Þjóðarbókhlöðusjóði fjármuni, sem taldir voru þegar samningar voru gerðir nema um 100 millj. kr., af þeim ástæðum að framkvæmdastjórn Þjóðarbókhlöðu var þess alls óviðbúin að taka við allt að 140 millj. kr., eins og þá var áætlað að þetta gerði í sjóðinn, skattlagningin, til framkvæmda á árinu 1987. Enn fremur vegna þess að hér þótti ærin spenna í byggingarmálum og menn vildu fyrir sitt leyti og af þessum ástæðum líka draga úr henni með því að ávaxta féð öðruvísi, en með engu móti að það hafi verið í samningunum að það ætti að renna í ríkissjóð og vera þar til meðferðar án þess að á því yrðu staðin skil með vöxtum og verðbótum. Þetta er samningurinn sem gerður var milli mín og fjmrh. og hæstv. núverandi fjmrh. hefði átt að leggja lykkju á leið sína og kanna hjá núverandi hæstv. forsrh. hvernig þessir samningar voru úr garði gerðir.

Það er alveg einsýnt að ef ekki fæst um þetta sæmilegt samkomulag dugar ekkert nema alveg fastur skriflegur samningur, fyrst annað dugar ekki, milli fyrirtækisins Þjóðarbókhlöðunnar og ríkissjóðs um hvernig þessi málum skuli skipað og þeim fyrir komið. Það er vel hægt að láta reyna á þetta fyrir dómstólum ef ekki vill betur til. Hér eru lögin svo tvímælalaus. Þetta eru ekki fjármunir sem í neinu falli eru til ráðstöfunar eða þá að fjmrh. hafi neina heimild til að gera tillögu þar um meðan þessi lög eru í gildi, þeim hefur ekki verið breytt eða Alþingi hefur ekki tekið ákvörðun um að fella þau úr gildi.

Þetta verður að vera alveg ljóst og má undarlegt vera að menn skuli efna til slíks ófriðar um þetta nýafgreidda mál á hinu háa Alþingi og með þeim hræmulega hætti og raunar dylgjum sem hæstv. fjmrh. leyfði sér, m.a. með því að þetta hefði verið gert í þeim tilgangi að það væri hægt að reisa menntaskóla á Egilsstöðum. Ekki nenni ég að elta ólar við slíkan málflutning, en það vil ég taka fram og ég vara við því að þetta mál hlýtur að verða sótt til fullra laga. Ég fellst fullkomlega á að sá samningur verði áfram í gildi sem við gerðum, fyrrv. ráðherrar, um þetta efni. Ég segi fyrir mitt leyti, ef þannig stendur á um áfangaskiptingu þjóðarbókhlöðu, að vel mætti hugsa sér að sjóðurinn keypti ríkisskuldabréf og ávaxtaði þannig sitt fé. Um það skal ég ekkert segja. Eitt er víst, að auðvitað ber ríkinu að standa skil á þessum fjárhæðum til sjóðsins með venjulegum viðskiptaháttum eins og tíðkast hjá ríkinu við viðskiptavini sína, eins og ríkið borgar auðvitað lánardrottnum sínum meðalvexti og verðtryggingu fulla eins og nú tíðkast. Þetta vil ég taka núna skýrt fram og mun enda snúa mér enn frekar til hæstv. menntmrh., þegar hann verður landfastur, um framkvæmd þessa máls.

Ég vil svo aðeins segja að einnig að þessu leyti til á ég ekki von á að menn hrökkvi við þó að breyta þurfi frá tillögum því það gera menn nú sem óðast og er það sem ég finn helst að að stefnufesta er furðu lítil, bæði varðandi skattlagningu og aðra ráðstöfun og gerð þessa frumvarps.