14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6396 í B-deild Alþingistíðinda. (4391)

314. mál, framkvæmdir við Reykjanesbraut

Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherranum fyrir hans svör. Út af fyrir sig komu þau mér ekki á óvart. Ég verð hins vegar að segja að ég tel að það geti ekki dregist öllu lengur að könnuð sé formlega hagkvæmni þess að tvöfalda brautina. Þó að bílafjöldinn, 4–5 þúsund bílar á dag, teljist ekki nægilegur svona fljótt á litið til þess að tvöfalda brautina held ég að rétt væri að kanna hvernig toppar myndast á þessari leið. Þessi umferð dreifist ekki jafnt og þétt yfir sólarhringinn. Hún er fyrst og fremst á milli kl. 7 og 8 á morgnana og milli kannski 4 og 6 á kvöldin. Þá eru topparnir slíkir að þeir sem aka dagsdaglega þarna á milli, eins og ég, sjá að aukningin er slík að við slíkt verður vart unað. Ég held að kominn sé tími til að kanna formlega hagkvæmni þess að tvöfalda brautina.

Ég tek alveg undir það sem kom fram hjá ráðherranum að það er unnið að lýsingunni og að setja varanlegt slitlag á þessar „axlir“. Það er hins vegar líka slæmt varðandi lýsinguna þegar teknir eru bútar eins og t.d. hjá nýju malbikunarstöðinni og við Njarðvík og skildir eru eftir stuttir kaflar án lýsingar, þannig að maður ekur af vel upplýstum vegi inn í myrkrið, kannski 500, 600 eða 700 metra og síðan inn í lýsingu aftur. Þetta eru ekki, að mínu viti, mjög skipuleg vinnubrögð. Ég beini því til ráðherrans að það verði haft til athugunar þegar vegáætlun verður tekin til endurskoðunar. Stærstu gatnamótin óupplýst eru eftir sem áður, og hefði legið miklu meira á að lýsa þau á undan vegarkafla við malbikunarstöðina rétt við Hafnarfjörð, t.d. við Kúagerði og Grindavíkurveg. Að öðru leyti þakka ég ráðherranum svörin.