14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6398 í B-deild Alþingistíðinda. (4394)

295. mál, öryggis- og björgunarbúnaður í skipum

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Sem svar við 1. spurningu: Sá björgunarbúnaður sem lögskipaður er í íslenskum skipum kemur að verulegu leyti erlendis frá. Áður en björgunar- og öryggisbúnaður fær viðurkenningu hér á landi skal búnaðurinn hafa hlotið a.m.k. samþykki siglingamálayfirvalda í framleiðslulandi. Þegar framleiðandi eða umboðsaðili framleiðanda sækir um viðurkenningu þarf að fylgja með umsókninni viðurkenning búnaðarins í framleiðslulandi ásamt nákvæmum skýrslum um allar þær prófanir sem viðurkenningin grundvallast á. Prófanir þessar verða að fara fram undir umsjá viðurkenndrar stofnunar.

Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur staðla um það hvernig prófa skal flestar tegundir öryggis- og björgunarbúnaðar. Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir fara starfsmenn Siglingamálastofnunar yfir gögnin og kanna hvort þeim kröfum sem stofnunin gerir til viðkomandi búnaðar sé fullnægt. Ef vafi leikur þá á er framleiðanda gert skylt að láta framkvæma tiltekna athugun í viðurvist óháðs aðila, annaðhvort hér á landi eða í heimalandinu. Að öðru leyti er lítið um að búnaður sé prófaður hér á landi enda þyrfti til þess bæði fjármagn, aðstöðu og aukinn mannafla. Undantekning er þó í þeim tilfellum þar sem Siglingamálastofnunin gerir kröfur um búnað sem ekki er krafist erlendis, t.d. ýmsar viðbótarkröfur um gúmmíbjörgunarbáta og reglur um sjósetningarreglur gúmmíbjörgunarbáta, svo og reglur um björgunarnet. Prófun þessa búnaðar fer fram hér á landi.

Sem svar við 2. spurningu: Ef upplýsingar um meinta galla á viðurkenndum búnaði koma fram er fyrst sannreynt að þær upplýsingar séu réttar, t.d. með athugun á viðkomandi búnaði. Ef í ljós kemur galli er haft samband við viðkomandi innflytjanda og honum gerð grein fyrir niðurstöðum prófunar og í samráði við hann og framleiðanda leitað lausna á gallanum. Ef þessir aðilar bregðast ekki fljótt við eða engar lausnir koma fram frá þeim er viðkomandi búnaður kallaður inn til lagfæringar eða til endurgreiðslu. Skemmst er að minnast innköllunar á reykköfunartækjum sem eru um borð í íslenskum skipum. Er um að ræða tæplega 250 reykköfunartæki sem þurfa lagfæringar við.

Sem svar við 3. spurningu: Samvinna Íslands við aðrar þjóðir um viðurkenningar á búnaði er eins og áður er getið fyrst og fremst um setningu prófunarstaðla fyrir björgunar- og öryggisbúnað skipa innan þessa alþjóðlega samstarfs sem er á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Einnig hafa siglingamálastofnanir Norðurlanda með sér samstarf um samræmdar prófunaraðgerðir á búnaði þar sem ekki eru til alþjóðlegir staðlar. Um ákveðnar gerðir búnaðar gildir sú regla að viðurkenning á einu Norðurlandanna þýddi sjálfkrafa viðurkenningu á öllum hinum löndunum.

Hvað varðar upplýsingaskyldu milli nágrannaþjóða eru viðurkenningar á búnaði fyrst og fremst trúnaðarmál milli framleiðanda og viðkomandi siglingamálayfirvalda og hefur framleiðandinn mjög ákveðnar skyldur til að tilkynna tafarlaust um alla galla sem kunna að koma upp á þeim búnaði sem viðurkenndur er.

Sem svar við 4. fsp.: Allur öryggis- og björgunarbúnaður í skipum skal vera viðurkenndur af Siglingamálastofnun ríkisins í samræmi við reglur þar að lútandi. Stofnunin hefur ekki bein afskipti af búnaði þó að hann kunni að vera seldur í verslun eða upplýstur af seljendum sem öryggisbúnaður, enda eru engar reglur til hér á landi um sölu á eða eftirlit með öryggisbúnaði til skipa. Hins vegar hefur stofnunin sl. tvö ár til hagræðingar og upplýsinga fyrir eigendur skipa, skipstjórnarmenn og skipasmíðastöðvar gefið út skrá yfir allan viðurkenndan öryggis- og björgunarbúnað til skipa og hver sá sem selur lögskipaðan öryggisbúnað á að geta framvísað fullgildu skírteini um að búnaðurinn sé viðurkenndur af Siglingamálastofnun ef kaupandi er í vafa og spyr. Verði skoðunarmenn stofnunar hins vegar varir við búnað um borð í skipum sem seldur hefur verið sem öryggisbúnaður en fullnægir ekki reglum og gefur þar með falska öryggiskennd ber að fjarlægja hann úr skipinu.

Sem svar við 5. fsp.: Framleiðendum og þeim sem selja viðurkenndan björgunar- og öryggisbúnað hér á landi er skylt að tilkynna allar breytingar á viðkomandi búnaði til Siglingamálastofnunar ríkisins. Þeim er einnig skylt að tilkynna alla galla sem koma fram á viðkomandi búnaði tafarlaust til stofnunar. Í viðurkenningarskírteini sem Siglingamálastofnun ríkisins gefur út kemur fram að allar breytingar á framleiðslu sem gerðar eru án samþykkis leiða til þess að viðkomandi viðurkenning fellur úr gildi. Viðurkenning er gefin út að nýju ef prófun leiðir í ljós að breytingin hefur ekki rýrt notagildi búnaðarins.