14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6399 í B-deild Alþingistíðinda. (4395)

295. mál, öryggis- og björgunarbúnaður í skipum

Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir hans svör og vil taka fram að það er auðvitað aldrei of varlega farið í þessum efnum og ég tel að ekkert megi til spara að vel verði að þessum málum staðið.

Í sambandi við reglur sem gilda um prófanir hérna tel ég að við þyrftum að taka upp miklu meiri prófanir á öryggisbúnaði hér á landi á því sem við viljum lögleiða í okkar skipum því að það getur stundum verið þannig að reglur í framleiðslulandi eru ekki eins strangar og reglur hjá okkur. Ég get t.d. tekið sem dæmi kuldann því að hér er miklu kaldara en í mörgum öðrum löndum. Varðandi t.d. bara það atriði getur því skipt verulega miklu máli að við sjálf höfum okkar reglur og þær prófanir sem við teljum nauðsynlegar.

Varðandi það að brugðist sé fljótt og vel við er ágætt ef það er gert, en þó er mér kunnugt um það í sambandi við þessi reykköfunartæki, sem hæstv. ráðherra minntist á áðan, að það leið a.m.k. ár frá því að fyrst varð vart við að þessi reykköfunartæki voru gölluð þangað til framleiðendunum var hótað að þau yrðu innkölluð. Mér þykir það ekki að bregðast mjög skjótt við. Og það leið nærri 11/2 ár þangað til þau voru síðan innkölluð því að það var ekki brugðist fljótt við af framleiðendanna hálfu. Ég vona að það sé rétt sem fram hefur komið að breyting sé orðin á þessu og að hér eftir verði brugðist fljótt við. Og þá meina ég fljótt. Ég tel 11/2 ár ekki fljótt.

Einnig finnst mér nauðsynlegt að auka samvinnu t.d. milli Norðurlanda varðandi þessi mál, sérstaklega þegar koma upp gallar. Ífréttinni sem ég minntist á áðan varðandi björgunarbúningana, sem vart varð galla á í Danmörku, liðu ég man ekki hvort það voru eitt eða tvö ár frá því þeir gallar komu í ljós þangað til eitthvað var reynt að gera í málinu hér og það þykir mér líka allt of langur tími. Ég vona því að þetta séu bara einstök dæmi þó að margir haldi því fram að svo sé ekki og að í þessu verði breyting til batnaðar.