14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6402 í B-deild Alþingistíðinda. (4399)

312. mál, flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Ég minni á tillögu okkar þm. Norðurl. e. sem flutt var hér á síðasta Alþingi um að athugað verði hvaða úrbætur þurfi að gera á Akureyrarflugvelli til að hann geti þjónað varaflugvallarhlutverki og þá fyrir allan íslenska flugflotann.

Ég vek athygli á því að það svar sem hæstv. samgrh. gaf miðaðist við að DC-B-þotur Flugleiða yrðu áfram í notkun, en ég held að flugfróðir menn viti að það mun senn heyra sögunni til að millilandaflugi frá Íslandi verði haldið uppi á þeim vélum og þær vélar sem leysa þær af hólmi, væntanlega, þurfa styttri flugbraut og kostnaður við þær úrbætur, sem ráðherrann var að rekja, verður þá væntanlega minni sem því svarar.

Hæstv. utanrrh. hefur upplýst hér á Alþingi að hugmyndir um varaflugvöll kostaðan eða byggðan í samkrulli við herinn séu úr sögunni. Menn geta því hætt að bollaleggja um það ef marka má orð hæstv. utanrrh. Þá hygg ég að við blasi að sú leið sem hér er rædd sé sú eina raunhæfa, að lagfæra þá flugvelli og eða taka tillit til þess við uppbyggingu nýrra flugvalla að þeir geti þjónað þessu varaflugvallarhlutverki, fyrst Akureyri, síðan Egilsstaðir og svo í framtíðinni, vonandi innan fárra ára, einnig fleiri landshluta- eða héraðsflugvellir, svo sem Húsavík og Sauðárkrókur.