14.10.1987
Efri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

9. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Það var eitt sinn svo hér á hv. Alþingi að ég hafði mikinn áhuga fyrir skattamálum og hef það í reynd enn, en hef hins vegar ekki blandað mér mikið í umræður á undanförnum árum um þann málaflokk.

Hv. þm. Svavar Gestsson ræddi um það áðan að hæstv. fjmrh. hefði talað öðruvísi einhvern tíma áður um þessi mál en nú. Ekki skal ég leggja dóm á það, en ég býst við því að það sé svo bæði með hann og mig og hv. þm. Svavar Gestsson að það sé ávallt hollt og gott að kynnast málum af eigin raun. Það vill oft fara svo með alla að það er ekki jafneinfalt að koma hlutum í framkvæmd og að segja það í ræðustól á hv. Alþingi. Ég held að það hafi sannast í gegnum tíðina að menn hafa e.t.v. haldið að það væri hægt að leysa öll skattamál í ræðustól á Alþingi og með því að breyta skattalögum.

Mér finnst enn vera sá tónn í umræðunum að hv. þm. haldi að hér eigi að breyta skattalögum sem oftast og með því verði komið í veg fyrir skattsvik og komið á réttlæti í skattamálum. Það er alls ekki svo vegna þess að það sem einkum hefur skort í íslenskum skattamálum er að framkvæma þau skattalög sem fyrir eru og gefa þeim aðilum sem vinna að framkvæmd skattamála tóm til þess og frið og vera ekki alltaf að hræra í skattalögunum. Ekki þar með sagt að það eigi aldrei að breyta skattalögum, það vil ég ekki að verði skilið svo, heldur á að gera það varlega og reyna að koma anda þeirra skattalaga sem í gildi eru í framkvæmd.

Það hefur ávallt verið mikill áhugi fyrir því hér á Alþingi að fjölga undanþágum og það hefur sannast í gegnum tíðina. Og það hefur ávallt verið mikill áhugi fyrir því hér á Alþingi að fjölga frádráttarliðum. Það kemur í reynd fram í skýrslu skattsvikanefndarinnar þar sem sagt er um lögin sem sett voru 1978 og var allgóð samstaða um hér á Alþingi, þó að þau séu í mörgu orðin úrelt, að þar hafi verið bætt við ýmsum frádráttarliðum og þar með hafi framkvæmd þeirra í reynd reynst erfiðari.

Það sama á við um söluskattslöggjöfina. Á undanförnum árum, og ég á jafnframt aðild að því, hefur verið fjölgað ýmsum söluskattsundanþágum vegna þrýstings á Alþingi og í þjóðfélaginu almennt og þó fyrst og fremst til að hafa áhrif á vísitölu til að gleðja einhvern með að það væri ekki ástæða til að reikna út hvort sem það er kallað skerðing kaupmáttar eða eitthvað annað með þeim hætti sem raun ber vitni. Menn hafa verið að fjölga þessum undanþágum til að hafa áhrif á vísitölu.

Nú er svo komið að menn eru almennt sammála um það, og það er aðalatriðið í skýrslu skattsvikanefndarinnar, að þetta gangi ekki lengur. Vegna þess hafa menn m.a. ákveðið að fækka undanþágum í söluskatti í þeim tilgangi að gera það síður mögulegt að svíkja undan skatti. Með þeim hætti má beita skattalögum til þess að það verði ekki jafnauðvelt að svíkja undan skatti. Það er ekki þar með sagt að það auki réttlæti í skattamálum. Það er alveg ljóst að ekki er réttlátt í reynd að leggja sama skatt á nauðsynjavöru og lúxusvöru. Hitt er svo annað mál að það vefst fyrir mörgum í okkar velferðarþjóðfélagi hvað er nauðsynlegt og hvað er lúxus. Það hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum. Með þeim hætti tala menn m.a. nú um matarskatt, að það sé einhver sérstakur illvilji í mönnum að leggja skatt á þann vöruflokk sem er vissulega meiri nauðsynjavara en margt annað. Undir það get ég tekið. En ég tek undir þau orð hæstv. fjmrh. að ef menn meina eitthvað með því að koma á góðu skattkerfi, sem er gott að líta eftir, verður að fækka undanþágum, en þá er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að mæta því með öðrum hætti.

Mér finnst að menn blandi nokkuð saman, og hv. þm. Svavar Gestsson gerði það, þegar rætt er annars vegar um skattsvik og hins vegar skattalög. Skattsvik eru því miður mikil hér á landi, en það má ekki blanda saman heimildum í skattalögum og skattsvikum. Hann sagði að það væri mikill frádráttarfrumskógur hjá fyrirtækjum og það væri alveg rosalegt. Ég er ekki sammála þessu mati hans. Það er ekki mikill frádráttarfrumskógur hjá fyrirtækjum. Alveg er ljóst að það er meginregla í skattalögum að því er varðar íslenskan atvinnurekstur að kostnaður við öflun teknanna er frádráttarbær og ekkert annað. Og ætli það sé ekki tiltölulega einföld og góð regla að allur kostnaður sem viðvíkur öflun teknanna sé frádráttarbær?

Hann minntist á að það væru atriði eins og sektir og slíkir hlutir sem ekki væru frádráttarbær. Það eru sektir sem varða fyrirtækin sjálf. Þær sektir eru ekki skilgreindar sem kostnaður vegna öflunar tekna. Það er alveg ljóst að risna og persónuleg eyðsla eigenda eru ekki kostnaður vegna öflunar tekna og eru því ekki frádráttarbærar. Það þarf í sjálfu sér ekki að setja nein ný lög um það. Það er út af fyrir sig allt í lagi að bæta einhverjum lagagreinum um það í skattalögin. Það hefur ekkert upp á sig. En það sem hefur upp á sig er að framfylgja núgildandi lögum og það geri menn sem hafa til þess kunnáttu, getu og peninga til að gera það.

Ég tek hins vegar undir það með honum að það er reyndar nauðsynlegt að setja miklu skýrari reglur um risnu og ýmislegt slíkt. Það hefur verið gert víða um lönd og ekki bara í þeim löndum sem hann minntist á. Það var síðast gert í Bandaríkjunum þar sem það var skilgreint að ekki mætti fara út með viðskiptavini að borða nema á meðaldýrum veitingahúsum. Ef farið væri eitthvað umfram það væri það ekki frádráttarbært. Menn hafa jafnvel farið út í það að láta þá sem njóta matarins kvitta fyrir. Það má ýmislegt gera af þessu tagi og það tel ég að rúmist allt innan núgildandi laga. Það mætti framkvæma margt gott innan þeirra laga.

Hann minntist hins vegar á að það væri mikið mál að lækka afskriftir að því er varðaði matsverð vörubirgða og útistandandi skuldir og afskriftareglur. Það má vel vera að það megi eitthvað lækka þær, en ég vil hins vegar að gefnu tilefni minna á hvernig þessar afskriftir eru til komnar. (Forseti: Má ég aðeins trufla hæstv. ráðh.? Nú er liðið að lokum þessa fundartíma þannig að ég vildi spyrja ráðherra hvort hann ætti mikið eftir og gæti lokið máli sínu eða hvort hann vilji fresta því.) Ætli ég vilji ekki fresta því. Eigum við ekki halda áfram að ræða þetta mál. Það er nokkuð mikilvægt?